Það er í lagi að nauðga pínulítið fyrst allir eru alltaf að því

no evidence

40% þeirra sem kæra nauðgun, draga kæruna til baka og ef lögregla vill samt halda rannsókn, áfram, hafna þær samvinnu. Hvernig stendur á því að þetta hlutfall er svona hátt? Eða er þetta hlutfall ekki annars hátt? Hvert er hlutfall þeirra sem falla frá kæru eða neita samvinnu í öðrum ofbeldismálum? En í þjófnaða- og fjársvikamálum? Það er eiginlega ekki hægt að draga neinar ályktanir nema sjá slíkan samanburð.

Á meðan það liggur ekki fyrir, geng ég nú samt út frá því að 40% sé hátt hlutfall og ég velti fyrir mér hugsanlegum skýringum.

Getur verið að kona sem fær allsstaðar þau skilaboð að það þýði ekkert að standa í þessu, telji sig verr stadda með því að fá gerandann upp á móti sér? Kannski fjölskylduna eða vinahópinn líka, ef nauðgarinn er fjölskyldumeðlimur, vinur eða maki.

Getur verið að þótt lögreglan hafi [vonandi] aflagt þau vinnubrögð að yfirheyra þolandann um dræsulega hegðun sína, sem gæti hafa eggjað vesalings nauðgarann til verksins, sé ennþá eitthvað í framkomu löggunnar sem gefur ástæðu til að ætla að kæran verði ekki tekin alvarlega?

Getur verið að brotaþolar telji sig litla ástæðu hafa til að treysta réttarkerfi, þegar yfirmenn þess lýsa því yfir opinberlega að fórnarlömb nauðgara geti bara sjálfum sér um kennt?

Mér finnst ósennilegt að brotaþolar álíti nauðganir ekki nógu alvarlega glæpi til að nenna að standa í veseni vegna þeirra. Ég þekki aftur á móti dæmi þess að mál hafa ekki verið kærð af því að eina sönnunargagnið var frásögn þolandans sem dugar (eðlilega) ekki til sakfellingar. Án þess að fullyrða neitt, leyfi ég mér að setja fram þá tilgátu að þetta háa hlutfall brotaþola sem falla frá kæru, bendi fyrst og fremst til þess að sjaldgæft sé að kynferðisbrotamenn skilji eftir sig áverka eða önnur ummerki sem styðja frásögn þolandans. Séu semsagt hófsamir ofbeldismenn.

Réttarkerfið ræður ekki við hófsama ofbeldismenn. Nauðgarar sem velja sér fórnarlömb sem eru ófær um að verja sig, fólk sem stjórnar mökum sínum og börnum með ógnandi framkomu en beitir ekki hnefanum, löggur og fangaverðir sem pína fólk í járnum án þess að skilja eftir sig áverka, hópar sem beita sálrænu einelti sem erfitt er að færa sönnur á, allt er þetta fólk sem réttarkerfið ræður ekki við. Og ég held satt að segja að við getum ekki ætlast til þess. Eina leiðin sem ég hef heyrt um, til að fá hófsama ofbeldismenn dæmda, er öfug sönnunarbyrði og slíkt fyrirkomulag myndi leiða af sér mikinn aragrúa af hófsömum ofbeldismönnum. Fólki sem aldrei myndi meiða neinn, aðeins hóta því að bera röngum sökum hvern þann sem hegðaði sér ekki í samræmi við vilja þeirra.

Kannski er útilokað að uppræta hófstillt ofbeldi en það er hægt að draga úr því. Hófsamir ofbeldismenn þurfa ekki að óttast dómstóla en óttinn um fordæmingu samfélagsins hefur áreiðanlega áhrif. Allavega sýna hrottar fjölskyldu sinni yfirleitt skárri framkomu í návist annarra og börn sem leggja skólasystkini sín í einelti með dylgjum og augngotum, reyna oftast að leyna því fyrir fullorðnum. Fólk er ólíklegra til að sýna af sér hegðun sem samfélagið umber ekki, hvað sem réttarkerfinu líður.

Af einhverjum ástæðum hefur það tíðkast í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi að ýkja bæði tíðni ofbeldis og alvarleika afbrotanna. Ég held að það sé mjög vafasöm aðferð. Bæði vegna þess að hún dregur úr trúverðugleika þeirra sem standa í þessari baráttu en ekki síður af því að ef það er rétt að fjórða hver kona verði einhverntíma á ævinni fyrir kynferðisofbeldi (sennilega og vonandi stórlega ýkt tala sem með veikum rökum er orðin að viðteknum sannindum), þá er nú varla ástæða til að missa sig í dramakast þótt ágengur karlmaður reyni að komast ofan í brækurnar hjá manni. Þetta er eitthvað sem allir gera, er það ekki?

Nei, sem betur fer er það ekki eitthvað sem allir gera og við getum þakkað baráttu feminista það að óumbeðið káf er ekki lengur talin staðfesting á dræsulegum klæðaburði þolandans. En á sama tíma vinna feministar gegn sinni eigin baráttu með ýkjum sem eru ekki bara óþarfar heldur líka til þess fallnar að normailsera ofbeldi.

Flestir leitast við að hegða sér þannig að öðrum líki. Sjálfsmynd okkar byggist að verulegu leyti á samanburði við aðra og það hvernig aðrir sjá okkur og hugmyndinsvona gerir maður ekki er örugglega margfalt sterkari hemill en boð og bönn. Við getum skellt mörgum skuldum á réttarkerfið en eina leiðin til að draga úr hófstilltu ofbeldi er að innræta ungu fólki viðhorfið svona bara gerir maður ekki. Innleiða þá skoðun að ofbeldi sé andstyggilegt, óeðlilegt og að það heyri til undantekninga. Að þeir sem beita ofbeldi séu frávik. Að það að gera þarfir sínar á meðvitunarlausri stúlku eða neita að rjúfa samfarir sé hreint ekki eitthvað sem ‘allir gera’ heldur þvert á móti. Að notkun nauðgunarlyfja sé ekki prakkarastrik heldur glæpur sem aðeins hinir mestu aumingjar láti sér detta í hug. Ég held að tilhneigingin til að ýkja tíðni kynferðisglæpa og annars ofbeldis vinni beint gegn þeirri viðleitni.

Deildu færslunni

Share to Facebook