Þögn er sama og samþykki

6a0154363a7e57970c01761580e3dd970c-600wi
Sennilega geta flestir verið sammála um að einhver óhugnanlegustu afbrot sem framin eru, séu kynferðisbrot og önnur ofbeldisverk gegn börnum. Samfélag okkar dæmir menn sem fremja slíka glæpi hart, mun harðar en dómstólar. Það er hins vegar athyglisvert, hvað hinn þögli áhorfandi að slíkum brotum, sem í flestum tilvikum er móðir barnsins, virðist yfirleitt sleppa vel.

Konan er alltaf fórnarlamb

Það þarf ekki að skoða mjög marga hæstaréttardóma í kynferðisbrotaflokknum til þess að sjá athyglisvert mynstur. Hver hæstaréttardómurinn á fætur öðrum styðst við vitnisburð móður, sem árum saman varð vör við ýmis merki kynferðislegrar misnotkunar eiginmanns síns á barninu, en sá ekki ástæðu til að aðhafast fyrr en maðurinn skildi við hana.

Mér finnst það furðulegt svo ekki sé meira sagt að ákæruvaldið láti þessar mæður, sem greinilega hafa gert sig sekar um alvarlega vanrækslu, í friði. Það sem meira er; í stað þess að fordæma móður sem aðstoðar mann sinn við að eyðileggja líf barnanna, setur almenningsálitið hana í fórnarlambshlutverk og sýnir henni samúð, rétt eins og hún beri enga ábyrgð í málinu.

Bágindi firra konur ekki ábyrgð frekar en karla

Mæður sem sætta sig við að börn þeirra búi við kynferðislega áreitni, eru að mínu viti afbrotamenn en ekki fórnarlömb. Aðgerðarleysi í slíkum málum ber vott um vanhæfni foreldris og skeytingaleysi um hagsmuni barnsins. Sá sem horfir á börn sín misnotuð án þess að aðhafast er ekkert annað en þátttakandi í glæpnum. Það sama á við um margar konur sem bjóða börnum sínum árum saman upp á sambúð við mann sem lemur einhvern fjölskyldumeðlima eða jafnvel alla fjölskylduna reglulega.

Auðvitað eiga þessar konur eitthvað bágt. Vitanlega er það merki um að eitthvað mikið sé að þegar foreldri horfir upp á maka sinn eyðileggja líf barnanna og kýs að loka augunum. En það er líka eitthvað mikið að fólki sem beitir börn ofbeldi og flest okkar hafa tekið þá afstöðu að enginn sjúkleiki geti réttlætt slík brot. Hversvegna ættu þá bágar aðstæður móðurinnar að réttlæta þögn hennar; þátttöku hennar í glæpnum?

Þögn er sama og samþykki

Er nú ekki að verða tímabært að láta af þessari aumkunarverðu fórnarlambsvæðingu kvenþjóðarinnar? Er ekki kominn tími til að í stað þess að vorkenna konu sem hefur gefið þögult samþykki sitt fyrir ofbeldi gegn barni sínu og þakka henni fyrir að vitna gegn manninnum sínum (þegar hún er í hefndarhug eftir skilnað) að bæði ákæruvaldið og almenningur, varpi fram spurningum um ábyrgð hennar í málinu og láti af þessu ótrúlega umburðarlyndi gagnvart þeim sem fremja þagnarglæpi gegn sínum eigin afkvæmum? Þögn þeirra yfir glæpnum er nefnilega það sama og samþykki. Og þögn okkar yfir þáttöku þeirra er líka það sama og samþykki.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook

3 thoughts on “Þögn er sama og samþykki

  1. Svo satt og sorglegt en það þarf að breyta hugsanatengslunum: móðir= ást/umhyggja/barátta og vernd.
    Þetta er sjúkt lið og á að dæmast eins og gjörnings maðurinn. Dómstólar hafa tekið þann pól í hæðina að einhver verði að sjá um barnið og ekki hægt að svifta það báðum foreldrum í einu, en á þá ekki bara að kasta upp á hvort þeirra fari inn í fangelsi og hvort veri heima og skapi áframhaldandi hættu fyrir barnið/börnin því þau hafa bæði sýnt fram á vanhæfni sýna og skeitingarleysi um heilsu og hamingju barnsins/ barnanna. Uff erfitt mál en þetta er eitthvað sem verður að koma inn í málsókn gegn svona fólki.

  2. Takk fyrir innleggið Bjarni

    Mér finnst reyndar ofbeldi alvarlegra en vanræksla og ég efast um að fangelsi eigi nokkurntíma rétt á sér nema til þess að vernda samfélagið gagnvart hættulegu fólki. Þar fyrir er undarlegt og rangt að fólk sem horfir upp á ofbeldi gagnvart börnunum sínum skuli ekki þurfa að axla neina ábyrgð á því.

  3. ———————————

    Binni @ 28/11 09.42

    Ertu handviss um að þögn tákni ávallt samþykki? Viltu ekki hugsa þig tvisvar um? Heldur þú ekki að þögn geti verið lamandi ótti?

