Ég hlýði Víði – Rímleikur er nú orðinn að slagorði og framleiðsla á bolum hafin. Lógóið er afhjúpandi fyrir fávitalegt skeytingarleysið um alvöruna að baki krúttlegu slagorði – mynd sem í senn vísar til vinsælla teiknimyndafígúra, kórónu, lögreglustjörnunnar og hins alsjáandi auga eftirlitssamfélagsins. Þetta er snilldarleg hönnun – hvort sem hönnuðurinn gerir sér grein fyrir því eða ekki.

Þú, sem „hlýðir Víði“ – er það aðallega af hlýðni við yfirvaldið sem þú sest ekki undir stýri á óskoðuðum bíl með barn í framsætinu eftiir að hafa hellt í þig hálfpela af brennivíni? Myndirðu kannski gera það ef Víði þætti það góð hugmynd? Hefurðu virkilega ekki dómgreind til þess að sjá muninn á því að fylgja reglum sem settar eru öllum til verndar, bara vegna þess að þú berð ábyrgð gagnvart samborgurum þínum, og því að hlýða yfrvöldum í blindi? Flott hjá þér að hlýða Víði á meðan hann biður ekki um annað en það að við reynum að komast hjá því að breiða út drepsótt en ætlarðu líka að hlýða löggu sem stundar ólöglegt eftirlit með borgurunum og lemur niður mótmæli með piparúða að vopni?

Svo ömurlegt sem það er þá eru sniðugheit ekki eina ástæðan fyrir þessu slagorði. Það er ekki oft sem samúð mín er með stjórnvöldum en í þetta sinn langar mig ekki að hýða Víði, heldur þá sem hirða ekki um varúðarráðstafanir. Og sorrý en þeir asnar eiga það bara skilið að vera beittir sektum. Vonandi eru þeir fáir.

Hvaða æsingur er þetta þá? Er ekki bara gott að fólk hlýði Víði? Jú, af tvennu illu er það skárra en að það veikist eða smiti aðra. Auðvitað eigum við að fara eftir reglum sem settar eru samfélaginu til verndar, hvort sem það eru umferðarlög eða reglur um smitvarnir og ég vona að sem flestir leggi það á sig að halda sig sem mest heima á næstunni. Helst án þess að víðisaugað vaki yfir þeim. En við munum standa frammi fyrir öðrum vandamálum þegar þessu linnir og þá er ekki gefið mál að hlýðni verði okkur fyrir bestu.

Hugsanlega getum við krúttað okkur í gegnum kórónufárið en það krúttar sig enginn í gegnum fasisma. Svo það sé alveg á hreinu þá er ég ekki að kalla Víði Reynisson fasista og ég er ekki að segja að Ísland sé að breytast í fasistaríki. En í þetta sinn er allur heimurinn að glíma við sama óvin og í slíku ástandi fara fasistaöfl á stjá. Við getum alveg reiknað með að í mörgum löndum verði lýðræðið brotakennt næstu árin. Og þá verður heillavænlegra að treysta á eigin dómgreind áður en við ákveðum hvort við hlýðum Víði.