Heilindaramminn

Eitt af fyrstu embættisverkum Katrínar Jakobsdóttur sem forsætisráðherra var að skipa starfshóp sem ætlað var að finna leiðir til auka traust á stjórnmálum og stjórnsýslu á Íslandi. Ég hefði reyndar getað sagt Katrínu, án þess að taka krónu fyrir það, að skilvirkasta leiðin til að auka tiltrú almennings á stjórnmálum og stjórnsýslu eru heiðarleiki og vönduð vinnubrögð. Stjórnsýslan þarf að fara að lögum og hætta að líta á stjórnsýslustofnanir sem einkafyrirtæki og stjórnmálamenn þurfa að vera sjálfum sér samkvæmir. Það kemur mér því ekkert sérstaklega á óvart að starfshópurinn telji nauðsynlegt að byggja á heilindahugtakinu.

Það vefst hinsvegar fyrir mér hvað átt er við með „heilindaramma“. Mun slíkur rammi ná utan um afstöðu stjórnmálakonu sem taldi samstarf Vinstri grænna við Sjálfstæðisflokkinn „óhugsandi“ ári áður en Vinstri græn leiddu Sjálfsstæðisflokkinn til valda og settist sjálf í ráðherrastól í þeirri ríkisstjórn?

Mun heilindaramminn ná utan um stefnu stjórnmálaflokks sem hefur það á stefnuskrá sinni að Ísland skuli standa utan hernaðarbandalaga en lætur svo helsta forsvarsmann sinn og forsætisráðherra komast upp með að taka þátt í yfirlýsingu NATO um fullan stuðning við geðþóttaákvörðun þriggja stórvelda um loftárásir á Sýrland?

Rúmast seta Panamaprins í stóli fjármálaráðherra innan heilindaramma ríkisstjórnar sem segir í stjórnarsáttmála sínum: „Áframhaldandi áhersla þarf að vera á alþjóðlegt samstarf gegn skattaundanskotum og skattsvikum þannig að Ísland skipi sér í fremstu röð ríkja sem berjast gegn skattaskjólum.“?

Þarf ekki frekar víðan heilindaramma til þess að rúma skoðanavingl stjórnmálamanns sem rétt fyrir kosningar taldi að veiðigjöld hefðu verið lækkuð allt of skarpt en tók svo að sér forystu í ríkisstjórn sem átta mánuðum síðar vildi enn meiri lækkun veiðigjalda?

Verður heilindaramminn nógu stór og skrautlegur til að bera innihaldið ofurliði? Eða nógu víður til að henta stjórnmálaflokki sem í orði er vinstri sinnaður en í reynd sammála Sjálfstæðisflokknum í öllum mikilvægustu málaflokkum?

Eða verður heilindaramminn kannski sniðinn utan um spegil svo stjórnmálamaðurinn geti alltaf séð sjálfan sig innan hans?

Kannski ætti forsætisráðherra og flokkssystkini hennar bara að skoða stefnuskrá sína og spyrja þeirrar einföldu spurningar hvort það sem þau eru nú að hugsa um að segja eða gera fellur að því ágæta plaggi. Stjórnmálamenn sem þurfa annan heilindaramma en almennt siðferði og sína eigin stefnu eru sennilega hæfari til annarra starfa en þeirra að taka ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar.