Nú fara femínistar brátt í átak til að frelsa konur frá barneignum

líffæri

Ég hef vissa ánægju af því að fylgjast með og taka þátt í deilum trúleysingja og trúmanna en ég tók þá afstöðu upp úr tvítugu að slíkar deilur væru aðeins dægradvöl, glíma fremur en rökræða. Ástæðan er sú að það er einfaldlega útilokað fyrir trúmenn og trúlausa að mætast á miðri leið, annað hvort er Gvuð til eða ekki og hvor hópur um sig byggir öll sín rök á sannfæringu sinni um það eina atriði. Umræðan einkennist gjarnan af tilfinningasemi. Það er í sjálfu sér allt í lagi en býður heim hættunni á að hún verði ómálefnaleg, full af rökvillum og fari fljótt út í þrætur þar sem hvor aðilinn um sig telur sig ‘hafa betur’ þótt andstæðingurinn álíti niðurstöðuna jafn fráleita og forsenduna. Sjaldgæft er að slík samræða fái fólk til að skipta um skoðun og málamiðlun er ekki valkostur.
Engin rétt svör
Umræðan um réttmæti fóstureyðinga er á margan hátt svipuð. Hún byggist á spurningum sem ekki er hægt að svara þannig að báðum líki og staðhæfingum er ekki er hægt að færa neinar vísindalegar sönnur á.

-Hvenær hefst mannslíf? Við fæðingu? Við getnað eða fyrr? Á 12. viku meðgöngu? Eða þeirri 20?
-Er mannslíf heilagt? Ef svo er, hvenær öðlast fóstur eða barn mannhelgi?
-Ef mannslífið er á annað borð heilagt, eru þá sum mannslíf heilagari en önnur?
-Á kona alltaf óskoraðan rétt til að ráða yfir líkama sínum?
-Eiga allar konur óskoraðan rétt á að ákveða hvort þær verði mæður? Eiga feður rétt á á ákveða hvort þeir verði feður?

Það gefur auga leið að sá sem álítur að lífið hefjist við getnað og að mannslíf sé heilagt, getur ekki slegið af þeirri kröfu sinni að öll fóstur eigi lífsrétt, það væri einfaldlega órökrétt miðað við forsendur hans. Hann getur í skársta falli mætt andstæðingum sínum með því viðhorfi að sum mannslíf séu heilagari en önnur og því sætt sig við fóstueyðingar af læknisfræðilegum ástæðum. Hann getur jafnvel gengið svo langt að líta á ákveðnar félagslegar aðstæður og áföll á borð við þungun eftir nauðgun, sem nógu geðheilsuspillandi til að réttlæta fóstureyðingu, en gjörðin verður samt aldrei beinlínis rétt í huga þess sem lítur á fóstur sem manneskju.

Sá sem gengur út frá rétti móðurinnar til að ráða örlögum sínum, telur á sama hátt óhugsandi að nokkrar aðstæður geti skert þann rétt. Móðirin hefur rétt til þess að losa sig við fóstrið á sama hátt og krabbamein eða njálg. Jafnvel þótt hún hafi stofnað til þess sjálf, eru það einfaldlega mannréttindi að fara í fóstureyðingu, alveg eins og hún hefur rétt á að gangast undir krabbameinsaðgerð þótt hún hafi reykt eins og strompur, átt lögheimili á sólbaðsstofunni og borðað grillmat í öll mál. Allt tal um rétt sníkjudýrsins eða sjúkdómsins er í huga þeirra sem hafa þessa skoðun, fráleitt. Það er ekki fyrr en barnið er fært um að lifa utan líkama móðurinnar sem það öðlast mannhelgi. Í huga þess sem lítur þannig á sjálfstæðan mannslíkama sem grundvöll mannhelgi er spurningin ‘má þá ekki alveg eins drepa 3ja mánaða barn ef það er fyrir?’ beinlínis fáránleg. Um leið og fóstrið hættir að lifa sníkjulífi sínu á annarri mannveru er það orðið einstaklingur sem vitanlega á að njóta verndar eins og aðar manneskjur. Það hefur öðlast stöðu barns og er ekki lengur sambærilegt við njálg.

