Nánast daglega er ég spurð (oftast í netspjalli) hvernig sé að búa í Danmörku. Ég get í rauninni ekki svarað þessu þar sem ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort ég bý frekar í Danmörku eða úti á landi. Það má vel vera að lífið í Kaupmannahöfn sé öðruvísi en hér í hundsrassi. Ég er heldur ekkert vel inni í dönsku samfélagi, umgengst mest Íslendinga. Ef ég ætti að dæma Dani út frá konunum á elliheimilinu myndi ég segja að þeir væru óttalegir útnáraþumbar en ég hef nú ekki trú á að þröngsýnin sé allsstaðar á sama stigi.

Sá munur sem ég tek mest eftir er tvennt, annarsvegar að skrifræðið er hroðalegt, hinsvegar að þetta er að mörgu leyti eilítið mannúðlegra samfélag en hið íslenska. Og aftur, hugsanlega er það bara sveitamennskan. Hér er fólk einhvernveginn afslappaðra. Það er meiri ró yfir öllu, líka samkomum í barnaskólanum, fólk heilsast á götu og á miðvikudaginn fyrir jól var engin örtröð í búðunum. Allt getur þetta svosem skýrst af dreifbýlinu en eitt er það sem gerir danskt samfélag ögn mannúðlegra, sem sennilega á allsstaðar við; matur er ekki álítinn lúxusvara, ekki heldur í dreifbýlinu.

Hér í Bovrup er matvörubúð úr Spar keðjunni, sambærileg við hverfisbúðirnar ‘Þín verslun’ á Íslandi. Ég bjóst við að það yrði fokdýrt að kaupa í matinn hérna og það er vissulega hærra meðalverð hér en í stórmörkuðunum. Hinsvegar er vel hægt að fylla körfuna af tilboðsvörum og það eru mjög hagstæð kaup. Það eru nokkur mjólkursamlög hér í misháum verðflokkum en það er alltaf einhver gerð af nýmjólk eða léttmjólk á tilboði og lægsta verð hefur aldrei farið yfir 5 dkr lítrinn, þetta ár sem ég hef verið hér. Lægstu laun sem greidd eru í Danmörku eru 110 kr á tímann svo það er allavega hægt að fá töluvert meiri mjólk fyrir mánaðarlaunin hér. Alltaf er a.m.k. ein tegund af kjötáleggi á tilboði, ein af venjulegum brauðosti, ein af borðsmjörlíki eða smjöri, alltaf einhverjar pylsur, bollur eða annað unnið kjöt, alltaf einhverjar pizzur, einhver tegund af frosnum smábrauðum, o.s.frv. Yfirleitt er tilboð á t.d. 10 banönum og 10 eplum og þá er velkomið að taka 5 af hvoru. Eins ef er tilboð á tveimur kexpökkum, þá má maður alveg taka einn af hvorri gerð fremur en tvo eins.

Úrvalið á tilboðsvörum er svo mikið og afslátturinn hverju sinni svo góður að ég skil í rauninni ekki í því að búðin skuli bera sig. Hver kaupir eiginlega skinkupakka á 27 kr, þegar önnur gerð af skinku er á 13,50? Og hver kaupir jarðaberjajógúrt þegar bananajógúrt frá sama fyrirtæki fæst á hálfvirði? Einhverjir hljóta að gera það en stefnan er allavega sú að láglaunafólk eigi að geta keypt í matinn.

Merkilegt annars. Eftir að bókin mín kom út, hafa þó nokkuð margir spurt mig hvort mér finnist í alvöru eitthvað eðlilegt við það að fólk borgi fyrir kynlíf. Enginn hefur hinsvegar nokkru sinni spurt mig hvort mér finnist eðlilegt að fólk þurfi að borga fyrir mat.