Opið bréf til forsætis- og utanríkisráðherra Íslands
varðandi mál Hauks Hilmarssonar
(Bréfið var sent ráðherrum nú í morgun. Hér er myndatextum bætt við)
Sæl Katrín og Guðlaugur
Á þessari slóð má sjá myndir sem sagðar eru sýna lík af almennum borgurum sem bandamenn ríkisstjórnar ykkar í NATO drápu í Afrín fyrr á þessu ári. Sá sem fyrst birti þær kveðst hafa fundið þær í síðustu viku á vefsíðu stuðningsmanna Erdoğans en að þær hafi nú verið fjarlægðar. Hann segir slíkar myndir stundum birtar til þess að senda út þau skilaboð að andstæðingarnir séu þess óverðugir að lík þeirra fái sómasamlega meðferð. Myndirnar styðja frásagnir heimamanna um ástandið á svæðinu – enn ekki búið að hreinsa upp – og í hlíðunum í kringum borgina liggja líkin fyrir hunda og manna fótum. Rauða krossinum var ekki hleypt inn á svæðið fyrr en í maí og þá aðeins til að hlúa að slösuðum og afhenda nauðsynjar. Nú hefur okkur borist til eyrna að verið sé að reyna að semja við Tyrki um að fá að leita að líkum. Það ætti þó að vera sjálfsagt mál, en ekki samningsatriði. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum ber aðilum að stríðsátökum að hirða lík og veita þeim viðeigandi meðferð tafarlaust, sbr. t.d. 15. gr. Genfarsamnings frá 1949 um bætta meðferð særðra og sjúkra hermanna. Er þvi vandséð annað en að hér séu bandamenn ykkar Tyrkir að brjóta gegn alþjóðasáttmálum um framferði í stríði.
Enn hefur ekki fengist staðfest að Haukur Hilmarsson sé látinn. Utanríkisráðuneytið hefur synjað okkur um gögn sem sýna fram á að tyrknesk yfirvöld hafi yfirhöfuð tjáð sig um málið. Við teljum meintar staðhæfingar tyrkneskra yfirvalda um að Haukur sé hvergi á skrá hjá þeim ekki neina sönnun þess að hann sé ekki í haldi Tyrkja, sem hafa verið harðlega gagnrýndir m.a. af Mannréttindadómstóli Evrópu, fyrir að láta fólk hverfa en ef Haukur er á annað borð látinn þá eiga aðstandendur hans heimtingu á því að líkið sé meðhöndlað í samræmi við alþjóðalög.
Samkvæmt okkar heimildamanni birtust þessar myndir á
vefsíðu stuðningsmanna Erdoğans fyrr í þessum mánuði
Svo virðist sem þessi mynd sýni sama lík og fyrsta myndin
en það hefur verið fært úr stað og hettan dregin niður
Samkvæmt upplýsingum frá Borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins neita tyrknesk stjórnvöld því að þau hafi lík Hauks undir höndum. Það stangast reyndar á við fréttir tyrkneskra fjölmiðla sem héldu því fram í marsmánuði að líkið yrði sent heim. Eins og ykkur mun kunnugt um hafa ráðuneyti ykkar synjað óskum fjölskyldu og vina Hauks um að leita skýringa á þeim fréttum. Starfsmenn ykkar skýla sér á bak við þau fráleitu rök að íslensk stjórnvöld hafi ekki rannsóknarheimildir í Tyrklandi, rétt eins og einföld fyrirspurn um efni fréttar eigi eitthvað skylt við lögreglurannsókn. Á sömu forsendum hafa starfsmenn ykkar neitað að spyrja tyrknesk stjórnvöld hvort búið sé að hirða lík af svæðinu. Sé það rétt sem tyrknesk stjórnvöld segja, að þau hafi lík Hauks ekki undir höndum, gæti verið að það sé í fjöldagröf eða undir rúst af eina mannvirkinu á svæðinu þar sem sagt er að hann hafi verið drepinn. Líklegast er þó, samkvæmt frásögnum íbúa Afrín og myndum sem nú eru í dreifingu á samfélagsmiðlum, að lík hans liggi á víðavangi, óvarið ágangi dýra.
