Ekki kvenmannsverk

fórnarlambs

Arngrímur Vídalín er einn af mínum uppáhalds pennum. Í þessari grein er samt eitt sem kemur mér spánskt fyrir sjónir, þ.e. túlkun hans á hugtakinu fórnarlambsfeminismi.

Vitanlega eru þeir til sem nota þetta orð algerlega hugsunarlaust í þeim eina tilgangi að koma óorði á feminista, slengja því fram hvenær sem meiri athygli er beint að vandamálum kvenna en karla. Það er bjánaleg notkun því fórnarlamb er ekki sá sem hefur áhuga á sínum eigin hagsmunamálum, heldur sá sem hefur ekki raunhæft tækifæri til að brjótast undan ofbeldi og kúgun.

Til eru feministar virðast álíta að öll vandamál kvenna og öll ósanngirni í okkar garð sé úthugsað plott feðraveldisins til að halda okkur niðri, að konur séu í raun og sannleika í mjög erfiðri aðstöðu til að hafa áhrif á samfélagið og vinna að hugsjónum sínum og hagsmunum. Ég kalla fólk sem hefur tileinkað sér þetta viðhorf fórnarlambsfeminista.

Dæmi um fórnarlambsfeminisma er sú kenning að ástæðan fyrir því að konur tjá sig minna í fjölmiðlum en karlar sé sú að við höfum verra aðgengi að fjölmiðlum og að fjömiðlafólk leiti sjaldan álits kvenna.

Ef þetta væri rétt, hlytu konur að hafa ruðst út á hinn pólitíska ritvöll þegar fjölmiðlar fóru að bjóða upp á vistun vefbóka og grasrótarhreyfingar stofnuðu pólitísk vefrit. Staðreyndin er hinsvegar sú að konur eiga mjög lágt hlutfall þeirra skrifa um pólitík og samfélagsmál sem birt eru á opnum vefsvæðum. Við getum tekið Smugubloggið sem dæmi. Þar er hátt hlutfall kvenna skráð sem bloggarar, lítur afskaplega jafnréttislega út á yfirborðinu en hverjir eru það sem skrifa?

Á þeirri stundu sem þetta er ritað. lítur listinn svona út (ég tók tvær síður)

Arngrímur Vídalín (2 greinar)
Úlfar Þormóðsson (3 greinar)
Magnús Sveinn Helgason (5 greinar)
Kolbeinn Stefánsson (3 greinar)
Ingimar Karl Helgason (6 greinar)
Þráinn Bertelsson
Eiríkur Örn Norðdal (4 greinar)
Björn Valur Gíslason (4 greinar)
Ónafngreindur höfundur
Atli Thor Fanndal (2 greinar)
Drífa Snædal (3 greinar)
Hilmar Magnússon (3 greinar)
Edward Huibjens
Álfheiður Ingadóttir
Elías Jón
Arndís Soffía Sigurðardóttir

Fórnarlambsfeminismi er svo sannarlega til og hann hjálpar jafnréttisbaráttunni ekki neitt. Hann birtist t.a.m. í því viðhorfi að konur beri enga ábyrgð á þessum hlutföllum þeirra sem leggja eitthvað til samfélagsumræðunnar. Hann birtist í þeirri goðsögn að þátttökuleysi kvenna í stjórnmálum stafi af því að þeim sé markvisst haldið niðri. Hann fríar konur ábyrgð á afskiptaleysi sínu og býr þeim notaflegt fleti í hlutverki hins óvirka áhorfanda. Þolandans sem hefur bara enga möguleika á að láta til sín taka af því að feðraveldið er svo ógurlega yfirgangssamt. Hann birtist í því að í stað þess að láta til skarar skríða, ýta þær ábyrgðinni yfir á karlmenn, ef ekki með því að höfða til þess hvað þeir séu nú stórir, sterkir, ríkir og voldugir, þá bara með því að kalla þá Öðlinga.