    ———————————

    Þorkell @ 28/11 11.10

    En er ótti næg ástæða við slíkar aðstæður?

    ———————————

    Matti Á. @ 28/11 11.40

    Í leikritinu Veislan (og myndinni festen) er einmitt áhugaverð sýn á þetta efni í lokasenunni.

    Þögn er sama og samþykki

    ———————————

    Hulda @ 28/11 19.28

    Þarna verð ég að vera algerlega sammála þér Eva. Mér finnst engin réttlæting vera til fyrir nokkra fullorðna manneskju sem kýs að þegja yfir ofbeldisverki (í einni eða annari mynd) yfir barni.

    ———————————

    Binni @ 28/11 22.04

    Mér finnst skrýtið að tala um „nægar ástæður“ í þessu sambandi, Keli, eins og óttanum sé beitt til þess að réttlæta einhvern verknað. Vitaskuld eru engar ástæður nógu góðar til þess að misnota börn. Ég veit hins vegar ekki hvort ég get tekið undir svo afdráttarlausa afstöðu gegn mæðrum barna sem eru misnotuð á heimilum sínum eins og Eva viðrar hér. Það er einfaldlega rangt að þögn þeirra jafngildi alltaf „þegjandi samkomulagi“. Öðru nær, á bak við þögnina er oft lamandi ótti sem veldur því að þær grípa ekki inn í fyrr en of seint. Þær gætu sjálfar verið fórnarlömb við þessar aðstæður.

    ———————————

    eva @ 29/11 17.36

    Það er einmitt þessi fórnarlambsvæðing kvenna sem ég er að deila á. Það er engu líkara en að margir álíti að konur séu yfirhöfuð ófærar um að taka ábyrgð á lífi sínu. Sumir telja það lögmál að konur í klám og kynlífsbransanum séu allar sem ein fórnarlömb og aðgerðarleysi kvenna sem búa við heimilisofbeldi og horfa jafnvel á börnin sín misnotuð og barin, er réttlætt með því að þær séu sjálfar fórnarlömb. Þessi umræða heyrist sem betur fer ekki þegar karlar eiga í hlut. Ég leyfi mér að fullyrða að nánast allir sem afplána refsivist á Litla Hrauni eru fórnarlömb aðstæðna. Langflestir þeirra ólust upp við óreglu, ofbeldi, geðsjúka foreldra, öryggisleysi, kvíða, föðurleysi eða fátækt, stundum þetta allt. Það réttlætir samt ekki afbrot þeirra og þeir eru skikkaðir til að axla ábyrgð. Kona sem kýs að búa börnum sínum heimili sem einkennist af “lamandi ótta” fremur en að leita aðstoðar (sem nóg framboð er af í okkar samfélagi) er ekki fórnarlamb, heldur vanhæft foreldri, meðsekt um glæp.

    ———————————

    Áslaug @ 29/11 21.26

    Tengsl á milli einstaklinga þar sem heimilisofbeldi viðgengst eru mjög sjúk. Móðir sem býr við ofbeldi gerir sér oft á tíðum ekki grein fyrir ofbeldinu á heimilinu þar sem það þróast á lúmskulegan hátt. Mörkin eru teygð og toguð. Móðirin þolir ýtingar, hrindingar og telur það varla flokkast undir ofbeldi. Smá dangl getur varla verið ofbeldi.. en þegar það þróast smám saman í meiðandi högg? Sökum tilfinningatengsla við gerandan afneitar móðirin oft alfarið að ofbeldi eigi sér stað. Eitt af því sem á sér stað á slíkum heimilum er að móðirin tekur viðhorf og skoðanir mannsins og gerir að sínum eigin, hún tapar “sjálfinu” (sumir hafa kallað þetta ideocite). Það er vegna mjög flókins ferlis sem móðirin afneitar að börnin verði vör við barsmíðar föðurs, að þau verði sjálf fyrir þeim og að hann misnoti þau tilfinningalega eða kynferðislega. Rannsóknir hafa sýnt að mæður sem brjótast út úr ofbeldissamböndum geri það ekki á því augnabliki þegar undankomuleiðin virtist greiðust

    ———————————

    Áslaug @ 29/11 21.40

    það er, hjálp hafi boðist frá fagfólki, athvarfi eða ættingjum. Mæður flýja þegar ofbeldið verður svo gróft að þær óttast um líf sitt (eða líf ófæddra barna) eða verða skyndilega að horfast í augu við ofbeldi gegn börnunum.

    Að yfirgefa ofbeldismann er eitt það erfiðasta og hættulegasta sem móðir getur gert. Ofbeldi og ofsóknir magnast oft á þeim tíma.

