Max Blumenthal, vinstri sinnaður, bandarískur blaðamaður, birti svohljóðandi færslu á Twitter í gær, fimmtudag:

John Bolton, sá alræmdi lygamörður og fjandmaður allra lífvera er hrærast á jörð, er að átta sig á því sem allar vonarstjörnur andspyrnuhreyfingar Repúblikana eru búnar að sjá; að frjálslyndir vinstri menn munu umsvifalaust stökkva á hvaða hysteríska kalda stríðs áróður sem býðst ef þeir halda að hægt sé að nota hann gegn Trump.

Þessi skilaboð virðast hafa fallið forsetanum vel í geð því hann deildi þeim með fylgjendum sínum á Twitter, 82 milljónum talsins. Það er þó fátt annað, ef nokkuð sem Trump og Max Blumenthal eru sammála um.

Blumenthal sá sér leik á borði og breytti Twitter nafninu sínu í pólitísk slagorð sem hann skipti út af og til yfir daginn.

Slagorðin eru eftirfarandi:

Viðskiptabönn Bandaríkjanna drepa börn

Frelsum Julian Assange

Frjáls Palestína – rekum Jared

Fjársveltum lögguna

Með þessu móti kom Blumenthal skilaboðum sínum til fylgjenda Trumps um leið og þeir sáu færsluna um Bolton.

Blumenthal fylgdi þessu lymskubragði svo eftir með athugasemd við eigin færslu þar sem hann sendir Trump tóninn fyrir þá húrrandi heimsku að ráða Bolton, vitandi að hann vildi efna til 4. heimsstyrjaldarinnar.

Það er 100% rétt hjá Trump að Bolton vildi efna til 4. heimstyrjaldar. Heilinn í þér hlýtur að vera að 80% affallsvatn úr hassfötu, fyrst þú ferð fyrst í herferð gegn ný-íhaldinu, ræður svo Bolton, ásamt þjóðarmorðs-Abrams, Jabba Pompeo og hvaða FDD Likud-sinna sem Sheldon frændi skipar þér að ráða. Trump er fíflið sem att var á foraðið.

Um hvað snýst gagnrýni Blumenthals á Bolton?

John Bolton er fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi Trumps. Forsetinn rak hann í september 2019, og tilkynnti það á Twitter. Tilefnið var ágreiningur þeirra Trumps og Bolton um áherslur í utanríkismálum, einkum um samskipti Bandaríkjanna við ráðamenn í Íran og Norður-Kóreu. Trump vildi greiða fyrir samskipum en Bolton taldi forsetann sýna stjórnvöldum í þessum ríkjum traust sem ekki væri innistæða fyrir.

Bolton aðhyllist utanríkisstefnu sem einkennst af miklum afskiptum Bandaríkjanna af málefnum Miðausturlanda og vill beita hervaldi til að koma á stjórnarskiptum í Sýrlandi, Líbýu og Íran. Hann hefur verið sakaður um misbeitingu valds, m.a. að beita leyniþjónustuna þrýstingi til að ná fram pólitískum markmiðum og liggja á upplýsingum þegar það hentar honum.

Þrátt fyrir harða hægri stefnu hefur John Bolton áunnið sér nokkra samúð vinstri manna vegna gagnrýni sinnar á Trump. Hann heldur því fram að Trump hafi leitað aðstoðar Kínverja til að auka líkur sínar á sigri í komandi forsetakosningum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í bók hans sem kemur út á næstu dögum. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur reynt að fá lögbann á útgáfuna og krafist þess að einhverjar síður verði afmáðar, á þeim forsendum að í henni séu upplýsingar sem lögum samkvæmt eigi að fara leynt og geti stofnað almannaöryggi í voða. (Sjá nánar t.d. hér og hér.)

Seinni færslan

Þjóðarmorðs Abrams sem Blumenthal nefnir i seinni færslunni er Elliott Abrams, ný-íhaldsmaður sem á sínum tíma rak áróður fyrir stuðningi Bandaríkjanna við Guatemala undir einræðisstjórn Ríos Montt. Árið 2012 var Rios Montt dæmdur fyrir glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð á Maya frumbyggjum í Guatemala í valdatíð sinni.

Mike Pompeo, sem Blumenthal líkir við Jabba the hutt út Stjörnustríði, er utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hann styður innlimun ólöglegra landtökubyggða í Ísrael.

FDD stendur fyrir Foundation for Defence of Democracies. Stofnunin er í senn vettvangur þar sem pólitísk stefnumótun fer fram og um leið skráð kynningarsamtök fyrir pólitísk stefnumál, eða það sem margir kalla einfaldlega áróðursmaskínu. FDD eru hernaðarsinnuð samtök og hafa m.a. verið gagnrýnd fyrir að vera í reynd hluti af áróðursmaskínu Zíonista sem sækjast eftir áhrifum á utanríkisstefnu Bandaríkjanna í þágu Ísraelsríkis.

Sheldon Adelson var helsti fjárhagslegi bakhjarl Trumps í kosningabaráttu hans. Með vísuninni til Sáms frænda gefur Blumenthal í skyn að hann hafi í reynd tögl og hagldir í bandarískum stjórnmálum.