Til verndar konum og bílum

Rape_Culture_Protest_Ohio

Stöðugt er verið að nauðga konum. Konum er nauðgað á næturnar, snemma á morgnana, seint á kvöldin og á almennum skrifstofutíma. Þeim er nauðgað í heimahúsum, á klósettum skemmtistaða, í húsasundum, í vörugeymslum, á sólbaðsstofum, í búningsklefum íþróttahúsa, í kústaskápum hvíta hússins og í bílastæðahúsum.

Tónlistarhúsið Harpa hefur brugðist við þessum vanda með sérstökum bílastæðum fyrir konur. Þar sem alþekkt er að konum sé nauðgað utandyra og í björtu er ekki er ljóst hvernig upplýst stæði nálægt útgangi eiga að koma í veg fyrir nauðganir en mér dettur helst í hug að þau séu merkt „nauðgið ekki hér“ sem vissulega er afar gagnleg ábending. Gallinn er sá að þessi árangursríka aðferð nær aðeins til örfárra stæða, auk þess sem hún tryggir ekki að konum verði ekki eftir sem áður nauðgað í húsasundum, vinnunni, heima hjá sér o.s.frv.

Það er þó alger óþarfi að samfélagið sætti sig við nauðganir. Til er leið sem gæti jafnvel útrýmt ekki bara nauðgunum heldur öllu ofbeldi karla gagnvart konum. Hún er sú að koma einfaldlega upp sérstökum afgirtum kvennahverfum, þar sem karlmönnum yrði  bannaður aðgangur. Að sjálfsögðu yrðu kvennahverfin umkringd háum múrum og táragasi yrði dælt út um ytra byrði veggjarins þannig að enginn kæmist nálægt honum. Þannig væri hægt að veita konum raunverulega vernd gegn körlum.

Þetta fyrirkomulag hefði ennfremur þann kost í för með sér að óþarfi væri að gera ráð fyrir sérstökum kvennastæðum í bílastæðahúsum. Nema náttúrulega að þetta sé hin raunverulega ástæða fyrir sérstæðum fyrir konur. Ef sú er raunin þigg ég breiðara stæði með þökkum því ég er hinn mesti klaufi við að leggja í stæði. Ég efast þó um að sá  klaufaskapur standi í neinu sambandi við dýrðina á mér svo ef þetta snýst um að draga úr minniháttar árekstrum í bílastæðahúsum, legg ég til að við sem eigum svona erfitt með þetta fáum sérstök klaufaskírteini, frekar en að kvenkyn verði flokkað sem litningagalli. Af því að það eru líka til karlkyns klaufar, þið vitið.

Deildu færslunni

Share to Facebook