Áform ríkisstjórnarinnar um að gera Ísland að sóttvarnarparadís gætu endað í feitu klúðri. En þetta reddast. Ekki endilega án klúðurs en þetta fer allt einhvernveginn og aldrei verr en illa.

Enn hefur ekki verið samið við hjúkrunarfræðinga og ekkert á hreinu um það til hvaða ráða verður gripið ef verður af verkfalli.

Ríkisstjórnin gekk út frá því að starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar ætti sér þann draum að verja sumrinu í veiruskimun en það var víst misskilningur. Þau ætla að hjálpa til „í byrjun“, hvað sem það nú þýðir.

Nú höfum við dæmi um útlendinga sem rétt eins og sumir Íslendingar vanrækja sóttvarnir.

Og sýnataka úr ferðamönnum sem eru væntanlegir með Norrænu til Seyðisfjarðar á morgun er í uppnámi.

En þetta reddast.

Ferðamenn nenntu ekki í sóttkví

Löggan eyddi helginni í að eltast við útlendinga vegna brota á fyrirmælum um sóttkví. Fimm manns sem á endanum mættu á leigubílum á lögreglustöð sögðust ekki hafa nennt að tilkynna um breyttan dvalarstað. Það er augljóslega brot á sóttkví að fara upp í leigubíl svo þeir hafa væntanlega ekki nennt að virða þá reglu heldur. Ætli þeir hafi nokkuð velt því fyrir sér hvort leigubílstjórarnir nenntu að fara í sóttkví? Og ætli Rúmenar séu öðru fólki latari eða eigum við eftir að sjá fleiri dæmi um að túristar í sóttkví nenni eiginlega ekki alveg að vera í sóttkví?

Á meðan smithættan var hvað mest fékk lögreglan fjölda tilkynninga um brot á sóttkví og það voru Íslendingar. Fólk var svona aðeins að skreppa á milli landshluta án þess endilega að nenna að tilkynna það áður. Einhverjir ætluðu að stytta sér einangrunarvistina með því að skreppa bara í skimun til Kára. Sumir áttu erindi í matvörubúð eða ríkið. Fyrst Íslendingar eru ekki sterkari á svellinu ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart þótt til séu túristar sem brjóta gegn sóttvarnarreglum.

Sóttvarnalæknir er sagður hafa krafist gæsluvarðhalds yfir þeim sem kunni að vera smitaðir úr hópi fyrrnefndra útlendinga en ég vona að sú frétt sé dæmi um upplýsingaóreiðu. Það er nefnilega mjög hæpið að skilyrði gæsluvarðhalds séu uppfyllt. Aftur á móti kveða sóttvarnarlög á um að sóttvarnalænir geti krafist þvingaðrar einangrunar, sem er alls ekki það sama og gæsluvarðhald. Það er gott mál að tekið sé á sóttvarnarbrotum af alvöru, það langar engan til þess að vera í samkomubanni í júlí og ágúst. En mig grunar að fleiri ferðalangar muni ekki nenna að vera í sóttkví. Hvernig er annars aðstaðan til að setja fólk í þvingaða einangrun? Er pláss fyrir marga?

Skimun farþega með Norrænu

Ég reikna ekki með að áform um sóttvarnarparadís geri ráð fyrir þoku eða öðrum fyrirsjáanlegum aðstæðum sem gætu sett skimun úr skorðum enda hefur ríkisstjórnin litla trú á þeirri aðferð að hafa vaðið sig. Eins og forsætisráðherra sagði í Kastljósinu þann 8. júní þegar hún var spurð hvert væri plan B vegna yfirvofandi verkfalls hjúkrunarfræðinga:

Ég leyfi mér að vona að aðilar muni ná saman […] og það er búið að gagnast mér ágætlega að vera ekki alltaf að hugsa um plan B heldur einmitt hugsa um það markmið sem við þurfum að ná.

Nú einblínum við á markmiðið í gegnum þokuna. Engum virðist hafa dottið í hug að fá Færeyinga til samstarfs enda þótt þeir hafi náð stórkostlegum árangri. Sá árangur náðist aðallega vegna fyrirhyggju eins manns, dýralæknisins Debes Christ­i­an­sen, sem hugsaði ekki „þetta reddast“ heldur byrjaði strax í janúar að vinna að því að verja Færeyjar gegn kórónuveirunni.

Norræna er á leið til landsins með farþega. Skimun mun fara fram um borð þegar skipið kemur til Seyðisfjarðar á morgun. Það gæti að vísu sett áætlun Norrænu úr skorðum og tafið fyrir því að fólkið komist frá borði en skítt með það – þetta reddast.

Það er kannski lán í óláni að þessi vandræði skuli koma upp sama dag og Sóttvarnarparadísin Ísland hefur skimun ferðamanna. Maður getur þá leyft sér að vona að stjórnvöld læri eitthvað af því og hugsi framvegis um plan B áður en fólki er att á foraðið. Líklegast er þó að lærdómurinn sem dreginn verður af þessu ævintýri sé enn og aftur – þetta reddast.