Sóley Tómasdóttir hefur áður vakið athygli á þeim aðferðum sem Berit Ås telur að notaðar séu til að gera lítið úr málflutningi kvenna og gerir það nú enn og aftur.
Þetta er þörf lesning og sérstaklega er athyglisvert að skoða hvernig feministar víða um heim hafa beitt þessum aðferðum gegn þeim konum sem eru ósammála þeim eða gagnrýna aðgerðir þeirra. Í ljósi umræðu sem átt hefur sér stað síðustu vikuna, er við hæfi að skoða hvernig þessum aðferðum er beitt í umræðunni um vændi.
1. Að gera fólk ósýnilegt
Hjá feminstum gengur þetta svo langt að þær láta sér ekki nægja að hundsa málflutning frjálsra kvenna í kynlífsþjónustu, heldur er tilvist þeirra afneitað. Staðhæft, þrátt fyrir skýrar sannanir um allt annan veruleika að engin kona velji sér vændi að atvinnu. Auk þess er gengið fram hjá fólki í þessum störfum þegar fjallað er um málefni þess á opinberum vettvangi.
Rannsóknir á vændismarkaðnum sniðganga iðulega hátekjukonur í kynlífsþjónustu, svo sem fylgdardömur og sjálfstætt starfandi „call-girls“ sem og millistéttarkonur sem vinna á tiltölulega snyrtilegum vændishúsum, nuddstofum og strippstöðum. Látið er líta út fyrir að hin ömurlegasta mynd götuvændis sé sannleikurinn í hnotskurn, hinar eru einfaldlega ekki til.
2. Að gera fólk hlægilegt
Hér er áhugavert að skoða hugtakið „hamingjusama hóran“. Þegar rætt er um sjómenn, byggingarverkfræðinga og tískuhönnuði, þykir sjaldan ástæða til að velta því fyrir sér hvort þetta fólk er hamingjusamt eður ei. Hvort sem tiltekin störf eru samfélaginu lífsnauðsynleg eða eitthvað sem flokka má sem hégóma, snýst umræðan um fólk í þessum störfum um launakjör þess, öryggi og vinnuaðstæður. Jafnvel þegar þetta er allt saman óviðunandi, felst lausnin í því að bæta úr því. Ekki er einu sinni inni í myndinni að reyna að uppræta starfsemina með þeim rökum að hamingjusamir sjómenn séu ekki til enda er fullorðnu fólki almennt treyst til þess að meta það sjálft hvort starfsánægja þess sé nógu mikil til að halda áfram í sömu vinnu. Í öllum öðrum greinum en klámi og kynlífsþjónustu er talið eðlilegt að fólki leiðist stundum í vinnunni og eigi jafnvel af og til ömurlega daga.
Hugtakið „hamingjusama hóran“ er ekki komið frá þeim sem vinna við kynlífsþjónustu, heldur þeim sem vilja gera lítið úr þeirri hugmynd að nokkur vilji vinna jafn ómerkilegt starf. Hóra sem segist vera ánægð með sitt hlutskipti er ekki marktæk, hún er hlægileg, í skársta falli fórnarlamb vondra karla sem eru búnir að heilaþvo hana. Skoðanir hennar byggja á svo lítilvægum þáttum sem afkomu hennar og sjálfsákvörðunarrétti. Afleiðingarnar af þessari drottnunaraðferð eru þær sömu fyrir hórur og aðrar konur, þær eru tregar til að ræða viðhorf sín á opinberum vettvangi og skyldi nokkurn undra?
3. Að leyna upplýsingum
Þegar feministar fjalla um klám- og kynlífsiðnaðinn, láta þeir sér ekki nægja að leyna upplýsingum heldur ganga þeir svo langt að falsa staðreyndir. Bullið, ýmist afrakstur „rannsókna“ sem sniðganga vísindalegar aðferðir eða bara hreinn og klár uppspuni, er svo sett fram í formi skýrslna eða fræðirita og fjallað um það sem vísindi, staðreyndir og niðurstöður rannsókna. Ég hef í fyrri pistlum bent á ýmis dæmi sem ratað hafa inn í íslenska fjölmiðla. Einnig bendi ég þeim sem áhuga hafa á ýkjum feminista á að kynna sér bók Christinu Hoff Sommers, Who Stole Feminism, þar sem m.a. er fjallað um nokkur sláandi dæmi um staðreyndafalsanir.