Hræsnin í löggjafanum
Svar löggjafans við þessum ósættanlegu viðhorfum er svo að reyna að gera báðum hópum til geðs. Í orði eru geðþóttafóstureyðingar ekki leyfðar. Lífsverndarsinnar geta því andað rólega, engu fóstri er eytt nema það sé beinlínis nauðsynlegt. Sjálfræðissinnar geta líka verið ánægðir því löggjöfin um fóstureyðingar af ‘félagslegum ástæðum’ er svo óljós að með góðum vilja og lélegu siðferði má nota það hugtak um hvert annað hagsmunamál móðurinnar. Löggjöfin leyfir ekki fósturdráp af þægindaástæðum en hún umber þau, afsakar og leynir.

Fóstureyðingaumræða út frá kvenréttinda- og mannhelgisjónarmiðum mun aldrei skila löggjöf sem sátt mun ríkja um og eftir 35 ár af málamiðlun hlýtur að koma að því að kvenfrelsissinnar teygi sig lengra. Nú er komin góð reynsla á 12 vikna regluna og enn fæðast þó börn sem móðirin ætlaði ekki beinlínis að eignast. Fóstueyðingar af læknisfræðilegum ástæðum eru leyfðar fram á 16. viku (og auk þess framdar þótt engar læknisfræðilegar ástæður liggi fyrir. Það er alltaf hægt að klína þunglyndisgreiningu á konuna ef læknisfræðilegrar ástæðu er krafist) svo næsta skref hlýtur að vera að leyfa geðþóttafósturdráp fram á 16. viku. Svo eftir nokkur ár þá 20. Lífsverndarsinnar munu áreiðanlega tuða en þar sem börn eru almennt álitin vandamál fremur en eðlilegur hluti af samfélaginu, er ólíklegt að almenningur sýni málinu áhuga.

Fóstureyðingar eru ekki leyfðar á þeirri forsendu að fóstrið sé sníkjudýr eða sjúkdómur. Löggjafinn er engan veginn nógu heiðarlegur til að viðurkenna slíkt viðhorf. Þær eru heldur ekki bannaðar eftir 20. viku á þeirri forsendu að þá hefjist mannslífið, enda engin rök fyrir því. Löggjafinn hefur reynt að gera hið ómögulega, fara einhverskonar milliveg. Fóstureyðingar eru þannig leyfðar á þeirri forsendu að þrátt fyrir að fóstrið sé á kannski á vissan hátt svolítið heilagt í aðra röndina, eða allavega smá, muni það draga úr áhættusömum, ólöglegum aðgerðum og öðrum heilsufarsvanda sem og félagslegum erfiðleikum að leyfa mömmunni bara að ráða þessu og að hamingja sem flestra sé heilagari en líf frumukökks sem hefur hvort sem er enga burði til að mótmæla lífláti sínu. Börn eiga að vera velkomin í heiminn, svo ef þau eru það ekki er best að drepa þau bara. Aldrei hefur þó komið til álita að lóga ósjálfbjarga sjúklingum sem sannarlega eru byrði. Slíkur er tvískinnungur löggjafarsamkundunnar.

Hver er árangurinn?
Nú vill svo skemmtilega til að þótt ekki sé hægt að komast að sameiginlegri niðurstöðu um réttmæti frjálsra fóstureyðinga með því að þræta um heilagleik lífins, upphaf þess eða rétt móðurinnar, er samt hægt að rannsaka áhrif fóstureyðinga út frá hinum fölsku forsendum löggjafarinnar. Það er hægt að skoða hvaða árangri fóstureyðingarlöggjöfin hefur skilað á síðustu 70 árum annarsvegar og á síðustu 35 árum hinsvegar.

-Hefur sýkingum af völdum ólöglegra fóstureyðinga fækkað? Já það er líklega ekki vafamál.
-Hefur veikum börnum og fötluðum fækkað? Ég hef allavega aldrei séð dvergvaxið barn á Íslandi en það má svosem líka spyrja hvort fatlaðir og veikir eigi minni tilverurétt en aðrir.
-Deyja færri konur af völdum barnsburðar og að hve miklu leyti er það fóstureyðingum að þakka? Mér finnst líklegt að löggjöfin hafi haft þau áhrif en vil ekki fullyrða það.

