Það er ástæða fyrir því að við búum til karla og kerlingar úr deiginu. Hún er sú að mannkynið skiptist, frá náttúrunnar hendi, gróflega í tvennskonar fólk, karla og konur. Ekki í svarta, hvíta og gula, blendingsafbrigðin eru óendanlega mörg, það eru hinsvegar ekki til nein blendingsafbrigði af karli og konu, ef barn fæðist tvíkynja að hluta eða alveg, er það „galli“ en ekki blöndun.

Þessi meðfæddi munur er ekki pínulítill, heldur risastór, hvort heldur er líkamlega eða félagslega. Og ekki bara stór, heldur líka svo algengur að hinn háværi meirihluti kemst upp með það að taka nánast ekkert tillit til þeirra sem gera ekki svona mikinn greinarmun á kynjunum eða er bara sama um hann. Til er fólki með typpi sem skilgreinir sig sem konur, fólk með píku sem skilgreinir sig sem karla og fólk sem gefur skít í þessar kynjaskilgreiningar. Einnig konur og karlar sem eru fullkomlega sátt við sitt líffræðilega kyn en hafa aldrei fundið sig í hefðbundum kynhlutverkum. Það hlýtur að vera óþægilegt fyrir þetta fólk að vera stöðugt minnt á þá kröfu að fólk falli í ákveðin kynjamót. Hvernig ætli það sé fyrir konu með typpi að vera vísað í búningsklefa karla þegar hún fer í sund?  Hvernig finnst lítilli stelpu sem langar að leika sér að vörubíl og skurðgröfu að koma inn í leikfangabúð þar sem uppstillingar gefa henni skýr skilaboð um að val hennar sé óðeðlilegt? Til hvers erum við alltaf að hamra á þessu?

Það er engin ástæða til þess að vera stöðugt að minna börn (eða fullorðna ef út í það er farið) á það að kynin séu tvö og ólík. Börn eiga ekki í neinum vandræðum með að velja sína uppáhaldsleiki hjálparlaust eða  tína út þau leikföng sem henta þeim, þau þurfa ekki leiðbeiningar um hvað henti drengjum og hvað henti telpum. Bendum leikfanga og fatabúðum endilega á það.

En hugsum líka út í það hverskonar fordómar búa undir viðbrögðum þeirra sem segjast vera að berjast fyrir jafnrétti, en verða svo vitlausir þegar leikfangaframleiðandi kemur til móts við óskir þeirra barna sem eru hrifin af dúkkuhúsum og gæludýrum, og hrífast af tísku- og snyrtivöruiðnaðinum.

Það vill svo til að stór meirihluti þeirra barna sem hafa þennan smekk er kvenkyns og hvað sem öllu jafnrétti líður hafa fáar stúlkur sýnt sérstakan áhuga á stríðsleikföngum, vinnuvélum og öðru sem gegnum tíðina hefur verið flokkað sem strákaleikföng án þess að nokkur áliti það vandamál. Nú þegar hið vinsæla fyrirtæki Legó markaðssetur leikföng sem höfða til barna sem ekki hafa áhuga á stríðsleikjum, geimförum og tækni, þá allt í einu verður kynjaáherslan vandamál. Ekki bara vegna þess að þar með er viðurkennt að börn skiptist gróflega í telpur og drengi (sem er reyndar ástæðan fyrir því að fyrirtækið fer þessa leið, hugmyndin er ekki djöfullegt plott um að koma á kynjaaðgreiningu í veröld þar sem stelpur eru vitlausar í lásboga og átjánhjóla trukka) heldur er talið að það að leika sér að dúkkuhúsi og snyrtistofu, sé mun ómerkilegra en að leika sér að sjóræningjaskipi eða geimstöð.

„Jafnréttisbaráttan“ í dag, snýst að hluta til um að það að telja stúlkum trú um að þær setji niður við það að tileinka sér áhugasvið og áherslur mæðra sinna. Stjörnustríðshetjur skulu teljast áhugaverðari en húsmæður. Dýralæknar og snyrtifræðingar skulu teljast ómerkilegri en flugmenn og hermenn. Ef kvenleg líkamseinkenni, svosem brjóst og mitti eru sýnileg, þá er það klám. Hugðarefni kvenna eru lítillækkuð og sérkenni þeirra tengd við klámvæðinguna ógurlegu hvenær sem tækifæri gefst.

Veröld kvenna er, ekki af bara af bissnisskörlum, heldur ekki síður af feministum, talin mun ómerkilegri en veröld karla. Það viðhorf afhjúpast m.a. í geðbólgunni yfir hinum „klámvæddu“ leikföngum frá Legó. Í þrjá áratugi, hefur þetta sama fyrirtæki markaðssett leikföng fyrir drengi. Ekki minnist ég þess að nokkur hafi gert athugasemd við það.