Lítið hefur heyrst undanfarið frá þeim sem í byrjun apríl stóðu á því fastar en fótunum að Svíar væru eina þjóð veraldar sem hefði tekið skynsamlega stefnu gagnvart útbreiðslu kórónuveirunnar.

Hafi markmiðið verið að drepa sem flesta án þess að hætta á að lýðurinn efndi til mótmæla er árangurinn stórkostlegur.

Hjarðónæmið margboðaða sem áætlað var að myndi nást um miðjan júní ætlar eitthvað að láta á sér standa. Samkvæmt rannsókn lýðheilsuyfirvalda sem birt var á þriðjudag, þeirri víðtækustu sem gerð hefur verið hingað til, greinast mótefni ekki í 60% þjóðarinnar, heldur 6,1% í blóðsýnum sem tekin voru dagana 18.-24. maí. Rétt er að taka fram að hjarðónæmi var ekki kynnt sem markmið í sjálfu sér, heldur jákvæð afleiðing af þeirri ábyrgu stefnu að líta ekki á það sem vandamál þótt ungt og heilbrigt fólk smitaðist af sjúkdómi sem enginn vissi hvaða afleiðingar hefði til lengdar. Áform um að vernda áhættuhópa rann hressilega á rassgatið strax á fyrstu vikum faraldursins og veiran var komin í örugga dreifingu á þriðjungi elliheimila fyrstu vikuna í apríl.

Þótt mótefni greinist aðeins í 6,1% Svía telur Tegnell, sóttvarnalæknir ríkisins, að þetta sé allt að koma. Þegar allt kemur til alls er þetta geysileg framför frá því um mánaðamótin maí-apríl en þá greindust mótefni í aðeins 4,7% þátttakenda. Hæst var hlutfallið á Stokkhólmssvæðinu eða 7,3%.

„Dreifingin er minni en við bjuggumst við en það munar ekki mjög miklu“, sagði Tegnell á blaðamannafundi. Hann benti á að kórónuveiran dreifist í klösum en ekki jafnt og þétt eins og margar veirur sem áður hafa valdið farsóttum. Hann bendir á að hlutfall ónæmra sé mjög misjafnt eftir stöðum, sumstaðar ekki nema 4%-5% en á öðrum stöðum á bilinu 20-25%.

Við töldum að ónæmi yrði komið yfir 20% í maí. Það lítur út fyrir að við séum komin þangað núna en það er ekki öruggt. Það eru ákveðin merki sem benda í aðra átt og við verðum að skoða heildarmyndina

Meira en 2.300 manns hafa nú legið á gjörgæslu í Svíþjóð vegna kórónuveiki, og þegar þetta er ritað eru 5079 manns látnir af völdum hennar í Svíþjóð. „Þetta er hræðilega há tala en þrátt fyrir það flest kúrvan hægt og örugglega “ sagði Tegnell.

Hér má sjá hversu hratt sænska kúrvan er að fletjast í samanburði við nokkur önnur Evrópuríki.

Kórónuveiran stökkbreytist í sífellu og engar sannanir liggja fyrir um að fólk sem hefur myndað mótefni gegn kórónuveirunni geti ekki smitast aftur.

Sjá t.d. umfjöllun Reuters og Svt Nyheter