Hvað með félagslegu vandamálin?
-Verða hlutfallsvega færri konur mæður fyrir 18. ára aldur? Já áreiðanlega en standa mæður sig betur gagnvart fyrsta barni ef þær eru eldri? Hefur yfirhöfuð verið rannsakað hvort aldur komi því eitthvað við hversu hæfir foreldar eru?
-Alast hutfallslega færri börn upp hjá einstæðum foreldrum? Hmmm…
-Alast hlutfallslega færri börn upp við ofbeldi eða önnur mannskemmandi heimilisvandamál?
-Þykir fólki minna vænt um börn sem það hefur ekki ætlað sér að eignast en óskabörn?
-Er óskabörnum betur sinnt en þeim sem komu undir án þess að það væri planlagt?
-Eru börn kvenna sem óskuðu eftir þeim hamingjusamari en ‘slysabörn’?

-Þurfa færri fjölskyldur aðstoð félgasmálayfirvalda vegna uppeldisvanda?
-Alast færri börn upp við fátækt miðað við félaga sína?
-Eru færri fjölskyldur á framfæri hins opinbera eða hjálparstofnana?
Að hve miklu leyti standa svörin í sambandi við fóstueyðingar?

-Fara fleiri konur í langskólanám? Já, það er á hreinu en er hlutfall þeirra kvenna sem hafa látið eyða fóstri hærra meðal menntakvenna en annarra? Er hlutfall mæðra í námi lægra en mæðra sem ekki fara í nám?
-Hvað með krefjandi störf og hálaunastörf? Skerða barneignir raunverulega möguleika kvenna og eru þær sem hafa látið eyða fóstri líklegri til að ‘ná langt’?
-Hefur dregið úr þörf fyrir dagvistun eftir að fóstureyðingar af félagslegum ástæðum voru leyfðar?

-Eru hlutfallslega fleiri konur hamingjusamar í ríkjum með frjálslega fóstureyðingalöggjöf en stranga?

Það er hægt að rannsaka allt þetta og margt fleira og meta þannig árangurinn af fóstueyðingalöggjöfinni. Ég vona að það verði gert og það sem fyrst. Það er nefnilega ekki hægt að komast að niðurstöðu út frá heimspekilegum og siðferðilegum sjónarmiðum og það væri æskilegt að byggja fóstureyðingalöggjöfina á einhverju meiru en siðferðissjónarmiðum stjórnvalda hverju sinni.

Hver verða áhrif Vg?
Af hverju er ég að hreyfa við þessu núna þegar fóstureyðingar hafa ekkert verið í umræðunni? Jú vegna þess að vg eru farin að hafa áhrif. Það á margan hátt nokkuð gott. Nú á að draga úr auglýsingasukki stjórnmálaflokkanna. Leyndinni hefur verið létt af orkusölusamningunum og mér finnst það ásættanleg málamiðlun að íbúðalánasjóður ætli að bjóða upp á kaupleigu. Jafnvel þótt dómsmálaráðherra sé hægrisinnaður mannréttindabrjótur, hefur áhugi nokkurra þingmanna á mannréttindum orðið til þess að málefni flóttamanna eru þó allavega komin á kortið sem eitthvað sem komi stjórnvöldum við. Við höfum í fyrsta sinn í sögunni umhverfissinnaðan umhverfisráðherra. Nú liggur fyrir frumvarp um hjúskaparlög sem er stórt mannréttindamál og gæti orðið skref í þá átt að aðskilja ríki og kirkju. Við höfum aldrei áður haft menntamálaráðherra sem von er til að átti sig á því að kirkjan á ekkert erindi inn í skólana og ég held enn í vonina um að með meiri ítökum vg, láti þessi ríkisstjórn verða af því að leggja varnarmálastofnun niður og já það er bjartsýni en ég el í brjósti mér von um að Nató verði sagt að taka heljarstökk upp í rassgatið á sér.

