Fyrir mörgum árum vann ég á elliheimili. Þar var kona sem hafði verið vinnukona á dönsku bóndabýli upp úr 1930. Hún fékk gott rúm, betri mat en hún átti að venjast og eignaðist góða vinkonu sem einnig vann á heimilinu.

Það leið þó ekki á löngu þar til henni fór að þykja vistin þrúgandi því það var nánast útilokað að gera frúnni til geðs. Hver flötur skyldi sápuþveginn eftir stundaskrá, hvort sem þörf var á því eða ekki og eftirlit frúarinnar fólst í því að leita uppi minnstu mistök. Hún þefaði af hurðunum, það var ekki nóg að sæjust ekki fingraför eða óhreinindi á þeim, þær áttu að anga af sápu. Þegar stúlkurnar höfðu þurrkað af í stofunni strauk hún hillur og borð með hvítum hanska, í von um að finna ryk.

Menning í endurskoðun

Á síðustu árum hefur endurskoðun þeirra viðhorfa sem við ólumst upp við m.a. birst í því að barnaefni litað af kynþáttahyggju er gagnrýnt og endurútgáfu hafnað. Bókmenntaverðlaun eru ekki lengur kennd við rithöfunda sem standast ekki kröfu nútímans um fordómaleysi. Bókmenntaverk hafa verið tekin út af leslistum skóla eða merkt með stuðvörun (trigger warning) – viðvörun um að í bókinni komi fram viðhorf, atvikalýsingar eða persónusköpun sem gæti vakið óþægilegar tilfinningar.

Mótmælabylgjan í kjölfar morðsins á George Floyd hefur í för með sér endurskoðun af svipuðum toga. Styttum er velt af stalli eða þær merktar, sjónvarpsstöðvar fjarlægja efni sem þykir til þess fallið að ýta undir rasisma eða merkja með stuðvörun, vörumerki eru tekin til endurskoðunar og spurt er hvort tónlist sem tengist menningu þræla sé viðeigandi. Einhver snillingurinn vill láta rífa niður allar styttur sem sýna Jesús sem hvítan mann.

Rasismi samtíðarinnar á sér vitaskuld einhvern uppruna og því ekki annað vænna en að ráðast á rótina. Að sjálfsögðu þurfum við að endurmeta sögu og menningu og taka þau viðhorf sem við ólumst upp við til endurskoðunar. Mér finnst samt á stundum þessi vandlæting gagnvart fortíðinni eiga meira skylt við eftirlit konunnar með hvíta hanskann en róttækni sem er líkleg til að bera árangur. Þeir sem harðast ganga fram virðast aldrei hafa heyrt orðið tíðarandi eða gera ráð fyrir því að fyrirrennarar þeirra hafi í einlægni talið viðhorf sín byggð á þekkingu, hvað þá að þeir hafi raunverulega viljað láta gott af sér leiða. Þeir sömu virðast heldur ekki reikna með að nútímabarnið sé hugsandi vera sem ráði við að endurskoða söguskilning sinn, hafna mistökum forfeðranna en um leið meta að verðleikum það sem vel var gert.

Krafan um að hvítir, miðaldra þegi

Í umræðu síðustu vikna hefur borið all mikið á því viðhorfi að nú eigi hvítt miðaldra forréttindapakk að þegja og láta þá sem verða fyrir rasismanum segja til um það hvað teljist rasískt og hvað ekki. Mín kynslóð er sek um að hafa lesið Tinnabækurnar og hefur aldrei verið ofsótt. Þar með höfum við ekkert vit á rasisma og eigum ekkert með að hafa skoðun á því hvað sé rasískt og hvað ekki. Hér er dregin upp staðalmynd með því markmiði að þagga niður í samfélagshópi sem truflar umræðuna og flækir málin. Má þá einu gilda hvort viðkomandi fer fram af hamslausu kynþáttahatri eða telur sig sjá einhverja hlið sem vert væri að ræða.

Nei, gott fólk, það verður ekki haft þannig, hvítt miðaldra fólk mun segja það sem því bara sýnist um þessi mál. Í fyrsta lagi vegna þess að tjáningarfrelsið er undirstaða lýðræðisins. Það þýðir að ef einhverjum líkar ekki það sem hvítt, miðaldra jakkafat eða einhver annar meintur óvinur réttlætis og framfara hefur að segja, þá stendur viðkomandi tvennt til boða – að leiða það hjá sér eða svara því. Þöggun er einfaldlega ekki umræðutaktík sem hægt er að sætta sig við. Í öðru lagi vegna þess að rasismi verður ekki upprættur með því að tiltekinn hópur taki sér einhverskonar kennivald og svari gagnrýni með ásökunum og upphrópunum, heldur með upplýstri umræðu.

Ég hef hug á því að nýta tjáningarfrelsi mitt til að ræða nokkrar hugmyndir um rasisma sem borið hefur á í samfélagsumræðunni undanfarið. Meðal þeirra eru eftirfarandi spurningar:

  • Einkennist Kofi Tómasar frænda af rasískum staðalmyndum?
  • Var Gandhi rasisti?
  • Eru vörumerkin Aunt Jemima og Uncle Ben’s niðrandi fyrir svarta Bandaríkjamenn?
  • Skírskotar sálmurinn Swing Low til þrælahalds?
  • Felst rasismi í list sem sýnir Jesús og aðrar Biblíufígúrur sem hvítt fólk?

