Hvað má lyfjanauðgun kosta?

download (3)

Undarlegur málflutningur hjá Sölva í myndbandinu með þessari frétt. Annarsvegar á almenningur að vera mjög ómeðvitaður um hættuna á lyfjanauðgunum en hinsvegar geta „velflestar ungar stúlkur á Íslandi geta sagt sögu af slíkum lyfjabyrlunum.“

Nú kemur ekki fram hvaða heimildir Sölvi hefur fyrir því að „velflestar“ stúlkur kannist við slík mál en þar fyrir utan segir það nákvæmlega ekkert um tíðni lyfjanauðgana þótt fólk segi sögur. Fyrir nokkrum áratugum kunnu velflestir Íslendingar einhverjar sögur af draugagangi og margir trúðu þeim en vitanlega er það ekki sönnun þess að draugar hafi unnvörpum leikið lausum hala. Niðurstöður rannsóknarinnar sem hér er til umfjöllunar eru athyglisverðar í þessu samhengi, en helmingur þátttakenda sagðist þekkja tilvik um lyfjanauðgun. Innan við 5% töldu sig sjálf hafa orðið fyrir eiturbyrlun og enginn þáttakandi sagðist hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í kjölfarið. Sögusagnir og veruleiki fara ekki alltaf saman. Ég er ekki búin að lesa rannsóknina sjálfa svo ég veit ekki hvort spurt var um rán eða aðra glæpi eftir eiturbyrlun en ég vonast til að fá aðgang að henni seinna í dag.

Heiða B. Heiðars er að því leyti meiri blaðamaður en Sölvi (þótt það sé ekki hennar starf)  að hún skýrir þó allavega frá sínum heimildum. Hún hefur auðvitað ekki rætt við velflestar ungar stúlkur heldur safnaði hún um sextíu sögum og krafði yfirvöld svara, en það er allt of sjaldgæft að fréttamenn hafi fyrir því. Sextíu lyfjanauðganir er sláandi tala og þótt sé jafn óraunhæft markmið að taka algerlega fyrir lyfjanauðganir og að koma alfarið í veg fyrir aðra glæpi, slys og sjúkdómssmit, þá hlýtur að vera hægt að draga eitthvað úr þessum voða. Það sem mér fannst virkilega sjokkerandi í þessum þætti var það svar Landlæknis og/eða Lyfjastofnunar ríkisins að litarefni væru ekki sett í lyfin af því að það væri svo dýrt! Má semsagt ekki orka á nauðgurum eða hvað?

Reyndar er hugsanlegt að í einhverjum þeirra tilvika sem viðmælendur Heiðu lýsa hafi engin lyf verið inni í myndinni. Það kemur nefnilega fyrir að fólk verður fyrir meiri áhrifum af áfengi en það reiknar með. Ýmsir þættir hafa áhrif á ölvun. Ef maður er illa fyrirkallaður, þreyttur, stressaður, hefur borðað lítið eða er að byrja að veikjast, þá getur maður auðveldlega orðið sauðdrukkinn af litlu áfengismagni, ég tala nú ekki um þegar ungt fólk sem ekki er mjög vant drykkju á í hlut. Vonandi er það skýringin í einhverjum þessara tilvika því það er þó allavega raunhæfara að taka ábyrgð á drykkju sinni en að missa aldrei sjónar á glasinu sínu.

Hvað sem því líður er auðvelt að nauðga og fremja ýmsa aðra glæpi gagnvart fólki sem hefur verið dópað upp gegn vilja sínum og vitund og sé það rétt að ástæðan fyrir því að ekki eru sett litarefni í lyfin sé sú að það sé svo dýrt, þá þurfa Landlæknisembættið og Lyfjastofnun að svara því hvað þyki tilhlýðilegt verð fyrir eina nauðgun. Það væri öllu áhugaverðara að sjá fréttamenn krefja embættismenn og stofnanir um það svar en að heyra fullyrðingar um að velflestar stúlkur kunni kviksögur af lyfjanauðgunum.

Uppfært: Eftir að þessi pistill var skrifaður kom í ljós að byrlun nauðgunarlyfja hefur aldrei verið staðfest á Íslandi, hvað þá að staðfest hafi verið að nauðgun hafi átt sér stað eftir slíka byrlun.

Deildu færslunni

Share to Facebook