Hverjir eru sníkjudýr?

Hver grunnskólanemandi kostar ríkið 1.350.053 kr árlega. Eitthvað kostar rekstur leikskóla og framhaldsskóla líka. Fyrir nú utan heilbrigðisþjónustu, barnabætur og annan kostnað sem fellur á ríkið vegna barna og unglinga.

Kostnaður ríkisins við að framleiða einn skattgreiðanda er varla undir 20 milljónum. Samt geta heimskir smáborgarar emjað yfir því hvað sé dýrt að halda innflytjendum uppi af að dæmi eru um að innflytjendur þiggi bætur. Fyrir nú utan þá sem er meinað að vinna fyrir sér. Þeir eru jafnvel til sem tala um alla innflytjendur sem afætur og sníkjudýr, einnig þá sem eru í fullri vinnu því ef „þetta“ er ekki að ljúga út bætur þá er það bara að stela vinnu frá Íslendingum. Sannleikurinn er auðvitað sá að innflytjendur þurfa á vörum og þjónustu að halda eins og annað fólk og skapa því fleiri störf í öllum geirum atvinnulífsins, einnig hálaunastörf. Meirihluti  innflytjenda vinnur svo láglaunastörf sem erfitt er að manna með íslensku vinnuafli; nauðsynleg en lítils metin störf sem mörg skila hagvexti.

Þetta sama fólk og leyfir sér að tala um innflytjendur af slíkri vanvirðingu var búið að kosta ríkið tugi milljóna áður en það fór að leggja eitthvað til samfélagsins sjálft. Það er því öllu betur að sníkjudýrsstimplinum komið en innflytjendur. Sem betur fer eru fáir Íslendingar nógu hægri sinnaðir til að líka á grunnskólanám sem sníkjulíf en óskandi væri að jafn fáir sæju eftir þeim smáaurum sem þarf til að reka þjónustu við útlendinga sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn. Meiri ástæða væri til að tala um þá sem sníkjudýr sem sjálfir skammta sér laun úr vasa almennings enda sannaðist í bankahruninu að menn geta svo sannarlega valdið fjárhagslegum skaða í réttu hlutfalli við tekjur sínar.

2 thoughts on “Hverjir eru sníkjudýr?

Lokað er á athugasemdir.