Mér gramdist þegar hugmyndir um sjónvarpsþátt fyrir konur sem hafa áhuga á einhverju öðru en tísku og karlmönnum fengu engar undirtektir. Ekki af því að sé ekki allt í lagi með þátt um þessa hluti sem almennt er viðurkennt að höfði til kvenna, heldur finnst mér bara svo sjúkt og rangt að svo fáari konur taki þátt í því að móta samfélag sitt og ég held að það þurfi kannski aðeins öðruvísi efni til að höfða til okkar en karlmanna. Þessvegna vildi ég sjá svoleiðis þátt. Þátt sem vekur áhuga minn á t.d. efnahagsmálum, skipulagsmálum og öðrum hlutum sem koma mér við en ég eyði litlum tíma í að setja mig inní og enn minni tíma í að tala um.

Mér finnst ekkert að því að hafa áhuga á útliti, karlmönnum o.s.frv. en ég viðurkenni að ég hafði ákveðna fordóma gagnvart þessum þætti sem Tobba og Ellý ætluðu að sjá um en varð svo á endanum bara Tobbu þáttur. Var nokkuð viss um að ég myndi allavega ekki fá mikið út úr honum. Ég var þó farin að velta því fyrir mér hvort ég hefði hrapað að ályktunum og ákvað þessvegna að gefa honum séns þegar ég kom heim til Stefáns, líklega í fyrradag og sá Tobbu á skjánum.

Þegar ég kom inn var Tobba einmitt að tala um að fólk í ræktinni yrði að klæða sig þannig að ekki sæist í hvernig nærbuxum það væri. Stuttu síðar voru áhorfendur upplýstir um að það sem þeir birta á facebook sé alheiminum sýnilegt og því sé góð hugmynd að hugsa áður en maður notar opnar netsíður sem vettvang fyrir viðkvæmar upplýsingar. Ég slökkti.

Kæru sjónvarpkarlar, Satan, Jesús og englarnir allir; ég er kona, það merkir ekki endilega að ég sé illa hugsandi. Segið mér eitthvað sem ég veit ekki. Sýnið mér eitthvað sem örvar mig, vekur spurningar, fær mig til að horfa á hlutina frá öðru sjónarmiði, hvetur mig til að lesa meira, skrifa meira, standa upp og gera eitthvað.

Konur standa sig ekki vel í samfélagsþáttöku en kannski er það ekki bara vegna þess hvað við erum  gallaðar. Kannski hugsum við á aðeins annan hátt en karlar. Kannski þurfum við aðra nálgun en þið til að langa til að vera memm. Við segjum minna en þið, skrifum minna en þið, tökum síður ábyrgð, frumkvæði og áhættu, höfum minni áhrif og sækjumst síður eftir því og nei, það er ekki í lagi. Það er eitthvað að í heimi þar sem aðeins 13% greinahöfunda á Wikipedíu eru konur. Þar sem innan við  20% bloggpistla og blaðagreina um samfélagsmál eru eftir konur. Það er ekkert náttúrulögmál að konur sýni þetta áhugaleysi, það hlýtur að vera einhver önnur skýring á því. Ég veit ekki hver skýringin er en kannski er hægt að breyta þessu þótt við vitum ekki nákvæmlega hverju þetta sætir.

Ég vil sjá sjónvarpsþátt sem höfðar til kvenna sem eru búnar að afgreiða varalitinn, nærbuxurnar og facebook eða hafa kannski aldrei verið sérlega uppteknar af þessum hlutum. Kannski væri reynandi að fá konur sem hafa áhuga á efnahagsmálum, vegagerð, skipulagsmálum, fiskveiðistjórn og öðrum sviðum þar sem konur hafa lítið tjáð sig, til að matreiða fyrir okkur efni um þessa málaflokka. Kannski væri hægt að spyrja konur hvað þær vilji sjá ef ætlunin er að fjalla um efni sem nær út fyrir heimilið og vinnustaðinn. Já og facebook.

Og ef út í það er farið snýst þetta ekki bara um karla og konur. Hversu hátt hlutfall þeirra sem taka þátt í pólitík og pólitískri umræðu eru verkamenn? Iðnaðarmenn? Atvinnubílstjórnar? Ungir, gamlir, fatlaðir, fátækir? Væri hægt að framleiða efni sem höfðar meira til þessara hópa?  Eða erum við kannski alveg sátt við það að þröngur hópur karla stjórni heiminum á meðan konurnar, börnin og meirihluti karlanna hanga á facebook?