Jarðarberin á myndinni voru keypt í Bónus þann 31. mars. Svona litu þau út á föstudaginn langa.

Ef ég kaupi jarðarber í Glasgow eru þau ennþá óskemmd fimm dögum síðar. Myglaðir ávextir sjást ekki í venjulegum stórmörkuðum. Ekki heldur visið salat, skorpnar papríkur eða kartöflur sem eru farnar að spíra,

Af hverju er svona algengt að skemmdar vörur séu á boðstólum í ávaxta- og grænmetisborðum matvörubúða á Íslandi? Ég held að það geti kannski verið vegna þess að Íslendinar virðast almennt ekki líta á þetta sem vandamál. Þegar ég segi fólki frá því að tómatarnir hafi verið myglaðir eða að mangóin hafi skemmst áður en þau náðu fullum þroska (sem gerist ef þau eru ekki geymd við rétt hitastig) þá bendir fólk á „lausnir“ á borð við þá að skila vörunni, opna hverja öskju og kanna innihaldið áður en maður setur hana í körfuna, versla í sérverslunum frekar en stórmörkuðum eða maður fá ábendingu um eina búð á höfuðborgarsvæðinu sem selji óskemmt grænmeti. Maður nokkur hélt því fram, síðasta sumar, að við hefðum bara verið óheppin með kartöflur og bankaði upp á með nýuppteknar ú r Hornafirði, sem hann hafði keypt í búð í Reykjavík. Þær reyndust skemmdar.

Þessar myndir voru teknar í Bónus þann 3. október 2019. Allir þrír sítrónukassarnir sama veislan.

Íslendingar virðast ekki vita að skemmdur matur á einfaldlega ekki að vera til sölu. Þegar verslun býður upp á lágt vöruverð þá gildir það verð um vörur sem eru í lagi. Ef verslun vill selja vörur sem eru nýtanlegar en komnar fram yfir síðasta söludag á að vekja athygli neytandans á því og bjóða verulegan afslátt. Lágt verð réttlætir ekki að viðskiptavinum sé boðið upp á myglu, spíraðan lauk eða annað óæti. Neytandinn á ekki að þurfa að grandskoða hvern ávöxt sem hann kaupir og því síður á hann að þurfa að opna ílát til að kanna innihaldið. Hann á heldur ekki að þurfa að rjúka út í miðjum veisluundirbúningi til að skila skemmdum berjum og því síður þegar hann getur ekki reiknað með því að hinar berjaöskjurnar séu eitthvað skárri.

Ég er sannarlega fylgjandi því að hugsa í lausnum en það stendur upp á verslanir en ekki viðskiptavini að leysa þetta vandamál. Þar fyrir getur hinn almenni neytandi auðvitað þrýst á um breyingar. Það verður ekki gert með því að sniðganga verslanir sem bjóða upp á skemmt grænmeti því þessi ósvinna er of útbreidd til að sniðganga sé raunhæf. Það er aftur á móti raunhæft er að neytendur sem telja þessa viðskiptahætti ekki eðlilega taki myndir af ónýtum vörum sem þeir sjá í verslunum eða slysast til að kaupa og birti þær opinberlega, (t.d. á samfélagsmiðlum) ásamt upplýsingum um það hvar og hvenær vörunar voru keyptar til þess að vara aðra við og gefa kapítalinu til kynna að það séu ekki allir sáttir við þetta. Auðvitað má líka benda á verslanir sem standa sig vel. Mér finnst t.d. vert að taka fram að Rangá í Skipasundi bjargaði kvöldverðarboði okkar systra á föstudaginn langa því þar voru til óskemmd jarðarber.