Að ræða við feminista

Ég hef staðið í rökræðum við feminista undanfarið. Aðallega um glæpvæðingu vændiskaupa. Sá skelfilegi fræðimaður Anna Bentína Hermannsdóttir hélt því fram fyrir nokkrum vikum að ENGIN kona væri sjálfviljug í vændi. Nú, eftir að ég er búin að vísa á margar heimilidir, telur hún að það geti kannski átt við um einhverjar millistéttarmellur. Þessi sama manneskja heldur því fram að langflestar vændiskonur verði fyrir nauðgun og styður þá kenningu með skýrslu sem gefur upp töluna 11%. Þar sem hún getur ekki svarað neinu þegar ég bendi á að hún hafi sjálf farið rangt með heimildir, afgreiðir hún mig með því að ég sé „ómálefnaleg“. Ekki í fyrsta sinn.

Ingólfur Gíslason bendir á opinera skýrslu um sænsku leiðina sem sönnun þess hvað sú leið hafi skilað miklum árangri. Í skýrslunni kemur skýrt fram að útilokað sé að segja til um áhrif laganna á umfang vændis og mansals og að innanhússvændi hafi ekkert verið rannsakað. Helsta niðurstaða skýrslunnar er sú að herða þurfi refsingar við vændiskaupum þar sem eftirspurnin sé ennþá stórt vandamál.

Einhver sem ekki hefur svarað mér áður mótmælir því að karlar séu í meirihluta heimilislausra. Heimilisleysi kvenna sé bara svo „falið“. Jájá ég efast ekki um það en konur eiga samt sem áður auðveldara með að leita sér hjálpar og fá hana. Félagsmálayfirvöld taka t.d. frekar ábyrgð á móður eða óléttri konu en karli sem á börn. En það er náttúrulega bráðnauðsynlegt að halda fast í þá trú að konan sé alltaf og ævinlega fórnarlamb. Ég nenni ekki einu sinni að leggjast í rannsóknarvinnu til að svara þessu því flestir róttækir feministar taka engum rökum hvort sem er.

Svala spyr hvaðan ég hafi þær upplýsingar að karlmenn séu í meirihluta flóttamanna, það sé bara rangt því skv. UNCHR séu konur um helmingur. Ég benti henni á nákvæmt blaðsíðutal í nýjustu skýrslu UNCHR þar sem kemur einmitt fram að meirihluti flóttamanna sé karlar en samt sé helmingur þeirra sem UNHCR veitir aðstoð konur en hún þrætir samt.

Hvað er að feministum? Af hverju er þetta fólk svo ákveðið í því að halda fram einhverri þvælu að það vísar í heimildir sem hrekja beinlínis málflutning þess? Hefur það ekker kynnt sér heimildirnar sjálft eða vonar það bara að viðmælandinn falli fyrir „rannsóknir sýna“ rökunum án þess að skoða það frekar?

Jæja, þau eru allavega hætt að hundsa mig og í gær kom einhver fram með spurninguna sem ég er búin að bíða eftir lengi „hvaða reynslu hefur þú af vændi“? Sem gæti verið snjöll strategía. Það er ekki til gott svar við þeirri spurningu. Ef ég segðist hafa reynslu af því væri ég þar með geðveik, meðvirk og með Stokkhólsmheilkenni eða í skársta falli helvítis millistéttarmella með tengsl við peningamenn í bransanum. Og ef ég segðist enga reynslu hafa væri ég þar með úr leik af því að ég hefði ekkert vit á þessu. En þegar ég á í hlut er þetta ekkert mjög góð gildra því ég hef vit á því að svara þessu ekki. Tek því frekar sem merki um að þær séu orðnar verulega pirraðar á mér.

Það er annars dæmigert fyrir teprur að byrja alltaf á því að „hreinsa“ sig þegar póltískt rangri skoðun er haldið fram. „Sko, ég er nú ekki hommi sjálfur en …“. „Ég tek það fram að ég nota ekki kannabis en …“. „Bara svo það sé á hreinu þá stunda ég ekki súlustaði sjálfur en…“. Hvílíkir aumingjar. Ef maður trúir því í raun og sann að maður sé að verja réttan málstað þá ætti maður ekki að þurfa að baktryggja sig á þennan hátt.

