Við höfum vanist því að nota svo mörg falleg lög sem jólalög, sem er hið besta mál en gallinn er sá að textarnir sem eru notaðir við þau eru sálmar. Allt eitthvað um engla og himnaföður. Ég lýsi mig hér með reiðubúna til að taka að mér að skrifa veraldlegri kvæði við lög eins og t.d. Í dag er glatt í döprum hjörtum, Líður að tíðum, Það aldin út er sprungið o.fl. um leið og nýyrðasmiðir eru búnir að útvega mér fleiri rímorð. Ég er satt að segja búin að fá alveg nóg af ást og þjást.

Íslenskuna vantar t.d. orð sem ríma á móti elska, tungl, fífl og rassgat.
Ekki svo að skilja að ég vilji endilega nota orð eins og fífl og rassgat í jólakveðskap en þetta eru svona dæmi.

Jújú, þú getur látið rassgat ríma á móti hassfat segir sonur minn Byltingin. Það yrði nú aldeilis jólaveisla.