Þessar spurningar eiga auðvitað rétt á sér og það er hægt að svara þeim öllum játandi. Ef maður leggur sig fram um að finna rasisma er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að þar með sé rétt og nauðsynlegt að sótthreinsa menninguna af slíkum ófögnuði. En ef við ætlum að afgreiða mannkynssögu og menningu á svo einfaldan hátt, þá er það ekkert skárra en að nota rasíska staðalmynd í áróðursskyni.

Hvað er rasismi?

Við skulum endurskoða söguskilning okkar með því markmiði að læra eitthvað sem getur hjálpað okkur að gera betur. Leita svara við spurningum af skynsamlegu viti fremur en að afgreiða þær með vanhugsuðum upphrópunum. Horfa á heildarmyndina í stað þess að hnusa í allar áttir og æða um með hvíta hanskann í leit að skít. Nota fleiri en tvær heilafrumur til að komast að niðurstöðu í stað þess að jarma með hjörðinni.

Í þessari viðleitni skulum við hafa eftirfarandi í huga:

Rasismi er í hnotskurn það viðhorf að sumir menn séu réttbornir til meiri lífsgæða, frelsis, réttinda og mannvirðingar en aðrir og að uppruni fólks (kynþáttur og/eða menningarbakgrunnur) ráði stöðu þess í virðingarröðinni.

Í öðru lagi felur rasismi í sér þá afstöðu að vegna meintra yfirburða sinna hafi þeir sem tilheyra æðri hópnum fullan rétt til að valta yfir óæðri hópinn með manndrápum, niðrandi athugasemdum og öllu þar á milli.

Þessi afstaða er sjaldnast orðuð hreint út. Réttlætingarnar fyrir henni eru klæddar í búning vísinda, fræða, listar, löggæslu, landamæragæslu o.s.frv., skuldinni skellt á fórnarlömbin eða því haldið fram kúgunin sé þeim fyrir bestu.

Hlutverk staðalmynda

Það er ekki hægt að setja samasemmerki milli rasisma og staðalmynda en þetta tvennt tengist nánum böndum. Staðalmyndir eru ein birtingarmynd rasisma og eru meðal þess sem notað er til að undirbyggja rasisma og viðhalda honum. Staðalmyndir er ekki endilega skaðlegar en þær sýna alltaf einfalda og einhliða ímynd, venjulega með því að ýkja einkenni sem móttakandinn telur sig þekkja. Þær geta því auðveldlega þjónað þeim lygum sem búa að baki rasisma. Til einföldunar: Rasismi nýtir sér staðalmyndir og býr til nýjar alveg eins og hann nýtir sér vísindakenningar, listsköpun, stjórnmálaöfl o.sfrv. Það þýðir ekki að vísindi, listsköpun eða stjórnmálaöfl séu í eðli sínu rasísk, og það sama á við um staðalmyndir.

Það sem rasismi er ekki

Rasismi er ekki hvaðeina sem kann að særa eða móðga tiltekinn hóp.

Við getum ekki skilgreint rasisma út frá upplifun þess sem telur sig verða fyrir honum. Í fyrsta lagi er fólk í sömu stöðu ekki endilega sammála um hvað er særandi og það væri hvorki vit né sanngirni í því að láta litlum minnihluta eftir alræðisvald um það hverskonar tjáning er viðeigandi. Í öðru lagi er ekki hægt að ætlast til þess að fólk lesi hugsanir.

Til þess að saka manneskju af sanngirni um þá andstyggilegu afstöðu að manngildi fólks ráðist af uppruna þess verður viðkomandi að geta séð það fyrir að orð eða gjörðir verði túlkaðar á þann hátt. Þar með er ég ekki að segja að rasismi geti ekki verið ómeðvitaður eða að einbeittan ásetning þurfi til að réttlætanlegt sé að tala um kynþáttahyggju. Það sem ég á við er að fólk með greindarvísitölu yfir frostmarki á að hafa vit á því að horfa aðeins undir yfirborðið.

Dæmi: Þegar Íslendingur á tíræðisaldri notar orðið „negri“ þá er markmið hans sennilega ekki það að niðurlægja fólk af afrísku bergi. Það merkir ekki að það sé engin ástæða til að hafna því orði. Orð sem lengi eða víða hafa verið notuð til að berja á fólki geta verið særandi þótt það sé ekki tilgangurinn. En orð og önnur tjáning er ekki endilega rasísk í sjálfu sér, það er hugsunin að baki sem ræður því hvort um er að ræða kynþáttahyggju, tillitsleysi eða hreinlega grandleysi.

Í væntanlegri umfjöllun um menningarsótthreinsun geng ég út frá þessum forsendum. Þeim sem kunna að vera mér ósammála um þessar forsendur er velkomið að leggja sitt til umræðunnar.