Ætla þau að sætta sig við svarleysið?

 

Í dag eru 5 mánuðir frá því að fréttist að Haukur, sonur minn, væri talinn af eftir loftárás Tyrkja á Afrínhérað í Sýrlandi. Við vitum ekki hvar líkið er. En Tyrknesk stjórnvöld vita það.

Tyrkneska lögreglan (helsti ráðgjafi Utanríkisráðuneytisins í leitinni að syni mínum) staðfesti það við íslensku lögregluna í maí að Haukur væri dáinn og nú hefur Utanríkisráðuneytið einnig fengið það staðfest frá tyrkneskum stjórnvöldum. Ekki reyndar beint, heldur með kjaftasöguaðferðinni, sem á fínimannamáli er kölluð „diplómatískir kanalar“. Slíkir kanalar virka nokkurnveginn þannig að í stað þess að ráðuneytið hafi bein samskipti við þá sem geta gefið upplýsingar er haft samband við einhvern ræðismann Íslands í útlöndum og hann beðinn að heyra svona aðeins ofan í vini sína. Hann spyr einhvern kall í einhverju tyrknesku sendiráði einhversstaðar, sem gefur sig á tal við gamlan skólabróður sinn á Lionsufndi. Sá spyr svo annan kall í einhverri stjórnsýslustofnun í Tyrklandi. Þessi aðferð er notuð til þess að tryggja að tyrknesk stjórnvöld fái örugglega ekki þá grillu í höfuðið að Guðlaugur Þór sé eitthvað pirraður á þeim, því til þess að skipakaup gangi greiðlega fyrir sig er nauðsynlegt að þeir sem drepa íslenska ríkisborgara og þeir sem eiga að gæta hagsmuna íslenskra ríkisborgara gagnvart drápurum þeirra séu góðir vinir.

Það er samt eitthvað í þessu með nauðsyn „diplómatískra kanala“ sem stemmir ekki. Þessi mynd er tekin af vef EFTA. EFTA ríkin gerðu víðtækan viðskiptasamning við Tyrki í sumar og hann var undirritaður á Skagfirska efnahagssvæðinu þann 25. júní. Mogginn hélt því fram að Guðlaugur hefði rætt mál Hauks við efnahagsmálaráðherrann fyrir fundinn. Þetta er ekki í fyrsta eða annað sinn sem íslenskir ráðamenn eru sagðir hafa tekið mál Hauks upp við tyrkneska ráðamenn. Það er semsagt alveg hægt að ræða málin milliliðalaust. En hvernig hafa íslenskir ráðherrar eiginlega orðað erindið? Hvernig hefur þeirri málaleitan verið fylgt eftir og hversvegna í fjáranum er ekkert komið út úr þessu enn? Og  hversvegna fæ ég ekki upplýsingar um þau samskipti sem ráðuneytið hefur átt vegna þessa máls, eins og ég hef margsinnis farið fram á?

Þessi mynd er tekin á fundi NATO ríkja í sumar. Ég veit ekkert hvar hún var fyrst birt. Katrín notaði ekki tækifærið til að spyrja Erdoğan út í meðferð ríkisstjórnar hans á líkum fallinna í Afrín. Ekki hefur heldur frést að hún hafi spurt Merkel hvernig hún hafi fylgt eftir loforðum sínum um aðstoð við leitina að Hauki. Ég hef reyndar velt því fyrir mér hvernig íslensk stjórnvöld fylgdu erindinu eftir. Fengu Þjóðverjar einhverjar upplýsingar um málið eða var þetta bara venjulegt froðusnakk sem aldrei stóð til að fylgja eftir á nokkurn hátt? Ég fæ ekki upplýsingar um það frekar en annað.

Kjaftasögu- og froðusnakksaðferðin hefur semsagt skilað því á fimm mánuðum að Tyrkir segja „jú, hann er dauður“ en ekki orð um það meir. Lögreglan segir mér að nánari fyrirspurnum hafi einfaldlega ekki verið svarað. Fyrst snatar Erdoğans vita fyrir víst að hersveitir þeirra drápu Hauk, þá vita þau einnig hvað varð um líkið. Hversvegna segja þau ekki frá því? Hafa þau eitthvað að fela?

