Fram hefur komið í fréttum að skimun Íslenskrar erfðagreiningar á slembiúrtökum bendi til þess að um eða undir 0,5% landsmanna sé með virkt kórunusmit. Enn er verið að vinna úr gögnum og er frekari frétta von eftir helgi.

Með þeirri tækni sem hingað til hefur verið notuð er aðeins hægt að greina virkt smit en ekki mótefni. Ekki er því vitað hversu margir hafa þegar myndað ónæmi. Það eru því líkur á að einhverjir hafi verið settir í sóttkví sem engin smithætta stafar af og að fólk sé í smitvari (einangrun sjálfu sér til verndar) án þess að þurfa á því að halda.

Upplýsingar um það hversu hátt hlutfall landsmanna má ætla að hafi þegar myndað mótefni geta að sjálfsögðu haft veruleg áhrif á það hversu lengi samkomubann og aðrar aðgerðir til varnar gegn veirunni þurfa að standa. Vonir standa til þess að fljótlega fáist einhverjar upplýsingar sem hægt er að byggja á, því samkvæmt upplýsingum frá Kára Stefánssyni hefur Íslensk erfðagreining pantað búnað til þess að skima 30 til 40 þúsund manns fyrir mótefnum. Reiknað er með að skimun hefjist strax í næstu viku.