Við höfum áður bent á að Tyrkir eru alræmdir fyrir þá ósvinnu að fleygja líkum andstæðinga sinna í fjöldagrafir án þess að gera nokkra tilraun til að bera kennsl á þau eða koma þeim í hendur ættingja. Það getur verið réttlætanleg neyðarráðstöfun að setja lík í fjöldagröf en það er ekki ásættanlegt að slík meðferð sé viðtekin venja. Nóg er um sannanir fyrir mun grófari meðferð Tyrkja á líkum og í sumum tilvikum engum vafa undirorpið að um hreina og klára stríðsglæpi er að ræða. Sem dæmi má nefna að til er myndskeið frá október 2015, sem sýnir hertrukk Tyrkja draga lík af kúrdískum borgara eftir götunni. Tyrknesk stjórnvöld héldu því í fyrstu fram að myndskeiðið væri falsað en sögðu síðar að meðferðin á líkinu hefði verið varúðarráðstöfun þar sem grunur hefði leikið á um að sprengja væri fest við líkið. Nýlegt myndband frá Afrín sýnir hermenn misþyrma líki kúrdískrar bardagakonu. Þar eru að verki FSA-liðar, sem ásamt liðsmönnum Islamska ríkisins herjuðu á Kúrda í Afrín í umboði Tyrkja á þeim tíma sem myndskeiðið var tekið. Þetta eru aðeins tvö dæmi um glæpi af þessu tagi sem eru á ábyrgð tyrkneskra stjórnvalda, mörg álíka eru auðfundin. Og nú koma fram þessar myndir af líkum sem hafa legið mánuðum saman á víðavangi í nágrenni þéttbýlis. Það er ekki aðeins vanvirðandi meðferð á líkum heldur einnig verulega ámælisvert af heilbrigðisástæðum, ekki síst í héraði þar sem aðgengi stríðshrjáðra íbúa að hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu er takmarkað.
Í nágrenni Afrín eru ræktarlönd, beitilönd og leiksvæði barna sem mörg hafa misst
vini og aðstandendur í árásum Tyrkja og bandamanna þeirra – Islamska ríkisins
Vísbendingar um að tyrknesk stjórnvöld meðhöndli lík þeirra sem hersveitir þeirra hafa drepið, þar með talið lík íslensks ríkisborgara (ef hann er þá látinn) sem hvert annað hundshræ, í trássi við alþjóðalög, hljóta að vekja athygli og hneykslan íslenskra stjórnvalda. Því spyrjum við:
- Ætlið þið enn að halda því fram að þið GETIÐ EKKI haft samband við tyrknesk stjórnvöld og spurt þau að minnsta kosti að því hvort þau hafi staðið við þá skyldu sína að hirða lík af svæðinu, og ef ekki, hversvegna þau telji sér stætt á því?
. - Hafið þið beitt ykkur gagnvart NATO, sem þið sem ríkisstjórn eruð hluti af, og krafist þess að bandalagið gangi hart að tyrkneskum yfirvöldum með kröfu um að þau sinni þeirri skyldu sinni að leita uppi öll lík á svæðinu og koma þeim til aðstandenda? Ef svo er, með hvaða hætti? Ef ekki, hvers vegna ekki?
. - Ef það er virkilega ætlun íslenskra stjórnvalda að krefja Tyrki ekki neinna svara um hugsanleg brot þeirra á alþjóðalögum í tengslum við mál Hauks Hilmarssonar – hvað þarf þá eiginlega til þess að ykkur finnist slík afskipti viðeigandi? Væri afstaða ykkar önnur ef faðir Hauks héti ekki Hilmar Bjarnason, heldur Bjarni Benediktsson eða ef móðir hans væri ekki pistlahöfundur heldur forsætisráðherra?
Með ósk um skjót svör og afdráttarlaus
Hilmar Bjarnason, Fatima Hossaini, Darri Hilmarsson og Eva Hauksdóttir