Kvenhatur: T.d. það að flokka dónabréfaskrif JBH sem dómgreindarbrest fremur en kynferðisglæp.
Gott og vel ég skil konseptið þótt mér finnist það umdeilanlegt. En svo kemur í ljós að við eigum ekkert að taka þessu bókstaflega. Þetta „karlar sem hata konur“ er bara einhverskonar pardódía á þá hugmynd að feministar séu karlhatarar og um leið vísun í vinsælasta karlhatursbókmenntaverk okkar tíma. Sorrý en það er eitthvað við þetta sem gengur ekki upp.
Sá sem hikar við að kalla Dominique Strauss Kahn nauðgara er nauðgaravinur.
Að kalla manninn sem hikar nauðgaravin er hinsvegar ekki karlhatur.
Enginn hatar neinn. Við notum bara orðið hatur til þess að benda á að sumir, einhverjir aðrir en okkars, þurfi að taka til í hausnum á sér þótt þeir hati kannski engan beinlínis.
Hvernig var þetta aftur með grjótharðan í hárugan bílskúrinn? Kvenhatur eða bara ósmekklegur húmor? Er ekki alveg á hreinu að enginn hatar þá sem tala á þann hátt, vilja bara vekja athygli á kvenhatri þeirra?
Ég játa; ég er kona sem hatar karla. Ekki alltaf, bara stundum. Ekki alla karla alltaf og aldrei hef ég hatað neinn sérstakan karl mjög lengi (þó marga um stund) en ég hef hinsvegar elskað marga karla tíu leiðir til tunglsins og heim aftur. En ég hata stundum tegundina. Þú’st þessa sem telur sig mér merkilegri út á dindilinn á sér.
Stundum hata ég líka lögguna sem stofnun en ég hef aldrei hatað neina tiltekna löggu. Ákveðnir þættir feminiskrar hugmyndafræði og orðræðu vekja mér kjánahroll og stöku sinnum andúð en aldrei hef ég hatað neinn feminista, þykir m.a.s. bara þó nokkuð vænt um suma þeirra.
Jakob Bjarnar Grétarsson er ekki karl sem hatar konur. Hugsanlega nöldurskjóða sem pönkast á konum sem pönkast á körlum en ég get vel skilið að honum finnist full langt gengið að vera settur í flokk með þeim sem finnst óþarfi að gera mál úr hópnauðgun í húsasundi.
Þráinn Bertelsson er heldur ekki karl sem hatar konur. Hann er karl sem gerir sér grein fyrir því að refsing þeirra sem verða uppvísir að barnagirnd eða eru bara grunaðir um barnagirnd er ekki fangavist heldur ævilangar ofsóknir og útskúfun úr mannlegu samfélagi.
Meðferð samfélagsins á kynferðisbrotamönnum gengur dauðarefsingu næst og burtséð frá því hversu ómannúðlegt það er, þá er afleiðingin sú að menn geta ekki játað á sig kynferðisafbrot eða leitað sér hjálpar við kvenhatri eða barnagirnd. Það að leggja dónaskap að jöfnu við kynferðisglæp upprætir ekki kynferðisglæpi heldur verður það til þess að menn sem kannski væri viðbjargandi ef þeir fengju rétta meðferð, geta ekki tekið áhættu á því að horfast í augu við sjálfa sig. En sá sem sér þá hlið á málunum hlýtur að vera karl sem hatar konur. Eða allavega karl sem álítur að konur hati karla, sem gefur okkur aftur svigrúm til einhverrar undarlegrar gerðar af paródíu.
Ég veit ekki alveg hvort er í raun skaðlegra, boðskapur fíflanna sem hata fólk eða fólksins sem hatar fíflin. Ég veit hinsvegar að Þráinn Bertelsson er enginn kvenhatari. Ekki Jakob Bjarnar heldur. Og fyrst Hildur Lilliendahl og aðar konur sem eru uppteknar af kvenhatri karla eru heldur ekki karlhatarar þá skil ég ekki alveg hversvegna öll umræða um jafnréttismál einkennist af ásökunum um hatur, fyrirlitningu og fordóma á báða bóga.
Það er allt í lagi að búa til karla og kerlingar úr deiginu. En að setja aðeins, bara kíló pipar út í deigið, það er ekki bara óþarfi heldur gerir það umræðuna óneysluhæfa með öllu.