Völd eru alltaf hættuleg en ég er sáttari við völdin í höndum vg en sjálfstæðisflokksins. Að einu leyti finnst mér þó óhugnanlegt til þess að hugsa að völdin séu í höndum vg. Ég treysti nefnilega ekki feministaarmi vg fyrir mannréttindamálum og allra síst fóstureyðingalöggjöfinni. Meðal fórnarlambsfeminista eru ágætis konur sem oft hefur verið ómaklega vegið að, líkt og hendir flesta þá sem hafa hugrekki til að halda á lofti óvinsælum skoðunum. Það er bráðnauðsynlegt að til séu öfgasinnaðir feministar. Þeir eru mikilvæg andófshreyfing, rétt eins og anarkistahreyfingin (sem er í eðli sínu öfgasinnuð) og öfgafullir umhverfissinnar. En af þeim stafar líka ákveðin hætta. Það viðhorf nokkuð margra feminista að konan sé fyrst og fremst þolandi og að allt mótlæti sem hún verður fyrir á lífsleiðinni sé í eðli sínu kúgun feðraveldisins sem megi og beri að uppræta með því að brjóta gegn hagsmunum annarra, er nefnilega stóra ástæðan fyrir því að í dag, 3. maí, drepa íslenskir læknar 3-4 fóstur af svokölluðum ‘félagslegum ástæðum’. Sem oftast merkir að það er hagkvæmara eða bara þægilegra fyrir móðurina að vera laus við þau.

Nú þegar búið er að afnema rétt súludansmeyja til að sjá sér farborða af því að meðal þeirra er hugsanlegt að finnist einhverskonar þolendur, má búast við að næsta kvenréttindamál verði aukin fyrirlitning á móðurhlutverkinu og skertur réttur barna til að lifa af vistina í móðurkviði. Viðhorf sem í raun þjóna því kapítalíska viðhorfi að efnahagsmál og hagsmunir atvinnulífins skuli alltaf sett á oddinn, og frekar svona írónískt að þau skuli koma frá konum sem kenna sig við mannúð og félagshyggju. Ég tel líklegt að þess sé skammt að bíða að hin raunverulega skilgreining löggjafarsamkundunnar á fóstri yngra en 12 vikna muni gilda um fóstur allt fram á 16. viku meðgöngu. Reyndin er nenfilega sú að í huga Alþingis er fóstur skilgreint á svipaðan hátt og njálgur; sem sníkjudýr sem móðirin hafi fullan rétt á að láta drepa fram á 12. viku en kannski ekki alveg jafn ómerkileg eftir það og þó svona frekar, allavega ef læknir segir það.

Vitanlega verður þessi raunverulega skilgreining Alþingis á fóstueyðingum þó aldrei færð í orð. Alþingi er nefnilega hræsnaraklúbbur sem þjónar hræsnisfullu samfélagi, samfélagi sem í stað þess að spyrja hvernig það geti boðið öll börn velkomin, spyr fyrst um auðveldustu leiðina til að losna við þau.

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Nú fara femínistar brátt í átak til að frelsa konur frá barneignum

  1. ———————————-

    Það er búið að gera margar rannsóknir erlendis á því hvort óvelkomin börn eigi erfitt uppdráttar eða séu vanrækt. Ekkert bendir til þess.

    Posted by: Begga | 3.05.2010 | 21:20:03

    ———————————-

    Eva skrifar:
    „Aldrei hefur þó komið til álita að lóga ósjálfbjarga sjúklingum sem sannarlega eru byrði. Slíkur er tvískinnungur löggjafarsamkundunnar“

    Mín skoðun:

    Rangt.

    Sjúklingum á líknardeild LSH Kópavogi er ekki veitt meðferð sem lengir líf þeirra… eingöngu meðferð sem linar þjáningar.

    Mikil pressa er á aðstandanendur að samþykkja að næringar og vökvagjöf sé hætt til að rýma fyrir öðrum deyjandi sjúklingum á biðlista.

    Lög hafa ekki sjálfstæða tilveru.

    Lögspekingar/lögfræðin skiptast í tvo megin hópa „eðlisrétt og „vildarrétt“

    Eðlisréttur er kenndur við Thomas Aquino – munk frá 12. öld – sem innleiddi kenningar um siðferði í lögfræði.

    Vildarréttur er kenndur við James Benthamy og John Austin sem segja að siðferði hafi ekkert með lög að gera.

    Þeir sem til þekkja geta sagt til um hvora kenninguna dómarar aðhyllast.

    Dæmi:
    Skarfaskersslysið… afkomendur Matthildar „Maddýar“ Harðardóttur fengu tryggingarbætur beggja vegna slyssins… af því að maður hennar lést hálftíma fyrr og þar af leiðandi erfði hún hann… og því fengu börn hans engar tryggingarbætur vegna sjóslyssins.

    Réttlátt eða sanngjarnt er ekki spurningin eftir vildarrétti… heldur lagabókstafurinn.

