Í vændisumræðu síðustu vikna hafa komið fram margar athyglisverðar rökleysur og rök sem gætu verið góð ef þau héldu vatni. Við skulum fara yfir helstu ástæður fyrir því að vændiskaup skuli flokkast sem glæpur:
1 Vændiskaup eru púra ofbeldi
Þessi staðhæfing er ekki staðreynd heldur dæmi um „sannleikni“. Vændiskonur líta ekki á vændiskaup sem ofbeldi. Ef er í lagi að skilgreina eitthvað sem ofbeldi enda þótt meintur þolandi upplifi það ekki þannig, þá getum við allt eins flokkað hvert það starf sem okkur felllur illa sem ofbeldi gegn þeim sem vinna það. Þannig gæti ég haldið því fram að sláturhúsavinna sé ofbeldi (gegn starfsfólkinu) af því að MÉR FINNST að fólki hljóti að þykja ógeðslegt að gramsa í innyflum.
2 Það er alltaf nauðung sem hrekur fólk í vændi, engin kona velur þetta sjálfviljug
Þetta er rangt eins og ég hef margsýnt fram á. Sannleikin er eftir sem áður sú að þar sem margar mellur eru fátækar, á kafi í fíkniefnaneyslu og eiga að baki slæma lífsreynslu, séu þær í raun nauðugar enda þótt þær geri sér ekki grein fyrir því. Ef við ætlum að gefa þannig skít í hæfileika vændiskvenna til sjálfstæðrar hugsunar, getum við allt eins sagt að þar sem margir tónlistarmenn hafi alist upp við ömurlegar aðstæður og séu á kafi í neyslu, vilji þeir í raun og veru alls ekki þiggja laun fyrir tónlistarsköpun sína. Það er neyðin sem gerir þá að tónlistarmönnum, hvað svo sem þeir sjálfir segja af því að MÉR FINNST að það hljóti að vera orsakasamband milli tónlistarbransans og dópneyslu.
3 Bein tengsl eru milli mansals og vændis og kúnninn veit því aldrei hvort hann er að kaupa sér afnot af þræl eða frjálsri konu
Eins og ég hef sýnt fram á er langt frá því að hægt sé að flokka allan innflutning vændiskvenna sem mansal. Þær skilgreina sig sjálfar sem farandvændiskonur og sjá kynlífsþjónustu sem leið út úr neyðinni. Þrælahald er til í öllum greinum og sennilega algengara í vændi en flestum öðrum greinum. Eins og ég hef margsinnis bent á þá væri hægt að gefa vændishúsum og strippstöðum gæðavottorð ef þessi starfsemi væri lögleg, þannig að kúnninn gæti þá verið viss um að hann væri ekki að níðast á neinum. Á sama hátt er hægt að koma í veg fyrir að fólk kaupi óafvitandi framleiðslu frá barnaþrælabúðum, með því að votta mottur og annan vefnað. En sannleiknin lætur ekki á sér standa. Það er nefnilega ekki hægt að fara þá leið að merkja fatnað með stimplinum „engin börn komu að framleiðslu þessarar vöru“ ef MÉR FINNST að þeir sem framleiða mottur séu of vitlausir til að fatta að þeir eru í raun börn.
4 Fólk ætti ekki að njóta sjálfsákvörðunarréttar til að gera eitthvað sem mér finnst ósiðlegt. T.d. ætti fólk ekki að mega taka pening fyrir kynlíf, ekki frekar en það má taka pening fyrir að láta lemja sig
Reyndar eru hnefaleikar víða löglegir sem og ýmsar aðrar íþróttir sem fela í sér mikla hættu á líkamsmeiðslum. Sennilega er mun algengara að boxarar slasist í vinnunni en hórur. Eftir sem áður eru hnefaleikakappar frjálisr menn. Þeir hafa tekið ákvörðun sem mér finnst verulega galin og ég vildi gjarnan sjá að þeir sem fara út í box bara vegna fátæktar, ættu kost á því að verða bankastjórar og lögfræðingar en þó svo það væri í boði eru allaf til menn sem vilja stunda box. Það má deila um hversu siðlegir hnefaleikar eru en með sannleikni þeirra sem berjast gegn kynfrelsi kvenna og ráðstöfunarrétti þeirra yfir eigin líkama, mætti segja; hnefaleikar eiga ekki rétt á sér af því að MÉR FINNST ósiðlegt að einhver fái pening fyrir að láta lemja sig.