    Þar sem feður ráða ríkjum með ofbeldi verða allir á heimilinu sjúkir. Utanaðkomandi aðstoðar er þarfnast til að binda enda á helvítið sem gengur á innan dyra en þar sem því er svo vel leynt trúa jafnvel nánustu aðstandendur heimilisföðursins ekki því sem gengur á

    (Jafnvel þegar börn hafa tjáð sig um ofbeldið við fagfólk neitar skyldfólk gerandans að horfast í augu við ofbeldið)

    ———————————

    Áslaug @ 29/11 21.51

    Enginn KÝS börnum sínum þessar aðstæður. Tengslin sem myndast milli konu og ofbeldismanns hafa verið rannsökuð og kölluð traumatic bonding. Ef þú lest um stockholms syndrome þá öðlastu hugsanlega betri skilning á ferlinu sem á sér stað bæði hjá gíslum, pólitískum föngum og þolendum heimilisofbeldis.

    Við eigum að vera reið, hneyksluð og sár yfir þeim aðstæðum sem mörg börn búa við en þær heitu tilfinningar gagnast engum ef við beinum þeim að þolendum. Deilum á kerfið sem neitar að taka á heimilisofbeldismálum, dómsmálaráðuneytið sem kallar heimilisofbeldi félagslegt vandamál og vísar á félagsmálaráðuneytið sem kallar ofbeldi glæp og vísar því til baka á dómsmálaráðuneytið. Enginn vill þessi mál inn á borð til sín.

    Mæður geta ekki einu sinni verndað börn sín þó þær yfirgefi feðurna því umgengisrétturinn er svo sterkur. Börnin eru réttlaus í kerfinu.

    ———————————

    Áslaug @ 29/11 22.01

    Hugsanlega er móðirin ekki að vitna gegn barnsföður sínum vegna hefndarhugs eins og Eva gaf sér. Hugsanlega er hún að biðja kerfið um hjálp við að vernda börnin gegn ofbeldismanni. Í fæstum tilvikum er slík hjálp veitt!!!!
    Í fæstum tilvikum er móður þakkað fyrir vitnisburð, oftar er henni hótað dagsektum veiti hún ekki föðurnum óheftan aðgang að börnunum aðra hvora helgi.
    Kannski fá mæður barna er þola ofbeldi einmitt litla samúð hjá kerfinu þar sem fólk gefur sér að þær séu í hefndarhug.

    ———————————

    eva @ 30/11 12.26

    Það er nú reyndar ekki rétt hjá Áslaugu að umgengisréttur sé of sterkur til þess að hægt sé að vernda börn gegn ofbeldismönnum. Föður sem hefur fengið á sig dóm vegna kynferðisáreitni eða telst börnum hættulegur af öðrum ástæðum er aldrei dæmdur eftirlitslaus umgengnisréttur. Hins vegar getur verið erfitt að sanna sum þessara mála en barnið er látið njóta vafans ef engin niðurstaða fæst.

    Hvort það er hefndarhugur eða eitthvað annað sem veldur því að mæður (og stundum aðrir aðstandendur) eru skyndilega tilbúnar til að segja ljótar sögur EFTIR að hættan er liðin hjá, skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir máli er sú staðreynd að við búum í samfélagi sem umber fólki það ábyrgðarleysi að hylma yfir með ofbeldismönnum og styðja þá til áframhaldandi afbrota gagnvart varnarlausum börnum.

    ———————————

    eva @ 30/11 12.36

    Dæmin eru mýmörg en ég læt nægja að nefna 2 mál mál. Annarsvegar nr.44/2003, þar sem tvö börn ákærða lýsa grunsemdum um að ekki væri allt með felldu en létu það samt viðgangast að barnabörnin færu í heimsókn til gerandans (í sama máli neitar amman að tjá sig um málið fyrir rétti). Stór hluti fjölskyldunnar tekur þarna þátt í verknaðinum með aðgerðarleysi sínu.

    Hins vegar nefni ég mál nr. 452/2001. Í því máli eru lýsingar móðurinnar á því sem gekk á á heimilinu fyrir framan nefið á henni svo sláandi, að maður hlýtur að spyrja hvers vegna konan er ekki látin sæta einhverri ábyrgð.

    Það er alveg sama þótt heimilið einkennist af “sjúkum samskiptum”. Ofbeldismenn eru sjúkir. Þeir bera samt ábyrgð á gjörðum sínum. Þeir sem taka þátt í ofbeldinu með aðgerðarleysi eru sjálfsagt mjög sjúkir en ekkert síður ábyrgir en árásarmaðurinn. Og ef við hættum ekki að hlífa þeim, ef við hættum ekki að afsaka aðild þeirra að voðaverkum þá erum við að samþykkja yfirhylmingu og þar með erum við meðsek