Annars finnst mér stórkostlegt að sjá þá afhjúpun sem á sér stað þegar karlar fara að skrifa um feminisma. Einu sinni stóð ég upp á kvennafundi og sagði að líklega væri fljótlegasta leiðin til að ná jafnrétti sú að konur lærðu að gefa gott tott, því karlar hugsuðu ekki um mikið annað á meðan en konur væru svo miklar múltítask manneskjur að þær gætu bæði tottað og plottað í senn.

Ég var nú reyndar að skjóta á konur sem voru frekar uppteknar af staðalmyndum (m.a. kenningunni um múlítaskfærni kvenna) og héldu varla vatni yfir því hvað hann Davíð Þór, eini karlmaðurinn á staðnum væri æðislegur.

Ég hélt satt að segja að flestar næðu sneiðinni en nokkrum árum síðar eru karlar sem finnst konur hafa rétt til að klæða sig eins og þær vilja án þess að vera þar með gerðar ábyrgar ef þeim er nauðgað, kallaðir „öðlingar“ (þar sem aftur á móti kvenkynsfeminstar eru kallaðar tussur og feminstabeljur.) Gekk svo fram af mér þegar ég sá athugasemd við færslu Arngríms Vídalín á Knúsinu um daginn: „Húrra fyrir feministanum Arngrími!“ Ég meina afsakið mig meðan ég æli.

Jamm. Tott á línuna hlýtur að vera næsta skref í jafnréttisbaráttunni. Smjöðrum fyrir þeim „öðlingum“ sem finnst launamisrétti og eiginkvennabarsmíðar ekki beinlínis góðar hugmyndir. Stimplum svo þær konur sem sjálfsvirðingarlaus fórnarlömb og viljalaus verkfæri sem hafa rænu á að taka pening fyrir að leyfa körlum að halda að þeir séu merkilegri en þeir eru. Femmurnar gera það nefnilega frítt.

Jæja, þær vita allavega núna að lygaþvælunni sem frá þeim vellur verður svarað. Næst hjóla ég í næringarfræði bullustertana og dítoxruglið.

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Að ræða við feminista

  1. —————————————–

    Þegar ég las greinina þína þá datt niður í kollinn á mér nokkuð sem einn kennara minna í HÍ sagði. Þar sem ég var í uppeldis- og menntunarfræðum þá voru eðlilega tekin fyrir áhrif kynferðislegs ofbeldis á börn og hvort/hvernig sú sára reynsla hefði áhrif á hvernig fórnarlömbunum farnaðist seinna í lífinu. Hún sagðist ekki geta samvisku sinnar vegna lokið umfjöllun um þetta málefni án þess að segja okkur frá stórri og vandaðri rannsókn, að hennar sögn, um áhrif kynferðislegs ofbeldis á börn. Niðurstaðan varð: lítil sem engin áhrif. Salurinn öskraði af reiði og mér leið eins og ég hefði verið slegin. Ég vildi ekki heyra þetta. Ég setti þetta ekki í glósurnar mínar, ég las mér ekki til um rannsóknina og þetta er í annað sinn sem ég segi frá þessari umfjöllun því ég tæpti lauslega á þessu við son minn fyrir nokkrum árum – búið. Ég gat ekki og vildi ekki meðtaka þetta og eftir viðbrögðum í salnum að dæma má örugglega segja að það sama átti við um marga ef ekki flesta viðstadda. Þegar sami kennari sagði okkur frá ættbálki sem fórnaði nýfæddum, óvelkomnum eða veikum (man það ekki)börnum með því að bera þau út og skilja þau lifandi eftir í fjörunni til að láta hafið taka þau, þá heyrðust engar vandlætingarraddir nema frá mér sem missti út úr mér Ó Jesús en agalegt, eða eitthvað í þeim dúr. Ég fékk nokkrar augngotur út á það því að sjálfsögðu þykir ekki fínt að sýna tilfinningasemi í sjálfum fræðunum. Stundum finnst mér mannfólkið vera alveg gufu-ruglað, að mér meðtaldri. 🙂

    Posted by: Sigríður Halldórsdóttir | 30.10.2011 | 3:08:31

Lokað er á athugasemdir.