Rauð viðvörun

Það snjóar í Glasgow. Þetta er í fyrsta sinn á þessum 6 árum sem ég hef búið hér sem snjó festir lengur en sólarhring. Í gærmorgun var logn og jafnfallinn snjór, varla meira en 5 cm. Ég fékk þessa tilkynningu í pósthólfið „Please note that due to severe weather the University is closed today“.

Það snjóaði talsvert í gær og seinni partinn var gefin út „rauð viðvörun“ fyrir daginn í dag. Núna eru göturnar eins og á Íslandi og þyrfti að moka af bílunum ef þeir væru á annað borð að fara eitthvert. Ágætis veður samt. Skólinn er lokaður og ég átti alveg von á að þetta hefði áhrif á samgöngur en þar sem virðast margir klukkutímar í að veður sem kallar á „rauða viðvörun“ datt Íslendingnum ekki í hug að samfélagið færi á hliðina fyrr en eftir 10 kaffi. Arkaði því út á lestarstöð og tók neðanjarðarlestina til tannlæknisins. Við Einar vorum búin að velta upp möguleikanum á því að hann myndi loka í dag en ég var viss um að hann myndi þá láta mig vita. Ég fékk áminningu í gær um að ég ætti tíma í dag en heyrði ekkert meira frá honum.

Tannsi var ekki mættur og svaraði ekki síma. Neðanjarðarlestin gegnur ekki innri hringinn í dag svo ég varð að fara næstum heilan hring til baka. Þetta var klukkutíma fýluferð. Skítt með það á venjulegum degi – en ég hata snjó. Mér segir svo hugur um að þessi rauða viðvörun merki ekkert annað en að það verði svipað veður og dag og í gær en ég er eiginlega komin á þá skoðun að það sé bara góð regla að sem flestir haldi sig heima ef snjófergið verður meira en centimetra lag á venjulegum fólksbíl.

 

Deila færslunni

Share to Facebook