Nú er skrattanum skemmt

download (2)

Samband mitt við Djöfulinn hefur verið stormasamt á köflum. Mig langar að vera snillingur. Mig langar að skrifa eitthvað svo þrusugott að fólk læri það utanbókar án þess að vita hver ég er. Kannski hugljúft kvæði sem bæjarstarfsmaður raular á leið í vinnuna eða eitthvað svona gáfulegt sem snjáldurverjar eigna Einstein eða Dalai Lama og klístra á fb-vegginn sinn ásamt mynd af sólarlagi.Ég hef margsinnis boðið sál mína í skiptum fyrir snilligáfu en því miður hefur skrattakollurinn í mínum sauðarlegg allt aðrar hugmyndir um gæði skrifa en ég sjálf, hann heimtar gróteskan húmor sem lætur mér illa og harðneitar að gera sonnetturnar mínar ódauðlegar. En kannski er ég heppin. Hann er svo helvíti kaldhæðinn Pokurinn og ekki víst að maður átti sig á því hvað hann hefur í huga þegar maður samþykkir að leggja sál sína að veði.

Pokurinn sveik mig eins og svo oft áður en ekki brást hann Agli Einarssyni þegar hann langaði að verða frægur.  Eða hvaða íslenska rithöfundi skyldi hlotnast sá heiður að eiga þann texta sem oftast hefur verið vitnað til í opinberri umræðu á síðustu árum? Til hamingju Egill. Næsta skref hlýtur að vera að fá textann sem hefst á orðunum „Síminn hjá Ásgeiri Kolbeinssyni hefur ekki stoppað …“ inn í skólaljóðin. Ég er nokkuð viss um að þeir eru miklu fleiri sem myndu bera kennsl á brot úr þessari gömlu bloggfærslu en Gunnarshólma.

Egill er orðinn frægari fyrir feministafærsluna en bíseppana. Og þegar mannorðsmissir bætist við er nokkuð víst að hann mun seint falla í gleymskunnar dá.  En það var nú kannski ekki beinlínis þessi tegund frægðar sem hann hafði í huga.

Og nú eru meintir feministar búnir að gera helsta fjandmann sinn ódauðlegan. Fyrir þeirra tilstilli er hann ekki lengur ómerkilegt Reykjavíkurselebb heldur hugsanlegt fórnarlamb pólitískra ofsókna. Eitthvað hefur a.m.k. orðið lögmanni hans tilefni til að viðra opinberlega grunsemdir um að valdamanneskja kunni að hafa beitt sér í málinu. Í augnablikinu er Egill ekki meintur nauðgari heldur maður sem var sakaður um glæp sem engar vísbendingar finnast um. Líf hans var  sett á pásu í hálft ár, á meðan lýðurinn pönkaðist á honum, en nú stendur hann keikur með úrskurð ríkissaksóknara í höndumum. Úrskurð þar sem fram kemur, ekki að orð standi gegn orði, heldur að öll gögn málsins mæli með niðurfellingu.

Egill hefur fengið meiri athygli fyrir það versta sem hann hefur nokkurn tíma skrifað en fyrir öll þau skrif sem hann sjálfur er ánægður með samanlagt.  Og eftir hina miklu auglýsingaherferð meintra feminista á skrifum hans og málinu öllu er líklegt að yfirlýsing Egils verði einhver mest lesna frétt ársins og að jafnvel þeir sem þola hann ekki trúi samt ríkissaksóknara. Líklega var það ekki hugmyndin.

Og púkinn situr á fjósbitanum og hlær.

Deildu færslunni

Share to Facebook