Ég vildi að ég gæti sagt ykkur hvað gerðist hann 24. febrúar en ég veit bara ekkert meira en það sem hefur komið fram í fjölmiðlum. Það lítur út fyrir að hann Haukur minn sé látinn. Hvorki ég né nokkur annar af nánustu aðstandendum fékk neina tilkynningu og ég hef enn ekki náð sambandi við neinn sem veit meira en það sem komið hefur fram opinberlega. Margir hafa lýst undrun sinni á því að fréttinni hafi verið dreift á samfélagsmiðlum án þess að við værum látin vita en kommon, það er ekki við því að búast að nokkrum detti í hug að samtök setji slíka frétt á netið, 10 dögum eftir atburðinn, án þess að hafa samband við fjölskylduna.
Utanríkisráðuneytið er í sambandi við ræðismanninn í Tyrklandi, alþjóðadeild lögreglunnar og fleiri stofnanir, það er verið að gera allt sem hægt er til þess að finna út hvað gerðist og hvar líkið er niðurkomið.
Fjöldi manns hefur haft samband við mig, sent kærleikskveðjur og boðið fram aðstoð, líka bláókunnugt fólk. Þótt ég sé ekki búin að svara öllum þykir mér vænt um að finna þennan samhug og mun svara þegar þar að kemur.
Ef einhver veit eitthvað sem getur varpað ljósi á það sem gerðist eða hvað annað hann Haukur minn var bardúsa síðasta árið, sendið mér þá tölvupóst á netfangið hilmarsson2018@gmail.com. Ekki senda þessháttar upplýsingar á Facebook því FB póstur getur auðveldlega farið fram hjá mér.