    ———————————

    Áslaug @ 30/11 13.17

    Þú hefur greinilega kynnt þér vef hæstaréttar en ég vil benda þér á að þangað komast aðeins örfá mál af öllum þeim ljótu ofbeldismálum sem eru til. Það er undantekning að dómur falli yfir þeim er níðast á börnum.
    Ég er sammála þér að það er óásættanlegt að fólk horfi framhjá ofbeldi. Oft neitar fjölskylda gerandans þrátt fyrir að ofbeldið sé dregið fram í dagsljósið og jafnvel tekur þátt í árásum gerandans gegn æru móðurinnar. Það er staðreynd að slíkt er mjög algengt en ef við eigum að refsa móður sem var svo niðurbrotin af ofbeldismanni að hún meðtók ekki sálarangist barna sinna fyrr en of seint hvað þá með sýslumenn sem veita eftirlitslausa umgengni við börnin eftir að móðir leitar aðstoðar til verndar börnunum?
    Fæst ofbeldisverk eru sönnuð og í fæstum tilvikum líður hættan hjá. Móðir barnanna er oft á tíðum barnanna eina von um öruggt skjól gegn ofbeldismanninum. Ef samfélagið á að vinna gegn henni og fordæma hvað heldur þú að verði um þessi börn sem eiga ofbeldishneigða feður

    ———————————

    eva @ 30/11 13.45

    Annars er reyndar nokkuð til í því að réttarkerfið styðji heimilisofbeldi. Þannig er algengt að jafnvel þótt umgengnisréttur föður sé skertur eða afnuminn vegna ofbeldishneigðar hans eða kynferðisbrota, haldi móðirin sem horfði aðgerðarlaus á viðbjóðinn, fullu forræði yfir börnum sínum og það þótt dæmin sanni að konur sem sætta sig við heimilisofbeldi, eru oft fljótar að flækja sig í samband við annan mann af sama tagi. Hinni sjúku móður er þannig tryggður réttur til að að halda áfram að eyðileggja líf barna sinna með aðgerðarleysi sínu, í skjóli þess að hún sé fórnarlamb sjálf. Fussum því réttarkerfi sem lætur svo sjúku og ábyrgðarlausu fólki eftir forsjá með varnarlausum börnum.

    ———————————

    Áslaug @ 30/11 16.29

    Þarna ætti að sjálfsögðu barnaverndarnefnd að koma inn í og fylgjast með högum barnanna. Því miður er það svo að mæðrum, sem hafa leitað til sýslumanns eftir að sambúð við ofbeldismann hefur verið slitið, og óskað eftir eftirliti barnavernsarnefndar með börnunum hefur verið neitað. Auðvitað ætti barnaverndarnefnd að ganga í málið og fylgjast með samskiptum barnanna við báða foreldra.
    Hitt er þó goðsögn að konur sækji í sambönd þar sem þær eru lamdar. Rannsóknir hafa sýnt að ofbeldismenn fara úr einu sambandi í annað en að konur sem beittar eru ofbeldi séu lengur en aðrar konur að stofna til nýs sambands og líklegri til að kjósa að vera einhleypar.

    ———————————

    eva @ 30/11 20.34

    “Hitt er þó goðsögn að konur sækji í sambönd þar sem þær eru lamdar. Rannsóknir hafa sýnt að ofbeldismenn fara úr einu sambandi í annað en að konur sem beittar eru ofbeldi séu lengur en aðrar konur að stofna til nýs sambands og líklegri til að kjósa að vera einhleypar.”

    Hvaðan hefurðu þetta Áslaug? Ertu að segja að lamdar konur séu EKKI öðrum konum líklegri til að festast í sambandi við ofbeldismenn? Og merkir þetta að lamdar konur séu ólíklegri en fyrrum makar þeirra til að stofna til sjúkra sambanda eða eru þær bara lengur að því?

    Ef ég skil rétt er þetta algjörlega á skjön við þá hugmynd sem almennt er viðurkennd, að fólk sem hefur lent í vítahring sjúklegra samskipta (hvort sem er við fíkil, ofbeldismann eða mann með annan persónuleikabrest) lendi oft í því sama hvað eftir annað, nema utanaðkomandi aðstoð eða gagnger hugarfarsbreyting komi til.

    Ertu að segja að sú kenning hafi verið afsönnuð?

    ———————————

    Áslaug @ 30/11 21.24

    Walker fjallar um þessa rannsóknir sem ég vísaði í. Hún hefur mikið rannsakað konur sem hafa verið beittar heimilisofbeldi og ég mæli með að þú lesir eitthvað eftir hana.

    Hér áður fyrr var talið að konur sem lentu í ofbeldissamböndum þjáðust af persónuleikaröskun en það var afsannað fyrir mörgum árum. Ef þú kíkir í DSM-fjóra sérðu að engin slík greining fyrirfinnst lengur. Áður var þetta talið einhverskonar masókista persónuleikaröskun. Því miður getur hver sem er lennt í að falla fyrir ofbeldismanni og tengst honum tilfinningalega og fjárhagslega áður en hann sýnir sitt rétta andlit.

    Persónuleikabrestir eru svo rótgrónir að erfitt er að “lækna” þá (ofbeldismenn eru oft haldnir slíkri röskun). Einkenni kvenna er hafa verið beittar heimilisofbeldi eru svipuð einkennum gísla, pólitískra fanga, fólks sem lifði af útrýmingabúðir o.s.fr.. Sem betur fer svara þessir einstaklingar mjög vel meðferð og því kannski harkalegt að svipta það fólk forræði sé það viljugt að þyggja meðferð.

