Orðið hljóð er eitt af merkilegustu orðum íslenskunnar. Það táknar bæði hávaða og þögn og felur þannig í sér tvær fullkomlega gagnstæðar merkingar.

Þó er það ólíkt refhvörfum (oxymoron) að því leyti að þegar orðið er notað á aðeins önnur merkingin við, ólíkt orðum eins og ljúfsár og svarthvítur, sem fela í sér báðar merkingarnar í senn. Þversögnin sem refhvörfin búa yfir er því ekki til staðar, önnur merkingin er algerlega lögð til hliðar nema þá að um orðaleik sé að ræða.

Lengi hélt ég að hljóð væri eina orðið af þessu tagi sem til er í nútíma íslensku en mér yfirsást annað orð sem er sama eðlis. Það er orðið feðraveldi.

Feðraveldi táknar annarsvegar samfélag þar sem konur eru húsþrælar og útungunarvélar, minna virði en búpeningur og njóta hvorki sjálfræðis né annarra mannréttinda. Þar sem konur eru eign föður síns og síðar maka eða bræðra ef hvorki faðir né maki er til staðar.

En feðraveldi merkir einnig samfélag þar sem konur búa við sömu lagalegu réttindi og karlmenn, sömu skilyrði til heilsuverndar, menntunar og pólitískrar þáttöku að svo miklu leyti sem það er á færi kerfisins að tryggja þau. Þar sem kynjamismunun er beinlínis ólögleg. Þar sem konur ráða því sjálfar hvort og hvenær þær eignast börn. Þar sem kynfrelsi kvenna þykir svo sjálfsagt að mörgum finnst alveg koma til greina að útvega 11 ára börnum getnaðarvarnapillu án samráðs við foreldra. Þar sem konur nota nekt í sjálfstæðri listsköpun og fara hálfnaktar í kröfugöngur. Þar sem einstæðum mæðrum er útveguð sérstök fjárhagsaðstoð svo þær geti lokið grunnnámi. Þar sem fleiri konur en karlar ljúka háskólanámi. Þar sem konur sem sækjast eftir háum embættum þykja „flottar konur“. Þar sem konur í atvinnurekstri njóta sérstakra styrkja umfram karlmenn og eiga forgang í ýmis störf ef þær teljast jafnhæfar karli sem sækir um starfið. Þar sem konur hafa gegnt og gegna embættum lögreglustjóra, sýslumanna og bæjarstjóra, háskólarektors, ríkissaksóknara, hæstaréttardómara, þjóðleikhússstjóra, biskups og ráðherra; jafnvel forsætisráðherra. Þar sem kona hefur gegnt embætti forseta og góðar líkur eru á að næsti forseti verði kona.

Feðraveldi merkir þannig í senn samfélag þar sem konur eru kúgaðar og samfélag þar sem konur eru a.m.k. jafn frjálsar og karlmenn.

Er til orð yfir þetta stílbragð? Yfir orð sem hefur tvær fullkomlega andstæðar merkingar; orð eins og hljóð og feðraveldi? Væri t.d. hægt að nota orðið skollaleikur? Það vísar á ref og hefur þannig ákveðna tenginu við refhvörf.