Eins og ég útskýrði rækilega í bréfi til Forsætisráðuneytisins og Utanríkisráðuneytisins þann 4. júní sl. ber Tyrkjum samkvæmt alþjóðalögum að veita upplýsingar um afdrif þeirra sem þau drepa í stríði. Íslenska ríkið á ótvíræðan rétt á þeim upplýsingum og ég og aðrir aðstandendur líka. Nú þegar Utanríkisráðuneytir hefur fengið það staðfest eftir leiðum sem stjórnvöld telja áreiðanlegar að tyrknesk stjórnvöld fullyrði að hann sé látinn, hvað ætla þau þá að gera til þess að framfylgja rétti mínum, og ríkisins, til þess að fá á hreint hvernig hann dó og hvenær og hvar líkamsleifar hans eru niðurkomnar?

Ætlar Katrín Jakobsdóttir að útskýra fyrir Erdoğan að næsta skref sé fara með málið fyrir tyrkneska dómstóla? Auðvitað hefði það ekkert upp á sig þar sem hann stjórnar dómstólum en það væri þá hægt að fara fyrir Mannréttindadómstól Evrópu eftir það.
Ætlar Guðlaugur Þór að biðja NATO að knýja á um svör?
Eða ætla þau bara að sætta sig við að fá engin svör til þess að Guðlaugur geti gert fleiri viðskiptasamninga við einveldisríki Erdoğans og Katrín mætt í fleiri snobbveislur með Erdoğan án þess að eiga á hættu að hann verði þurr á manninn?

Góðra vina fundur

Mér finnst þessi mynd svo táknræn. Katrín Jakobsdóttir í snertifæri við bæði Theresu May og Erdoğan. Stendur á milli þeirra, nógu nálægt þeim til að leggja hönd á öxl hvors um sig og segja; „má ég eiga við ykkur orð?“ Hún sagðist ætla að fylgja eftir fyrirspurnum íslenskra stjórnvalda ef tækifæri gæfist til. Hvernig gefast slík tækifæri? Gefast þau ekki einmitt þegar maður stendur við hlið þess sem maður vill tala við? Ætli hún hafi notað þetta tækifæri? Mér hefur þá að minnsta kosti ekki verið skýrt frá því.

Átta vikum fyrir þennan fund sendu foreldrar Hauks Hilmarssonar og Önnu Campbell sameiginlegt bréf til Katrínar Jakobsdóttur og Theresu May, þar sem farið var fram á að þær beittu sér fyrir því að ríkisstjórnir þeirra krefðu Tyrki svara um meðferð líkamsleifa þeirra sem Tyrkir drápu i innrás sinni í Afrín fyrr á árinu. Katrín hefur ekki brugðist við því bréfi á nokkurn hátt. Dirk Campbell fékk svar sem ritað var fyrir hönd Theresu May með vilyrði um að leitað yrði að líki Önnu ef hann gæti gefið upp staðsetningu. Þess má geta að staðsetning á því svæði sem Haukur var á þegar hans var saknað hefur legið fyrir frá 7. mars og var lögreglunni gerð grein fyrir því þann 8. mars þegar systir mín sendi þeim lögreglumanni sem þá stjórnaði rannsókninni allar þær upplýsingar sem fjölskyldan hafði aflað. Það eru varla meira en 3, í allra mesta lagi 4 ferkílómetrar sem koma til greina, nema líkið hafi verið fært.

Nú hittast þau á fundi NATO ríkja, öll þrjú. Katrín og Theresa fengu þar með tækifæri til að tala milliliðalaust við – ekki bara valdamesta mann Tyrklands, heldur einræðisherra. Ef þær teldu örlög ríkisborgara sinna koma sér eitthvað við hefðu þær talað saman fyrir fundinn og reynt að fá sameiginlegan fund með einvaldinum. Þær hefðu getað minnt hann á að samkvæmt alþjóðalögum ber að gefa breskum og íslenskum stjórnvöldum upplýsingar um meðferð tyrkneska ríkisins á líkum ríkisborgara þeirra. Það er ekki útilokað að þær hafi gert það en ekkert er fram komið sem bendir til þess.