    ———————————

    Áslaug @ 30/11 21.35

    Ofbeldismenn sem hægt er að greina persónuleikaraskaða (borderline eða psychopata) eru oft mjög næmir á fólk. Þeir velja sér yfirleitt konur sem á einhvern hátt eru brotnar. Konur sem eru nýkomnar út úr ofbeldissambandi eru vissulega brotnar og því eftirsóknarverðar hjá þessum mönnum en það eru líka konur sem upplifað hafa einhverjar hörmungar eða missi. Rannsóknir Walker hafa sýnt að konur sem hafa gengið í gegnum ofbeldissambönd eiga erfiðara en aðrar konur með að hleypa nýjum manni inn í sitt líf.

    Ég er þér sammála að kona í ofbeldissambandi er ekki hæf móðir. Ég sé bara ekki lausnina í því að svipta hana forræði sé hún tilbúin til að yfirgefa ofbeldismanninn og vernda börnin fyrir honum.

    Ég held að mun stærri vandi hjá þessum börnum sé hversu erfitt er að fá ofbeldið rannsakað, viðurkennt og síðan koma á eftirliti með umgengni þeirra við ofbeldismanninn.

    ———————————

    Áslaug @ 30/11 21.50

    Ég fussa yfir réttarkerfi sem vill ekki eyða fjármunum í rannsóknir á heimiliofbeldi og telur að auðveldasta lausnin sé að hóta mæðrum dagsektum séu þær með eitthvað píp um að barnsföður þeirra sé ekki treystandi. Staðreyndin er sú að þessi mál eru ekki nægilega rannsökuð og börnin njóta ekki vafans heldur ofbeldismaðurinn. Fólk er jú saklaust þar til sekt er sönnuð og sekt telst ekki sönnuð nema móðir leggi fram læknaskýrslur og áverkavottorð. Slíkra gagna er sjaldan aflað í heimilisofbeldismálum því þar eru allir í feluleik. Ég tel að eini árangur þess að dæma mæðurnar sé að við gerum þeim erfiðara fyrir að losna úr þessum samböndum og vernda börnin.

    ———————————

    eva @ 01/12 09.10

    Ég get alveg tekið undir það að réttarkerfið hefur oft brugðist börnum og öðrum fórnarlömbum ofbeldis. Það er t.d. hneykslanlegt að fulltrúar dómskerfisins skuli ekki ennþá hafa neyðst til að svara því á hvaða forsendum sú ákvörðun er tekin að nýta ekki barnahús og sérhæft starfsfólk þess til að taka skýrslu af börnum.

    Ég dreg hins vegar í efa að dagsektarákvæðið hafi staðið í vegi fyrir því að réttlætið nái fram að ganga. Því ákvæði er afar sjaldan beitt og 48. grein barnalaga býður beinlínis upp á að málið sé tafið. Þannig má auðveldlega teygja lopann og neita föður um að taka barnið þar til búið er að rannsaka málið. Það er sem betur fer ekki rétt hjá þér að áverkavottorð séu forsenda þess að kynferðisafbrot og önnur ofbeldisbrot teljist sönnuð. Þú þarft ekki annað en að líta í snarheitum yfir þennan málaflokk á vef hæstaréttar til að sjá að oftast eru dómarnir byggðir á framburði barna sem er trúverðugur ef fagfólk fær frið til að vinna störf sín.

    ———————————

    eva @ 01/12 09.21

    Eftir stendur sú spurning hvort fólk eigi að komast upp með þátttöku í glæp, á þeirri forsendu að það sé sjálft fórnarlömb. Þitt svar, ef ég skil þig rétt er það að þar sem slík fórnarlömb svari meðferð vel, sé rétt að gefa þeim annað tækifæri. Gott og vel, gefum okkur að þetta sé rétt (ég hef enn ekki haft tíma til að kynna mér rannsóknir Walkers en sé enga ástæðu til að rengja þig). Þá vaknar spurningin; væri þá ekki rétt að skikka þessar mæður (og aðra forsjáraðila sem sýna af sér þá vanrækslu að horfa aðgerðarlaus upp á börn sín misnotuð) í einhverskonar meðferð? Ekki er gert ráð fyrir því í lögum en með slíku ákvæði væri hægt að gefa þau skilaboð að samfélag okkar vilji ekki sætta sig við þagnarglæpi gagnvart börnum. Hvað finnst þér um þá hugmynd að taka upp þessháttar lagaákvæði Áslaug?

    ———————————

    Áslaug @ 01/12 21.26

    Ég vildi óska að kerfið okkar væri svo virkt að það skikkaði þessar mæður í meðferð, stöðvaði ofbeldið og gripi til úrræða svo ofbeldismaðurinn gæti ekki viðhaldið ofbeldisstjórn og sjúku sambandi við barnið. Eins og kerfið er í dag fá ekki einu sinni þær mæður sem vilja þessa aðstoð hana. Ég held að við séum alls ekki á öndverðum meiði í okkar skoðunum. Báðum finnst okkur óásættanlegt að ofbeldi á börnum viðgengst. Ég tel hins vegar ekki algengt að mæðurnar séu vísvitandi að horfa framhjá ofbeldinu á börnunum (en ég tel kerfið okkar gera það) og ég tel að það geti valdið börnunum enn meiri skaða að missa mæður sínar á svona erfiðum tímapunkti í lífinu. Í sumum tilvikum er brotin mamma betri en engin mamma. Ég er þó sammála þér að móðir sem velur samband við ofbeldismann fram yfir öryggi barna sinna (eftir að henni er ljóst að hann er að skaða börnin) sé ekki ákjósanlegur forræðisaðili og þar sé þörf á að koma börnunum í örruggt fóstur.

