Lítið hefur heyrst af brölti óreiðunefndar Þjóðaröryggisráðs undanfarið en nú hlýtur kortlagning upplýsingaóreiðu að vera komin í fullan gang. Með upplýsingaóreiðu er annarsvegar átt við falsréttir, þ.e. rangfærslur sem dreift er vísvitandi, oft til að reyna að hafa fé af fólki eða í pólitískum tilgangi. Hinsvegar er átt við upplýsingar sem standast ekki skoðun en er dreift í góðri trú. Niðurstöður óreiðunefndar verða að því leyti áhugaverðar að við fáum þá kannski loks upplýsingar um það hvaða fréttir hafa fengið gæðavottun Sannleiksráðuneytisins og hvaða fjölmiðlar teljast „traustsins verðir“.

Hvaða óreiðu höfum við glímt við?

Þremur mánuðum eftir að ljóst var að við stæðum frammi fyrir heimsfaraldri, veit ég ekki til þess að ein einasta falsfrétt hafi náð flugi á Íslandi. Landinn lagðist ekki í klórþamb, brenndi ekki farsímamöstur og kveikti ekki í Kínverska sendiráðinu í þeirri trú að dreifing veirunnar væri viljaverk og þáttur í meintri heimsvaldastefnu Kínverja. Svona fréttir voru bara leiðréttar og þar lögðust stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur á eitt.

Á hinn bóginn er nokkuð um að upplýsingar settar fram í góðri trú hafi reynst ónákvæmar eða beinlínis rangar. Sem dæmi má nefna fullyrðingar sóttvarnalæknis um að einkennalausir smiti ekki. Því hélt hann margsinnis fram t.d. á upplýsingafundi 26. febrúar. Annað dæmi er hugmyndin um hjarðónæmi. Blessunarlega hvarf Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fljótt frá þeirri hugmynd sem hann boðaði á fyrstu dögum faraldursins að rétt væri að stefna að myndum hjaróðnæmis. Hann hélt því eftir sem áður fram að hjarðónæmi myndi á endanum ráða niðurlögum veirunnar, sbr. t.d. orð hans á upplýsingafundi þann 25. mars:

Það er algjörlega ljóst að smit sem verður í samfélaginu það mun skapa hjarðónæmi og við höfum alltaf sagt það að við getum ekki komið í veg fyrir smit.

Nú er komið í ljós að hjarðónæmi er hvergi að myndast, ekki heldur á svæðum þar sem lítil áhersla var lögð á varúðarráðstafanir.

Fullyrðingar um að hverfandi smithætta væri af túristum þar sem þeir haldi sig að mestu utangarðs reyndust einnig vafasamar, í það minnsta nógu vafasamar til þess að á endanum var ákveðið að ferðamenn þyrftu að fara í sóttkví eftir komu til landsins rétt eins og Íslendingar.

Og nú vitum við að smithættan af útlendingum er raunveruleg ógn við líf og öryggi Íslendinga. Nógu raunveruleg til þess að nú um helgina stóð lögreglan í því að hundelta menn sem grunaðir voru um kórónusmit eftir að sóttvarnalæknir fór fram á gæsluvarðhald yfir smituðum útlendingi sem sakaður er um búðarþjófnað. Gæsluvarðhald, hvorki meira né minna. Það hlýtur því að stafa mikil smithætta af ferðamönnum eftir allt saman. Nema skýringin sé sú að búðaþjófar séu í nánara samneyti við Íslendinga en túristar sem eiga pening.

Einkennalausir smita ekki, túristar smita ekki, útbreiðsla veirunnar myndar hjarðónæmi – þessar röngu upplýsingar voru settar fram af yfirvöldum sjálfum og náðu eyrum þorra þjóðarinnar. Ætli þær séu meðal þess sem Sannleiksráðuneytið flokkar sem upplýsingaóreiðu?

Þá hefur sóttvarnalæknir margsinnis haldið því fram að lítið eða ekkert gagn sé af sóttvarnargrímum og að falskt öryggi geti jafnvel aukið hættuna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO er þessu reyndar ósammála og er þar með hofin frá fyrri afstöðu. Hvort það var fyrri afstaða hennar eða núgildandi afstaða sem telst til upplýsingaóreiðu skal ósagt látið. Sóttvarnalæknir Íslands heldur þó ótrauður við sína afstöðu þrátt fyrir þessa u-beygju WHO. Hér eru sérfræðingar ekki sammála svo yfirvaldið verður þá að skera úr um það hver hefur rétt fyrir sér svo hægt sé að kortleggja óreiðuna.

Hvaða miðlar reynast traustins verðir?

Bæði Alma Möller Landlæknir og Víðir Reynisson hafa varað við ótilgreindum fjölmiðlum og ráðlagt almenningi að halda sig við þá miðla sem reynst hafi traustsins verðir.

Og hvaða miðlar hafa svo sýnt í verki að þeir séu traustsins verðir? Viljinn, sem ekki telst meginstraumsmiðill, benti á heimildir fyrir því að einkennalausir geti verið smitberar, sama dag og Þórólfur sóttvarnalæknir hafnaði því. Viljinn deildi þannig réttum upplýsingum á meðan Ríkisútvarpið og aðrir meginstraumsmiðlar höfðu það sem betur hljómaði. Hefur Viljinn þá sannað trúverðugleik sinn?