4. Tvöföld refsing
Sé einhverjum legið á hálsi fyrir val sitt og forgangsröðun í lífinu, þá er það hóran. Einkum eru það millistéttarmellunar sem þarf að refsa. Þessar sem eru nógu vel að sér til að þora að tala, þessar sem eru að reyna að eyðileggja þá heilögu hugmynd að karlmenn séu einfaldlega ógeð. Þær eru að vísu, eins og allar aðrar mellur, í raun og veru fórnarlömb. Vorkunnarverð grey sem innst inni vilja alls ekki vera svona miklar druslur og hefðu aldrei tekið slíka ákvörðun nema af því að einhver illmenni voru búin að nauðga þeim og taka þar með frá þeim alla sjálfsvirðingu (en eins og allir vita er sjálfsvirðing kvenna staðsett í píkunni) sem og hæfileikann til að hugsa sjálfstætt.
Millistéttarmellurnar eru að því leyti verri en hinar druslunar að þær eru ekki bara fársjúk fórnarlömb heldur eru þær í þokkabót nógu gráðugar til að berjast fyrir rétti sínum. Þar með eru þær ekki bara geðveikar heldur til viðbótar eigingjarnar og skeytingarlausar um allar þær milljónir kvenna sem þrá ekkert heitar en að þeim verði gert ófært að framfleyta sér.
Gleðikonan stendur frammi fyrir því að engin ákvörðun sem hún tekur er rétt. Ef hún hættir, er eina tæka skýringin sú að líf í vændi sé óbærilegt. Í tilviki hórunnar er útilokað að hún hafi bara orðið leið á starfinu og þessvegna leitað á önnur mið eins og hendir fólk í öllum störfum. Fórnarlambsstimpillinn mun alltaf loða við hana. Ef hún ákveður að halda áfram er það líka merki um að hún sé fórnarlamb, þá er hún svo rosalega sjúk að hún bara kemst ekki út úr þessu. Ef hún mótmælir stigmanu og frábiður sér afskipti bjargvættanna, er hún of skemmd til að vita hvað er henni fyrir bestu eða í skársta falli að svíkja einhvern heilagan málstað sem hún þó hefur ekki svarið neina hollustu. Ef hún þiggur hjálp er hún lifandi sönnun þess að allar mellur séu fórnarlömb sem þurfi á afmellunarmeðferð feminista að halda og hún er svo fengin til að vitna um reynslu sína í dv, þar sem dregin er upp mynd af algerum aumingja sem hefur flotið sofandi að feigðarósi og hefur enga stjórn á sínu eigin lífi.
5. Að framkalla skömm og sektarkennd
Sennilega er fátt betur til þess fallið að framkalla skömm og sektarkennd hjá fólki en það að setja lög sem fela í sér þá hugmynd að það sé ósjálfrátt gjörða sinna. Á sama hátt og það er hinn fullorðni sem ber ábyrgðina á því að eiga mök við barn, er það viðskiptavinurinn sem ber ábyrgð á því að konan selur blíðu sína. Konan er, eins og barnið, óábyrg, ófær um að taka ábyrgð á eigin kynhegðun. Hún er ekki gerandi í eigin lífi, heldur viðfang. Virðingarstaða hennar er sú sama og grunnskólabarns. Það er óþarfi að spyrja hana álits, bjargvættirnar tala um hana en ekki við hana, heldur ákveða hvað er henni fyrir bestu án samráðs við hana. Hún er stimpluð:
- óábyrg
- sjálfsvirðingarlaus
- ófær um að meta aðstæður sínar
- ófær um að hafa skoðanir á eigin lífi
- ófær um að stjórna eigin lífi
- líkleg til að vera geðveik og eða heilaþvegin eftir vonda lífsreynslu
- líkleg til að vera fársjúkur fíkill
- ýmist fórnarlamb fátæktar eða siðblind af græðgi.
Rétt’upp’hend, allir sem telja að eitthvað af þessu sé til þess fallið að vekja skömm og sektarkennd.