    ———————————

    Áslaug @ 01/12 21.39

    Hvað finnst þér um móður sem veit af ofbeldi barnsföður síns gegm börnunum (hefur sjálf búið við ofbeldið og þraukaði það ekki lengi) en getur ekki lagt fram þær beinu sannanir sem þarf til að fá eftirlit með umgengi. Móðirin lætur börnin í umgengni vitandi að ofbeldi mun eiga sér stað, ef ekki þessa helgina þá einhverja aðra. Kerfið hefur brugðist börnunum hennar því það eyðir ekki fé í að rannsaka málið án læknaskýrslna og áverkavottorða þó vitni hafi staðfest frásögn móður.
    Móðirin hræðist dagsektir og fórnar börnunum sínum fyrir fjárhagslgt öryggi.

    ———————————

    Áslaug @ 01/12 23.49

    Ég hef í þessum skrifum verið með hugan við heimilisofbeldi almennt en ég tel það rétt hjá þér að ásakanir um kynferðisofbeldi fari ekki sömu leið í kerfinu og ásakanir um líkamlegt og andlegt ofbeldi. Ég tel að aðeins örfá prósenta kynferðisbrota leiði til dóms en sú prósenta er samt miklu hærri en í heimilisofbeldismálum (þau eru sjaldnast send fyrir dómstóla því líkur á sannanlegri sekt eru yfirleitt hverfandi nema þolandi hafi hreinlega endað stórslasaður á spítala).
    Ég þekki þó dæmi þess að móðir var beitt dagsektum og gerð gjaldþrota vegna þess að hún neitaði að hlýta úrskurði dómsmálaráðuneytisins. Ef hún var að hefna sín á manninum með þessari tálmun á umgengni þá er það furðuleg hefnd því hún tók þessa stefnu með fullri vitneskju um að hún myndi missa allt. Þetta tiltekna mál þekki ég ekki til hlýtar en ég þekki önnur mál þar sem fjöldi vitna er að ofbeldi, frásagnir barna af ofbeldinu eru skráðar af sjálfstætt starfandi fagfólki eða fagfólki starfandi við skóla og stofnani

    ———————————

    Áslaug @ 01/12 23.59

    ásakanir um ofbeldi sama mannsins koma úr mörgum áttum (frá mörgum sambýliskonum, börnum og stjúpbörnum) en samt velkjast málin árum saman frá einu skrifborði til þess næsta og besta úrræðið sem býðst er tímabundið eftirlit með umgengni sem sökum sparnaðar er framkvæmt að ófaglærðum einstaklingi sem aldrei kemur í óboðaða heimsókn heldur fylgist með fyrstu mínútum heimsókna barnanna til föðursins. Ég trúi ekki að núverandi kerfi skili árangri eða sanngjarnri niðurstöðu fyrir börnin.
    Ég tel að við verðum að taka þá afstöðu að allt ofbeldi sé lögbrot og eigi því að rannsaka. Í dag virðist vera litið á heimilisofbeldi frekar sem félagslegt vandamál og lausnin liggi í að sætta aðilana.

    ———————————

    eva @ 02/12 08.09

    Allt ofbeldi er lögbrot, vissulega. Það sem ég vildi sjá er viðurkenning á því að vanræksla sé líka lögbrot. Dæmið sem þú nefnir er aldeilis ótrúlegt og skiljanlegt að fólk sem þekkir aðra eins sögu sé ekki hrifið af kerfinu. Er ekki hugsanlegt að eitthvað vanti inn í söguna?

    Mér finnst t.d. með ólíkindum að ekki sé hlustað á sálfræðinga og annað fagfólk sem telur framburð barna trúverðugan. Fór konan ekki með málið í fjölmiðla?

    ———————————

    eva @ 02/12 08.22

    Annars eru stundum fleiri hliðar á málunum. Ég þekki t.d. sjálf mál konu sem hélt því fram að barnsfaðir hennar væri ofbeldishneigður og skrifaði margar og ýtarlegar greinargerðir í von um að svipta hann umgengnisrétti. Það merkilega er að sögurnar sem hún segir, breytast í veigamiklum atriðum með hverju bréfinu og frásögnin er ekki sjálfri sér samkvæm, t.d. segir hún ýmist í sama bréfi að maðurinn hafi verið mjög æstur og sallarólegur. Sama kona skilaði áliti “fagaðila” sem reyndist vera ein af hennar bestu vinkonum. Ég lái engum að taka ekki mark á ásökunum þessarar konu en það er óviðunandi ef kerfið lætur sjúklinga af þessu tagi (eða kannski bara eiturpöddur?) verða til þess að ekki er hlustað á framburð kvenna og barna sem hafa búið við raunverulegt ofbeldi.

