Þrettán hópnauðganir og skýringin er náttúrulega einföld; það er klámvæðingin ógurlega sem á sökina. Óþarft er að styðja þá kenningu nokkrum rökum, andstæðingar tjáningarfrelsisins eru einfaldlega búnir að ákveða að klám sé undirrót alls ills, einkum ofbeldis. Enda eru þær hópnauðganir sem tíðkast í óklámvæddum samfélögum mun huggulegri en hinar ofbeldisfullu hópnauðganir vestrænna klámhunda, sem eflaust væru bara að spila bingó á laugardagskvöldum ef ekki væri allt þetta klám. Og ekki var konum nú nauðgað á miðöldum, meðan klám þreifst hvergi nema kannski í klaustrum -eða hvað?
Er nútíminn klámvæddur? Ójá, við sjáum vísanir í kynlíf allsstaðar og jafnvel þar sem það er ekki augljóst má alveg færa rök fyrir því að einhver kynferðisleg skilaboð sem eiga að hafa áhrif á undirvitundina sé að finna. Hvort það er endilega slæmt er svo allt annað mál. Er klám ógeðslegt og ofbeldiskennt? Jájá það getur alveg verið það en aðalrökin, semsagt þau að tengsl séu milli kláms og ofbeldis, þau halda ekki vatni. Ekkert, nákvæmlega ekkert bendir til slíkra tengsla, hvað þá orsakasamhengis. Hin hliðin, kostir kynfrelsisins, er hinsvegar nánast aldrei til umræðu en má ekki allt eins færa rök fyrir því að blygðunarleysi klámsins hafi opnað augu okkar fyrir því að ýmsar afbrigðilegar hvatir bendi hvorki til sjúkleika né leiði ástundun þeirra til geðveiki og dauða?
Var fólk í alvöru svona miklu betra og heilbrigðara á kynferðissviðinu árið 1950 en í dag? Værirðu til í að skipta við ömmu þína?
- Ef þú vilt lifa kynlífi með fólki af sama kyni án þess að eiga á hættu að þér verði refsað fyrir það – þakkaðu það klámvæðingunni.
- Ef þú hefur átt fleiri en 3 maka og þarft samt ekki að hafa áhyggjur af því að vinir þínir taki sveig fram hjá þér á götu – þakkaðu það klámvæðingunni.
- Ef þú hefur gaman af bindileikjum og getur sagt bólfélaga þínum að þig langi að fjötra hann, án þess að eiga á hættu að vera álitin geðveik – þakkaðu það klámvæðingunni.
- Ef þú hefur gaman af kynlífsleikföngum og getur nálgast þau án þess að fara til útlanda – þakkaðu það klámvæðingunni.
- Ef einhver kemst að því að þú átt kynlífsleikföng og það verður ekki til þess að þú hugleiðir að fremja sjálfsmorð eða flytja til Ástralíu – þakkaðu það klámvæðingunni.
- Ef þú vilt láta taka þig í rassinn og getur rætt það við maka þinn án þess að eiga á hættu að hann skilji við þig vegna afbrigðileika þíns – þakkaðu það klámvæðingunni.
- Ef þú hefur gaman af kynþokkafullum nærfötum og vilt geta keypt þau án þess að fara í sérstaka dónabúð -þakkaðu það klámvæðingunni.
- Ef þú færð kikk út úr því að vera rassskellt og getur rætt það við maka þinn án þess að hann álíti að þú sért þar með að bjóða honum upp á að berja þig og nauðga – þakkaðu það klámvæðingunni.
- Ef þig langar að stunda kynlíf með fleiri en einni manneskju í einu og getur látið það eftir þér, án þess að geta reiknað með að börnin þín verði tekin af þér ef það kemst upp – þakkaðu það klámvæðingunni.
- Ef þú birtir nektarmyndir af sjálfri þér opinberlega og það merkilegasta sem stækustu klámvæðingarpostulum dettur í hug að segja um það er grútmáttlaust prump um sjálfhverfu og athyglissýki – þakkaðu það klámvæðingunni.
Og ef þú vilt að þetta verði skilgreint sem klám, ef þú vilt að stórvirki á borð við Lolitu verði skilgreind sem klám, ef þú vilt stuðla að ritskoðun og takmarka frelsi listamanna til að nota kvenlíkamann sem módel eða fjalla um kynlíf í verkum sínum, þá skaltu taka undir klámvæðingarmóðursýkina, tyggja upp algerlega órökstuddar fullyrðingar um tengsl kláms og ofbeldis og tala eins og nauðganir hafi verið fundnar upp á 20.öldinni.