Allir meginstraumsmiðlar hafa birt rangar upplýsingar frá heilbrigðisyfirvöldum en einnig hafa útbreiddir miðlar flutt fréttir sem byggja á misskilningi um vísindarannsóknir. T.a.m. birti Ríkisútvarpið frétt þann 25. maí um lyf sem sagt var minnka lífshættu af völdum kórónuveirunnar um 80%. Sú tala byggir á röngum útreikningum og hefur enn ekki verið leiðrétt nema að hluta, þótt klausu um lagfæringu hafi verið bætt við fréttina.

Upplýsingaóreiða meginstraumsmiðla er ekkert séríslenskt vandamál. Þann 11. júní birti Science Norway frétt um að norski ríkismiðillinn NKR hefði birt ranga frétt um uppruna kórónuveirunnar. Í fréttinni var  fullyrt að kórónuveiran gæti ekki verið upprunnin í náttúrunni og væri líklegast afsprengi vísindatilrauna. Tveir heimildamenn voru nafngreindir, annar er vísindamaður og hinn fyrrverandi njósnari Breska ríkisins. Fréttin hafði náð augum milljóna lesenda áður en hún var leiðrétt.

Látum ekki yfirvöld segja okkur hverju skal trúa

Sú hugmynd að stjórnvöld eigi að leiðbeinar lýðnum um það hvaða fréttir og hvaða miðlar séu marktækir er í besta falli gagnslaus. Þeir verða alltaf til sem þrífast á samsæriskenningum og kjósa að trúa því fráleitasta sem er í boði hverju sinni. Slíkt fólk er ekki hægt að sannfæra með staðreyndum og rökum hvort sem er, við hin sjáum sjálf um að hafna þvælunni, með því að hlusta á rök sérfræðinga sem og leikmanna og beita dómgreindinni.

Tilraunir yfirvalda til að stjórna fréttamati geta í versta falli leitt til hörmunga. Þeir sem tala í krafti kennivalds hafa nefnilega ekki alltaf rétt fyrir sér. Við ættum ekki að kokgleypa allt sem tilteknir sérfræðingar segja og yfirvöld ættu ekki að ýta undir blinda trú á „sitt fólk“.

Enn er því haldið fram að börn séu ekki smitberar. (Sjá t.d. hér á mín. 1:40.) Hið rétta er að miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir á Íslandi virðast þau mun ólíklegri til að smita út frá sér en fullorðnir.

Þó eru minnst 8 dæmi um að börn hafi smitað fullorðna á Íslandi og 6 dæmi um að börn hafi smitað önnur börn. Þetta er ekki há tala og vonandi er það rétt að lítil smithætta stafi af börnum en fyrir fólk með viðkvæm lungu eru 14 smit frá börnum alveg nóg ástæða til að forðast náið samneyti við börn. Ég er enn fegin að vinkona mín sem er með undirliggjandi sjúkdóm neitaði að senda börnin sín í skólann á meðan faraldurinn stóð sem hæst þrátt fyrir tilmæli heilbrigðisyfirvalda. Auk þess er Ísland ekki eina landið þar sem líkur á smiti frá börnum hafa verið rannsakaðar og það er bara langt frá því að einhver fullvissa ríki um þetta. Hver veit nema það hafi orðið okkur til happs hversu margir ákváðu sjálfir að halda börnum heima á meðan það versta gekk yfir?

Um 75% smita á Íslandi eru rakinAndrés Önd greinist smitaður. Ripp, Rapp og Rupp eru þá settir í sóttkví og nokkrum dögum síðar greinast þeir líka allir smitaðir. Smit þeirra þriggja eru rakin til Andrésar og eru þá fullrakin.

„Upplýsingaóreiða“ sem tengist kórónufaraldrinnum felst ekki fyrst og fremst í vísvitandi falsfréttum heldur er stærsta vandamálið það hversu lítið var vitað um veiruna þegar faraldurinn brast á. Og enn er mikil hætta á röngum ályktunum. Það eina sem er hægt að gera í því er að taka öllum upplýsingum sem sérfræðingar eru ekki einhuga um með fyrirvara og beita hyggjuvitinu þegar upplýsingar eru misvísandi. Til að fá upplýsingar um það hvar menn greinir á þarf auðvitað að hlusta á fleiri en Þórólf Guðnason og skoða fleiri miðla en Ríkisútvarpið.

Þegar upp er staðið hafa stærstu og verstu rangfærslur um kórónuveiruna og sjúkdóminn sem hún veldur komið frá yfirvöldum og verið dreift í gegnum Ríkisútvarpið og aðra meginstraumsmiðla. Mig grunar að Þjóðaröryggsráð gæti fundið sér eitthvað þarfara að dunda við en að kortleggja fréttir Ríkisútvarpsins, Vísis og annarra áhrifamikilla fjölmiðla. Mig grunar líka að það séu ekki rangar eða vafasamar upplýsingar sem þar eru hafðar eftir yfirvöldum sem Sannleiksráðuneytið hefur áhyggjur af.