    Sjálf held ég að fólk sem raunverulega er ábyrgir foreldrar gefist ekki upp fyrir kerfinu. Rétt eins og ábyrgur faðir lætur ekki eigingjarna konu rífa af sér börnin, lætur ábyrg móðir ekki börn sín í hendur ofbeldismanns.

    ———————————

    Áslaug @ 02/12 10.46

    Ég held ekki að frásögnum sérfræðinga, sambýliskvenna og barna um ofbeldi sé ekki trúað af sýslumönnum og dómsmálaráðuneytinu. Vandinn liggur í úrræðaleysi. Stefnan í dag er sú að feður eigi að vera í umgengni við börn sín. Markmið allra úrræða og inngripa er að koma á umgengni með mis löngum aðlögunar og eftirlitstíma. Það er álitið að foreldramissir sé verri börnunum en hugsanlegt frekara ofbeldi í framtíðinni. (Þarna er ég ekki alveg sammála ef ofbeldismaðurinn þjáist af persónuleikaröskun því þá eru miklar líkur á að ofbeldið hefjist að nýju, alkar og fíkniefnaneytendur hafa oft á tíðum brotist frá fíkninni og reynst börnum sínum vel). Standi feður sig nokkuð vel í þá örfáu mánuði sem “eftirlitið” fer fram fá þeir aftur eftirlitslausa umgengni.
    Mæður sem ekki eru samvinnufúsar fá hótanir um dagsektir og takist ekki að knýja þær til sátta er sektunum beitt.
    Ég tek undir með þér Eva að móðir sem neitar að setja börnin sín í hendur ofbeldismanni er ábyrg móðir

    ———————————

    Áslaug @ 02/12 10.51

    Ps. Persónuleikaraskað fólk getur skipt um skap mjög snöggt. Margar konur ofbeldismanna lýsa jeckell og Hyde í mönnum sínum. Brjálæðisköst eru oft á tíðum stjórntæki sem gerandinn hefur fulla stjórn á. Einstaklingurinn getur verið ofstopafullur aðra stundina en ískaldur þá næstu.

    ———————————

    Áslaug @ 02/12 11.34

    Mig langar að benda þér á að þú gafst þér að fagaðilinn, sem kom að málinu sem þú tókst sem dæmi, væri óheiðarlegur og spilltur og brytir siðareglur síns fagfélags. Þú allavega gafst til kynna að hann hefði logið fyrir vinkonu sína í faglegri skýrslu og alvarlegri verða siðabrotin varla.
    Faglegt nám er mjög dýrt og flestir fara erlendis til að öðlast réttindi til að starfa á ábyrgan siðferðislegan hátt. Námið krefst mikillar vinnu og enn meiri vinna er lögð í að byggja upp traust skjólstæðinga og annars fagsfólks á því sem þú hefur fram að bjóða. Ísland er lítið land, ég þekki marga í geðheilbrigðisgeiranum en ég þekki þó engan sem væri tilbúinn að fórna starfsheiðri sínum og trúverðugleika fyrir vinkonu, kunningja eða starfsfélaga. Ég þekki ekki einu sinni fagaðila sem tekur vini sína eða ættingja í meðferð, slíkt þekkist einfaldlega ekki í þessum starfstéttum.

    ———————————

    Áslaug @ 02/12 12.52

    Ég sé það núna að þú settir orðið fagaðili inn í gæsalappir og skil ég þetta þá öðruvísi. Aðilinn hefur þá ekki tilheyrt fagstétt eða verið fenginn af stofnun til þess að þjónusta barnið.
    Bæði mæður og feður sem deila um umgengni skila inn vitnisburði nágranna, vina og fjölskyldu. Síðan er stundum lagt fram gögn frá lögreglu, skólum, læknum og fleirum. Ég misskildi þig og hélt að umrætt álit væri þannig fengið svo þetta var smávægilegur útúrdúr til varnar fagfólkinu okkar sem af heilindum skilar inn gögnum um þessi mál þegar þess er óskað.

    ———————————

    eva @ 02/12 15.14

    Þessi “fagaðili” var að vísu með ákveðna menntun en það var að beiðni móðurinnar en ekki barnaverdaryfirvalda eða sýslumanns sem viðkomandi skilaði áliti. Ég gef mér reyndar ekki að konan sé spillt eða óheiðarleg en það dregur úr trúverðugleika hennar að vita að hún er tilfinningalega tengd málinu. Ég hef þá trú að ábyrgt fagfólk myndi biðjast undan því að gefa sérfræðiálit á málefnum sinna eigin fjölskyldumeðlima og vina enda hlýtur að vera hægt að finna einhvern sem ekki tengist málinu með rétta menntun, jafnvel þótt landið sé lítið. Það er eðilegast og best að hlutlaus aðili taki skýrslur af börnum í forræðis og umgengnisdeilum.