Ég verð að játa að þrátt fyrir óánægju mína hef ég ákveðinn skilning á því að Katrín skuli ekki hafa rætt þetta mál við Erdoğan. Íslensk stjórnvöld hafa nefnilega ekki enn spurt Tyrki hvað þeir hafi gert við líkin og það yrði hálf neyðarlegt að biðja bandamann um að reka á eftir svörum við spurningum sem aldrei hafa verið bornar fram.

Eins og við séum að tala um sorphirðu

Benjamin Julian tók myndina

Þrír mánuðir. Þrettán vikur. Síðustu 92 morgna hef ég vaknað við drauma um leitina að Hauki. Mig dreymir engin samskipti við hann lengur, enga tölvupósta frá honum, heldur árangurslaus samtöl við yfirvöld, sundurtætta búka, leitarflokk í sprengjugíg,  fréttir af líkfundi, tölvupóst frá Rauða krossinum, hræætur að éta lík, nýjar yfirlýsingar frá þessari sem heldur því fram að yfirvaldið sé að gera allt sem mögulegt er til að afla upplýsinga en hundsar ábendingar um að líklegast sé að líkið liggi enn á víðavangi. Ef hann er þá látinn … Halda áfram að lesa

Alþjóðadómstóll telur Erdoğan ábyrgan fyrir stríðsglæpum


Í gær komst alþjóðadómstóll í málefnum Tyrkja og Kúrda að þeirri niðurstöðu að Erdoğan, þjóhöfðingi Tyrkja, bæri beina ábyrgð á stríðsglæpum tyrkneska ríkisins gagnvart Kúrdum á undangengum árum. Dómurinn mælir meðal annars með því „neyðarástandi“ verði aflétt en í skjóli þess hafa Tyrkir áskilið sér rétt til að sniðganga ýmis ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Réttarríkið verði endurreist í Tyrklandi, blaðamönnum og fræðimönnum sleppt úr haldi og fjölmiðlafrelsi endurvakið. Ennfremur að Tyrkir kalli herdeildir sínar frá Afrín og að stríðsglæpir verði rannsakaðir í Tyrklandi og sekum refsað fyrir stríðsglæpi. Halda áfram að lesa

Yfirlýsing Íslands vegna árásanna á Sýrland er fundin!

Vera má að hernaðarbandlög séu nauðsynlegt (en ekki nægjanlegt) skilyrði þess að fyrirbyggja átök og stöðva grimmdarverk. Nú skulum við gefa okkur það í smástund og sömuleiðis að aðild Íslands að NATO eigi rétt á sér. Margt bendir til þess að ógnarstjórn Assads Sýrlandsforseta hafi, með fulltingi Rússa, beitt efnavopnum í Douma nú á dögunum. Slíkt á aldrei að líðast en þar sem Öryggsráð Sameinuðu þjóðanna þjónar ekki heimsfriði heldur hagsmunum fimm stórvelda er ekki hægt að ná samstöðu um refsiaðgerðir eða nokkrar þær aðgerðir sem gætu dregið úr hættunni á eiturefnahernaði. Og þegar alþjóðastofanir bregðast kann að vera réttlætanlegt að fara fram hjá alþjóðalögum. Lög á aldrei að setja ofar mannúðarsjónarmiðum. Halda áfram að lesa

Almenningur hefur áhrif

Ein af fjölmörgum árásum Tyrkja á Afrín. Myndin er héðan.

Macron Frakklandsforseti hefur boðið fram aðstoð sína við sáttamiðlun milli Tyrkja og Kúrda. Samkvæmt fréttastofu Reuters eru þetta viðbrögð hans við þrýstingi heima fyrir. Þrýstingur þarf ekki bara að koma frá stjórnmálamönnum og mannréttindahreyingum, það skiptir líka máli að hinn almenni borgari komi skoðunum sínum á framfæri við stjórnvöld. Halda áfram að lesa