    Eðlisrétturinn er aftur byggður á kristilegu hugarfari… sem trúlausir hafa ekki… því þeim hentar betur siðleysi lagabókstafsins.

    Það eina sem maðurinn þarf frá getnaði til grafar er næring.

    Maðurinn getur illa lifað sjálfstæðu óháðu lífi fyrir 18 ára aldur

    Á þjóðveldisöld voru dauðarefsingar ekki leyfðar á frjálsum mönnum… eingöngu þrælum.

    Fyrir manndráp fengu menn útlegð. Afhverju?… Jú þeir sömdu lögin sjálfir fyrir sjálfa sig… en önnur lög fyrir aðra… þ.e. þrælana.

    Þegar íslendingar gengust noregskonungi á hönd 1262… þá innleiddi konungur nýja lögbók Járnsíðu… sem fékk nafn sitt af því að nú var dauðarefsing jafnt fyrir „alla“ fyrir manndráp.

    Mönnum fannst síðunar úr járni í samanburðinum við eldri lögbókina… Grágás (gás = kynfæri kvenna)

    Í skipulögðum fjöldamorðum er alltaf farið í skilgreiningar leik með fórnarlömbin… að þau séu eitthvað annað en fólk.

    Dæmi:
    Gyðingar í seinni heimsstyrjöld voru ekki fólk… þrælar fyrir afnám þrælahalds voru ekki fólk… ófædd börn upp úr 1970 eru ekki fólk.

    Siðrofs-kynslóðin skilur ekki afhverju sumir græða meira en þeir sjálfir… og vilja refsa þeim… sama fólk aflífar eigin ófædd börn af hagkvæmnis og nytja ástæðum.

    5 kristnar og 57 múslima þjóðir banna fóstureyðingar.

    Kannski eru múslimar heilli eftir allt en kristnir… þó öll trúarbrögð séu eingöngu tæki til að stjórna fjöldanum… það eru lög líka.

    Dæmi:
    Embættismaðurinn Ragna Árnadóttir (aldrei kosin) er að vandræðast með samkynhneigða og biblíuna eftir sjórnsýslulögum.

    Posted by: Jóhann Gunnarsson | 3.05.2010 | 23:16:20

    ———————————-

    Takk fyrir frábæra grein, Eva. Ég er svo innilega sammála þér og það er ekki vegna trúarlegra skoðana. Fóstureyðingar og virðingarleysið sem ég finn fyrir hjá því sem næst öllum, eða ég held bara öllum, sem ég hef rætt það mál við hefur plagað mig næstum frá því ég man eftir mér og ég get bara ekki skilið hvernig hægt er að loka augunum svona gersamlega fyrir svo hræðilegum verknaði.
    Er þér sama þótt ég deili stundum skrifunum þínum á fb? Hefði líklega átt að spyrja þig um þetta fyrr.

    Posted by: Sigríður Halldórsdóttir | 4.05.2010 | 1:13:44

    ———————————-

    Jóhann það er töluverður munur á því að hætta meðferð og að beinlínis lóga fólki.

    Hugmyndin um eðlisrétt er ekki byggð á ‘kristilegu hugarfari’. Það sem fólk kallar ‘kristilegt hugarfar’ er oft mannúðarsjónarmið sem voru til löngu fyrir daga Krists og einkennir trúlausa jafnt sem trúmenn.

    Eins mikla andúð og ég hef á Rögnu Árnadóttur, þá get ég ekki séð að hún sé neitt að ‘vandræðast með biblíuna’. Þvert á móti hefur hún lagt fram frumvarp sem er réttlátt gagnvart öllum, líka þessari afdönkuðu afturhaldsstofnun, kirkjunni. Það er bara fínt að prestar sem eru mótfallnir mannréttindum samkynhneigðra afhjúpi sfstöðu sína með því að neita samkynhneigðum um vígslu án þess að geta skýlt sér á bak við lagabókstafinn.

    Posted by: Eva | 4.05.2010 | 6:51:00

    ———————————-

    Sigríður, ég birti skrif mín á netinu af tveimur ástæðum. Annarsvegar skrifa ég skáldskap og hugrenningar sem ég vona að geti verið einhverjum til ánægju. Hinsvegar vegna þess að ég vil koma skoðunum mínum á framfæri. Ég er innilega þakklát hverjum þeim sem dreifir því sem ég skrifa.

