Nú er komið í ljós að jafnlaunavottun hefur engin áhrif. Ja, nema kannski þau að útvega nokkrum flokksgæðingum vel launuð verkefni sem skila samfélaginu engu en sjúga peninga úr sameiginlegum sjóðum. Það er nefnilega ekki kynjamismunun sem veldur ójafnri stöðu kynjanna, nema hugsanlega að örlitlu leyti. Og ég er ekki að afsaka þann hugsanlega mun heldur að benda á að vandinn liggur annarsstaðar.
Ég reikna fastlega með að þessi kona verði jörðuð fyrir að benda á hið augljósa – að launamunur kynjanna skýrist mun fremur af mismunandi starfsvali en kerfislægri kvenfyrirlitningu. Það hefur, í það minnsta hingað til, farið öfugt ofan í flesta sem kenna sig við kvenfrelsi ef einhver karl bendir á þessa skýringu. Sá hinn sami fær umsvifalaust yfir sig skítagusur um illvilja í garð kvenna, sjálflægni, hrútskýringar, afneitun á hinum napra sannleika og almenna karlrembu. Við munum öll eftir James Damore.
Ég hef margsinnis bent á það sjálf að heppilegasta leiðin til að jafna stöðu kynjanna sé sú að hætta að ganga út frá kynjamismunun en leggja frekar áherslu á að bæta kjör láglaunastétta. Ég er venjulega afgreidd með pillum um meðvirkni með feðraveldinu og blindu á glerþakið.
Stóra vandamálið er hinsvegar ekki glerþakið – það eru aðeins fáar forréttindakonur sem komast nógu nálægt því til þess að rekast á það. Stóra vandamálið er vanvirðing fyrir framlagi lálaunastétta til samfélagsins, svosem verkamanna, starfsfólks veitingahúsa og þeirra sem vinna við umönnun.
En meintir femínistar hafa ekki sérstakan áhuga á stöðu láglaunakvenna. Samúð þeirra er miklu frekar með þeim konum sem eru alls ekki að reyna að uppræta það fyrirkomulag sem þær kalla ranglega „feðraveldi“ heldur að reyna að hasla sér völl innan þess.