Í síðustu færslu minni sagðist ég vera kona sem hatar karla. Vona að enginn hafi skilið það þannig að ég vilji helst skera undan sem flestum körlum og grilla dindlana á Austurvelli og bjóða gangandi ásamt sinnepi og hráum.

Í huga mínum takast á tvær kröfur; „förum varlega með orð“ og „köllum hlutina sínum réttu nöfnum.“ Hatur er eitt þeirra orða sem við notum frjálslega en leggjum samt verulega neikvæða merkingu í, þegar það hentar okkur. Við meinum það ekki bókstaflega þegar við notum það en tökum því bókstaflega þegar það beinist gegn okkur.

Einu sinni, meðan ég rak Nornabúðina, kom til mín kona, froðufellandi af reiði og spurði hvort ég vildi vera svo væn að leggja það á vinnuveitanda hennar að hann „rotnaði í Helvíti“. Ég sagðist ekki hafa trú á að mér tækist vel upp með slíka bölbæn þar sem ég tryði ekki á Helvíti, hvort væri ekki bara nóg að hann fengi krabbamein í augu. Konan hélt andartak að mér væri alvara og bráði all snarlega af henni. Í raun vildi hún manninum ekkert illt. Hún vildi bara að þrjóturinn viðurkenndi að hann hefði komið illa fram við hana.

Það skiptir kannski ekki megin máli hvaða orð við notum. Fjandskapur, andúð, ofsareiði, hatur… þetta eru allt saman orð sem við notum til að lýsa þeirri tilfinningu að við teljum sættir ekki raunhæfan valkost. Einhver hefur gert eitthvað á hlut okkar sem við getum ekki fyrirgefið. Eða einhver hefur gert eitthvað á hlut okkar og vill ekki horfast í augu við það – sem gerir okkur aftur ómögulegt að fyrirgefa, því iðrun er forsenda fyrirgefningar.

Hildur Lilliendahl telur sig sjá mikla kvenfyrirlitningu í íslensku samfélagi. Aðferðin sem hún notar til að sýna fram á það er ekki vísindaleg og eflaust væri hægt að búa til sambærilegt albúm um hatur kvenna á körlum og jájá, það er hægt að taka skrif Hildar (Harpa Hreinsdóttir er t.d. búin að skrifa eina slíka grein) eða mín eða hvaða konu sem er og finna í þeim ofboðslega hatursorðræðu gegn körlum, konum eða einhverjum ákveðnum hópi karla eða kvenna. Þessháttar albúm er auðvitað fyrst og fremst „svar“ við gjörningnum. Hvað sem Hildur, ég eða einhver önnur kona hefur látið flakka, myndu flestar okkar segjast engum vilja illt þrátt fyrir hvasst orðalag og ég reikna með að flestir karlarnir í albúminu hennar Hildar segi það líka. Ég reikna með að mjög fáir þeirra ef nokkur hafi skaðað konu eða vilji skaða konur.

Jafnréttisumræða stríðandi fylkinga sem bítast um það hver hati hvern mest og heitast, er ekki líkleg til að vinna gegn hatri og fordómum. Væri ekki nær að skoða orðræðuna en að reyna að afneita henni með því að útskýra að við meinum ekki það sem við segjum og benda á að hinn aðilinn hafi nú líka látið ýmislegt ljótt flakka.

Sumt af því sem ég hef skrifað um samskipti kynjanna má vel flokka sem karlhatur. Það er ekki fallegt og ég er ekki að réttlæta það en vond viðhorf spretta ekki af engu. Það eru öll þessi smávægilegu atvik sem safnast saman og byggja með tímanum upp í manni reiði og andúð. Atvik sem væru nú bara hlægileg ef þau væru ekki stöðugt að endurtaka sig í einhverri mynd. T.d. svona sögur, ósköp meinlaus testesterónremba sem hættir að vera meinlaus þegar hún mætir manni allsstaðar.

Kæru karlmenn, þið sem hatið konur, ekki þannig að þið viljið okkur illt, heldur á sama hátt og ég hata karlmenn: Ég hef sagt ykkur sögur í tuga- ef ekki hundraðatali. Sögur af því hversvegna ég hata karlmenn. Flestar þeirra eru staðfærðar eða stílfærðar og eflaust sér karlinn hlutina í öðru ljósi en allar eiga þær rót í raunveruleikanum, raunverulegri upplifun minni.

Albúm Hildar Lilliendahl vekur áhuga minn. Ég hef ekki áhuga á því að draga þessa menn á pungnum niður á Austurvöll en ég hef áhuga á því að vita hvað býr að baki kvenhatri þeirra. Hvað gerum við konur sem vekur ykkur svo mikla andúð og reiði að ykkur finnst við sjálfar vera ábyrgar fyrir nauðgunum og öðru ofbeldi?

Já, ég meina það einmitt þannig, ég er til í að gefa því séns að kvenhatur eigi sér flóknari skýringar en skítlegt eðli. Ég er ekki að snapa fæting, ég er að óska eftir samræðu.