    Ég geri enga kröfu um að mín sé getið sem höfundar, þér er frjálst að taka textana og umorða þá, slíta þá í sundur og bæta inn í, svo framarlega sem mér eru ekki gerðar upp skoðanir sem ég hef ekki og skrif mín eru ekki notuð í gróðaskyni.

    Posted by: Eva | 4.05.2010 | 6:58:32

    ———————————-

    Áhugaverðar pælingar, takk takk.

    Posted by: Kristín í París | 4.05.2010 | 7:31:06

    ———————————-

    Eva skrifar:
    „Jóhann það er töluverður munur á því að hætta meðferð og að beinlínis lóga fólki.“

    Mín skoðun:
    Nú… hver er munurinn? Ef sjúklingur deyr innan nokkurra klst ef vökva og næringargjöf er hætt… en gæti lifað nokkra mán annars… er það e-ð annað en „aflífun“?

    Eva skrifar:
    „Eins mikla andúð og ég hef á Rögnu Árnadóttur, þá get ég ekki séð að hún sé neitt að ‘vandræðast með biblíuna’. Þvert á móti hefur hún lagt fram frumvarp sem er réttlátt gagnvart öllum, líka þessari afdönkuðu afturhaldsstofnun, kirkjunni.“

    Mín skoðun:
    Ragna Árnadóttir er að reyna túlka biblíuna eftir stjórnsýslulögum.

    Ástæðan fyrir ummælunum var að nefna dæmi um að trúarbrögð eru tæki stjórnvalda til að stjórna fjöldanum.

    Eva skrifar:
    „Hugmyndin um eðlisrétt er ekki byggður á ‘kristilegu hugarfari’.“

    Mín skoðun:
    Hvaða heimildir ertu að vitna í?

    Thomas Aquino var helsti kennimaður kirkjunnar um sína daga.

    Posted by: Jóhann Gunnarsson | 4.05.2010 | 7:55:13

    ———————————-

    Eva skrifar:
    „Nú þegar búið er að afnema rétt súludansmeyja til að sjá sér farborða af því að meðal þeirra er hugsanlegt að finnist einhverskonar þolendur, má búast við að næsta kvenréttindamál verði aukin fyrirlitning á móðurhlutverkinu og skertur réttur barna til að lifa af vistina í móðurkviði. Viðhorf sem í raun þjóna því kapítalíska viðhorfi að efnahagsmál og hagsmunir atvinnulífins skuli alltaf sett á oddinn, og frekar svona írónískt að þau skuli koma frá konum sem kenna sig við mannúð og félagshyggju“Mín skoðun:
    Ef atvinnulífið er ekki í lagi… þá förum við aftur á steinöld innan skamms.Ef efnahagsmál eru ekki í lagi… þá er ekkert til skiptanna.Súludansmeyjar ógna tilveru miðaldra „mussu kerlinga“ í rauðum sokkum.Kynlífs eftirspurin eftir konum í yfirvigt komnum fram yfir tíðahvörf er svipuð og eftirspurin eftir jólatrjám eftir þrettándann… sem fjúka um götur… og bíða komu hreinsunardeildar.

    Femínistar kenna yngri konum um minkandi kynlífs-eftirspurn.

    En femínistar hafa þann rétt að ráðskast með líf yngri kvenna… sem ennþá eru í barneign… og vilja ákveða fyrir þær þeirra réttindi… og að þær séu ekki færar um ákvarðanir að selja aðgang að eigin líkama… ef karlmenn girnast þær… fremur en rauð-sokkurnar. Allt í nafni lýðræðis.

    Femínistar komnir úr barneign hafa þann rétt að takamarka barneignir yngri kvenna… m.a. af því að ófædd börn hafa engan rétt til lífins… sem er afurð sið-rofs 68’kynslóðarinnar… sem nú upplifir sjálfsvorkun í smá ponzi-leiðréttingu.

    Ófædd börn eiga ekki rétt á lífi… 1/5 fæðast aldrei… hvort tölfræðin hækkar eða lækkar er aukaatriði.

