Harmageddon og kennivald kvenhyggjunnar

harmageddonUm daginn skrifaði ég grein þar sem ég nefndi dæmi um það hvernig kennivald kvenhyggjunnar er smámsaman að yfirtaka fjölmiðla.  Ég vissi samt ekki þá hversu langt þessi þróun er komin en Harmageddonmálið varpar enn nýju ljósi á það.

Fyrst féll ég fyrir Harmageddongríninu og hélt að stjórnendur þáttarins hefðu í alvöru gert svona feit mistök. Áttaði mig þó fljótt. Tónlistarmaður sem enginn hefur heyrt nefndan kallar sig Millz og kemur fram eins og Gillz í sjötta veldi. Æðsti prestur feminista á Íslandi kvartar og þess er af óskiljanlegum ástæðum getið í fjölmiðlum hver það var sem kvartaði. Téður æðstiprestur er með Sir Millz á vinalistanum sínum á facebook. Stjórnendur þáttarins sem hingað til hafa ekki sýnt af sér neinn púritanisma eru sagðir hafa gengist undir siðareglur þar sem „feminisk gildi“ séu í hávegum höfð og að lokum reka þeir sjálfa sig. Að sjálfsögðu er þetta grín og mér leið eins og fullkomnum asna þegar ég sá að ég hafði hlaupið apríl 30. nóvember.

Nema hvað; þetta er víst ekkert grín eftir allt saman. Lögmál Poes á svo sannarlega við bara ekki á þann hátt sem ég hélt. Farsinn er semsagt ekta. SirMills er ekki paródía heldur alvöru fáviti. Hann setti þetta lag sitt inn á Soundcloud fyrir tveimur árum. Og Máni og Frosti eru ekki að gera grín að kennivaldi kvenhyggjunnar þegar þeir segjast hafa sett sér feminiskar siðareglur heldur er þeim alvara.

Það ætti ekki að koma á óvart þótt stjórnendurnir víki í smátíma. Eins og ég talaði um í pistlinum sem ég tengdi á hér að ofan stjórna feministar því nú þegar hvað er tekið til sýninga í sjónvarpi og kvikmyndahúsum og því ekkert eðlilegra en að þær fjarstýri starfsmannahaldi útvarpsstöðva líka. Ég hélt þó satt að segja að þær þyrftu ennþá að frekjast dálítið til þess að fá að stjórna fjölmiðlum en svo er ekki. Útvarpsmenn gangast sjálfviljugir inn á það að lúta ákveðinni pólitískri hugmyndafræði, án þess að nokkur hafi beitt þá þrýstingi til þess.

Feminismi er þannig orðin nokkurskonar heilög kennisetning sem þarf að klína inn á sem flest plögg þó ekki sé nema upp á punt. Hann er eiginlega að taka við þeirri stöðu sem „kristileg gildi“ höfðu áður. Og það, kæru lesendur, er kennivald.

Deildu færslunni

Share to Facebook