    ———————————

    Þorkell @ 02/12 15.55

    Þetta eru aldeilis áhugaverðar umræður. Sjálfur átti ég stjúpföður sem beitti ofbeldi á heimilinu og því þekki ég vel til þessara mála. Heimilisofbeldi er eitt alvarlegasta vandamál samfélagsins og dómskerfið hefur svo sannarlega oft klikkað á þeim sviðum.

    Ég verð þó að segja að mér finnst Áslaug vera aðeins og ofstækisfull. Fyrir það fyrsta er verið að rugla ólíkum málum saman. Lagt er upp með kynferðisofbeldi en hún talar nær engöngu um heimilisofbeldi, nánast eins og þetta sé eitt og það sama. Þá er ekki gerður neinn greinarmunur á því að hverjum ofbeldið beinist, þ.e. hvort það beinist aðeins að móðurinni eða einnig að börnunum.

    Maður sem beitir alla heimilismeðlimi ofbeldi er augljóslega ekki hæfur faðir. Hann þarf því að fara í meðferð og vinna í sínum málum. Maður sem hins vegar hefur beitt eiginkonu sína ofbeldi en hefur aldrei lagt hendur á börn sín getur varla fallið í sama flokk.

    ———————————

    Þorkell @ 02/12 16.03

    Þótt hann sé sekur um mjög alvarlegan glæp gegn sambýliskonu sinni er hann ekki þar með sagt óhæfur faðir.

    Annað sem ég get ekki skrifað undir hjá Áslaugu er hvernig hún vill leysa vandann. Mér sýnist á öllu að hún telji að það sé nóg að móðir fullyrði að hún (og/eða börnin) hafi verið beitt ofbeldi til að svipta föðurinn umgengisrétti. Hún kvartar t.d. yfir því að það þurfi að koma með sannanir (rétt eins og það sé ekki sjálfsagt mál) og talar um að ofbeldismenn séu snillingar í að fela glæp sinn svo mánuðum skiptir. ERGO: Maður sem hefur verið sagður beita ofbeldi á annað hvort aldrei að fá börnin sín eða aðeins að hitta þau undir eftirliti, svo lengi sem þau eru börn.

    Ástæðan fyrir því að ég get ekki skrifað undir þetta er sú að það getur gerst (og hefur gerst) að mæður hafa logið til um ofbeldi feðra í annarlegum tilgangi. Feður verða því að fá tækifæri til að verja sig en vera ekki dæmdir án réttarhalda eða sannanna.

    ———————————

    Þorkell @ 02/12 16.11

    Hins vegar vil ég benda á að það eru til meðferðaúrræði fyrir menn sem beita ofbeldi. Hér á landi er t.d. hægt að sækja slíka meðferð og er hún t.d. unnin í samhyggðarhópum. Á maður sem vinnur bug á ofbeldishneigð sinni aldrei að fá að sjá börnin sín aftur? Og hver á að taka ákvöðrun um að hann fái að sjá þau? Móðirin eða fagaðilar og yfirvöld?

    Þótt yfirvöld hafi brugðist í þessu máli þá er það einfaldlega að fara úr öskunni í eldinn að leggja þetta alfarið í hendur móðurinnar.

    Gleymum því ekki að margir feður (sem ekki hafa beitt ofbeldi) berjast fyrir því að fá að hafa samskipti við börnin sín. Við getum ekki látið viðbrögð við heimilisofbeldi verða til þess að réttur þessara feðra verði fyrir borð borinn.

    ———————————

    Þorkell @ 02/12 16.16

    Og að lokum þetta: Hvað er ofbeldi? Er munur á því ef sambýlismaður grípur einu sinni til ofbeldis eða þegar það er síendurtekið? Og hvað með andlegt ofbeldi? Getur það ekki verið skaðlegt? Ég þekki til mæðra sem hafa skaðað börn sín miklu meira en feður hafa gert með anldegu ofbeldi. Ein móðirin kvaddi t.d. son um leið og hann fór á sjó til að vinna fyrir fjölskyldunni með orðunum: “Ég vona að þú drukknir helvítið þitt.” Þótt ofbeldi feðra sé mun algengara þá verðum við að gæta þess að gera ekki allar mæður að dýrlingum (þar til annað er sannað) og alla feður að mögulegum geðsjúklingum og ofbeldismönnum (þar til annað er sannað).

    ———————————

    eva @ 02/12 16.32

    Þótt ég hafi kannski lagt mesta áherslu á kynferðislega misnotkun í greininni gildir það sama um annað ofbeldi. Það sem ég vildi vekja máls á var fyrst og fremst tilhneiging samfélagsins til þess að líta það mildum augum þegar fólk horfir aðgerðarlaust á ofbeldi. Út frá því spannst umræða um umgengnismál sem er vissulega áhugaverð. Það sem mig langar þó fyrst og fremst að fá umræðu um er það hvernig á að takast á við vanrækslu.

Lokað er á athugasemdir.