5 Fólk ætti ekki að njóta sjálfsákvörðunarréttar til að gera eitthvað hættulegt eins og t.d. að stunda vændi eða selja úr sér líffæri
Það var Jenný Anna sem kom fram með þessa bráðskemmtilegu sannleikni. Mér finnst líkingin að vísu verulega langsótt eins og ég kem að í svari til hennar en það er nú ekki eins og sé skortur á löglegum en þó hættulegum atvinnugreinum. Það má t.d. deila um það hversu siðlegt er að leyfa það að fólk hafi tekjur af íþróttum eins fimleikum sem hafa í för með sér töluverða hættu á meiðslum og jafnvel varanlegum skaða. Barnungar telpur eru látnar ofbjóða líkama sínum, þær byrja jafnvel ekki á blæðingum fyrr en um 16 ára aldur, þjálfarar þeirra græða á því að halda þeim sem lengst við efnið og íþróttafélögin sjá sér hag í því að gera þær út til keppni. Reyndar er umdeilanlegt hversu hættulegt það er að stunda vændi því þær vændiskonur sem verða fyrir líkamsárásum og deyja fyrir aldur fram stunda oftar en ekki áhættulíferni sem þarf alls ekki að vera fylgifiskur vændis. Ef það að vændi sé hættulegt er samt sem áður ástæða til að banna það, þá get ég með sömu sannleikni sagt að fimleikar eigi að vera ólöglegir af því að MÉR FINNST að annað fólk eigi ekki að hafa rétt til að stofna heilsu sinni í hættu.
6 Kynlíf er ekki mannréttindi
Nei, það er rétt. Mannréttindi eru réttindi sem allir menn eiga að njóta, hvort sem þeir verðskulda þau eða ekki og stjórnvöldum er skylt að sjá til þess að þau séu virt. Mannréttindum er ætlað að tryggja fólki rétt til lífs og mannúðlegrar meðferðar en þau ná ekki yfir nautnir. Ég hef heldur ekki heyrt neinn tala um kynlíf sem mannréttindi nema þá sem eru að reyna að gera lítið úr málflutningi þeirra sem vilja tryggja vændiskonum rétt til aðtaka eigin ákvarðanir. Hitt er svo annað mál að þótt kynlíf sé ekki mannréttindi, þá eru kynhvötin og þörfin fyrir ástúðlega snertingu grunnþarfir. Grunnþarfir á sama hátt og þörfin fyrir að borða sér til ánægju. Við getum flokkað það sem mannréttindi að fá næringu. Tilbreyting hvað varðar bragð og áferð fæðunnar er hinsvegar ekki ekki mannréttindi sem á skilyrðislaust að tryggja öllum alltaf en engu að síður grunnþörf sem við hljótum að reyna að mæta. T.d. með því að skapa landbúnaðar- og viðskiptaumhverfi sem býður upp á fjölbreytt fæðuúrval og bjóða þeim sem ekki geta stjórnað því sjálfir hvað þeir láta ofan í sig (t.d. á sjúkrahúsum og öðrum stofnunum) upp á annað og betra en bragðlaust næringarduft. Þeir eru til sem eiga ekki kost á því kynlífi sem þeir hafa þörf fyrir nema borga fyrir það. Fatlaðir hafa oft takmarkaðan ef nokkurn aðgang að kynlífi. Fólk sem er óframfærið, félagslega einangrað og/eða óheppið í útliti á stundum erfitt með að verða sér úti um maka. Fólk sem hefur sérþarfir á þessu sviði (t.d. þörf fyrir að láta berrassaða konu með grísagrímu stinga títuprjónum undir táneglurnar á sér) lendir líka í erfiðleikum með að finna bólfélaga sem henta því. Ef við ætlum að uppræta kynlífsþjónstu með þeirri sannleikni að kynlíf sé ekki mannréttindi get ég allt eins sagt að það ætti að banna kjötát alfarið, þar sem það er ekki lífsnauðsynlegt og MÉR FINNST að fólk geti bara étið kál.
Ég gæti haldið áfram lengi dags en öll rök nærbuxnafeminsta ber að sama brunni; vændi á að vera ólöglegt af því að MÉR FINNST að það eigi að vera það. Staðreyndir skipta engu máli. Rannsóknir skipta engu máli. Og það sem allra minnstu máli skiptir eru skoðanir þeirra sem veita þessa þjónustu og nýta sér hana. Þessi hugmynd kallast truthiness eða í minni þýðingu „sannleikni“.