    „Dauði einstaklings er harmleikur… fjöldamorð er statistik“………Joseph Stalin

    Posted by: Jóhann Gunnarsson | 4.05.2010 | 8:49:12

    ———————————-

    Jóhann vilt þú ekki bara benda á einhverjar heimildir sem styðja þá tilgátu að hugmyndir um mannhelgi hafi ekki tíðkast fyrir daga kristinnar. Þótt kristlingar tali um umburðarlyndi, mannúð og kærleika sem ‘kristilegt hugarfar’ þá er bara nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að þessir eiginleikar hafi orðið til með kristindómnum, hvað þá að kristlingar hafi þá í meira mæli en annað fólk.

    Munurinn á því að drepa mann og að grípa ekki til allra ráða til að bjarga honum er sá sami og munurinn á því að kveikja í húsi og að slökkva ekki eld í húsi sem þegar er kviknað í. Ég er ekkert að mæla sérstaklega með líknardrápum og þau eru ekki til umræðu hér en auk þess nenni ég ekki að ræða fóstureyðingar út frá mannhelgihugmyndinni. Það þjónar ekki tilgangi.

    Ég er að reyna að vekja athygli á nauðsyn þess að leiðrétta það viðhorf að börn séu vandamál og líf mæðra ömurlegt. Mér finnst nefnilega að óháð því hvort lífið er heilagt eða ekki, sé ekkert óeðlilegt eða sorglegt við það að fólk sem stundar kynlíf eiginist börn. Ef þú hefur eitthvað til þeirrar umræðu að leggja þá endilega gerðu það en í allra jólasveinanna bænum hlífðu mér við guðsorðinu og frekara bulli um kristilegt hugarfar.

    Posted by: Eva | 4.05.2010 | 8:59:47

    ———————————-
    Og Jóhann plís hlífðu okkur líka við þessu rakalausa bulli þínu um femínista. Femínistar eru á öllum aldri og það er ekkert sem bendir til þess að feministar séu ljótari, kynkaldari eða biturri en aðrar konur. Það er hinsvegar algengt að þær líti á konur sem þolendur og karla sem skúrka og séu haldnar forræðishyggju gagnvart þeim sem hafa aðrar hugmyndir um kynlíf, kynferðislegt siðferði, kynjaímyndir og kynhlutverk. Það er þeim grunni sem þær berjast gegn vændis- og klámiðnaðinum og þær hafa bara fullan rétt til þess. Hinsvegar ættu þær að sjá sóma sinn í því að spyrja viðföng björgunaraðgerða sinna álits. Sannleikurinn er sá að það er mikið talað um fólk í kynlífsiðnaði en mjög sjaldan talað við það.

    Posted by: Eva | 4.05.2010 | 9:12:04

    ———————————-

    Af hverju eru börn ekki velkomin, góð spurning.
    Það var nú að koma út skýrsla um að Ísland sé eitt af bestu löndum í heimi fyrir mæður. Ef börn eru ekki velkomin hér hvernig er ástandið þá þar sem er alvöru fátækt?

    Posted by: Sigrún | 4.05.2010 | 9:21:02

    ———————————-

    Eva skrifar:
    “ Ef þú hefur eitthvað til þeirrar umræðu að leggja þá endilega gerðu það en í allra jólasveinanna bænum hlífðu mér við guðsorðinu og frekara bulli um kristilegt hugarfar.“

    Mín skoðun:

    Man made god & the devil
    so there’s no heaven or hell.

    Einhver misskilningur er á ferðinni… ef fólk telur mig í trúboði. Hins vegar hefur kirkjan haft mikil áhrif á lagasetningu (Liber Extra frá 1234) á dögum Gregoríusar IX á 13. öld (söguskoðun um réttarsögu… ekki trúarskoðun).

    Ef ekki má ræða fóstureyðingar hér út frá trúarbrögðum eða mannréttindum… frá hvaða sjónarmiðum má þá ræða fóstureyðingar?

    Posted by: Jóhann Gunnarsson | 4.05.2010 | 11:25:26

    ———————————-

    Ég er að reyna að stofna til umræðu um það hversvegna börn eru óvelkomin og hvað þurfi að gerast til að þau viðhorf breytist, vegna þess einfaldlega að það er ekki hægt að ræða þetta út frá mannhelgi og kvenréttindum nema lenda í þrætum sem skila engu. Ég held reyndar að ég sé búin að taka það fram minnst 5 sinnum.

    Posted by: Eva | 4.05.2010 | 12:07:00

Lokað er á athugasemdir.