Og kannski er rangt að kalla þetta fórnarlambsfeminisma. Kannski ættum við frekar að kalla það gargandi snilld, konur sem hafa lag á því að láta aðra um skítverk á borð við það að stjórna heiminum. Kannski eru þær þrátt fyrir allt engin fórnarlömb, heldur una því ágætlega að láta naglalakkið þorna á meðan karlarnir pikka á lyklaborðið. Kannski er það eitthvað svoleiðis sem er að gerast þegar jafnvel skrif um feminisma teljast ekki lengur kvenmannsverk.

One thought on “Ekki kvenmannsverk

  1. ———————————————

    Hvers vegna í ósköpunum er hann einn af uppáhalds? Tilgerðarlegur lúði með of stórt eftirnafn.

    Posted by: Tóti sjálfur | 19.08.2011 | 21:41:12

    ———————————————

    Þú ert alveg pottþétt búin að rekast á þessa hér, er það ekki?http://forrettindafeminismi.wordpress.com/

    Ég las einhvernveginn úr orðum Arngríms að hann væri að skrifa til hans/þeirra og líkra er varðar forréttindafemínismann, þeirra sem tjá sig í tuði.

    Posted by: Ingaló | 20.08.2011 | 11:43:40

    ———————————————

    „þeirra sem tjá sig í tuði“

    lol – þarna eru margar ágætar vangaveltur um femínismann (t.d. þessa einkennilegu Kynungabók) og þann hluta hans sem virðist ekki snúast um jafnrétti heldur hálfgerð forréttindi og skeytingarleysi um annað en kvenlæg sjónarmið.

    Margt í feminískri heimspeki er líka áhugavert að spá í, eins og t.d. þegar því er hafnað að um eðlismun sé að ræða milli kynjanna og gengið út frá félagslegri mótun eingöngu. Í þessa hluti er gaman að spá og kannski ágætt að opnað sé fyrir umræðu um að sumt sem gengið er út frá í femínisma sé hugsanlega rangt og þurfi að endurhugsa.

    En að kalla vefsíðu af þessu tagi tuð og væl eins og algengt er, er stórkostleg rörsýni. Hvað finnst konum um það þegar karlmenn kalla vangaveltur þeirra um blæbrigði í jafnréttismálum tuð og væl?

    Það er nú það 😉

    Posted by: Kristinn | 20.08.2011 | 12:04:46

    ———————————————

    Æ Tóti geysp. Ég nenni ekki einu sinni að svara þessu og ég er manneskja sem legg það á geðheilbrigði mitt að svara þjóðernissinnum.

    Posted by: Eva | 20.08.2011 | 12:23:21

    ———————————————

    Jú Ingaló, ég þekki þetta blogg. Mér finnst bæði ömurlegt að sumir skuli vera svo rosalega uppteknir af því að hnýta í feminista að þeir sjái ekki þörfina á því að uppræta misrétti og álíka ömurlegt að viðurkenna ekki þörfina fyrir að skoða líka hvar hallar á karla. Það er t.d. langt gengið þegar fólki tekst að túlka kynjahlutföll meðal fanga sem misrétti gagnvart konum fremur en körlum en það er nú einmitt eitt dæmið um fórnarlambsfeminismann.http://www.norn.is/sapuopera/2011/06/fornarlambsfeminisminn_gengur.html

    Posted by: Eva | 20.08.2011 | 12:40:53

    ———————————————

    Kristinn, þú hlýtur nú að hafa fylgst nógu vel með til að átta þig á því að tuð og væl eru einmitt orð sem oft eru notuð um orðræðu feminista. Sennilega eru hugmyndir feminista þó oftar flokkaðar sem frekja og jafvel feminasismi. Ég skil að menn skuli nota það orð um þessar 3 konur í heiminum sem helst vilja útrýma körlum (ef nokkur slík kona er þá til) en það er jafn ömurlegt að heyra það notað um konur sjá ekki húmorinn í kynferðisobeldi og eiginkvennabarsmíðum.

    Posted by: Eva | 20.08.2011 | 12:46:54

    ———————————————

    Kristinn. Ég talaði hvorki um að karlmenn tuðuðu almennt, né sagðist ég aðhyllast femínisma eða tala fyrir hönd kvenna. Þú skokkaðir þarna eilítið upp á nef þér því það er barasta takmarkað hægt að rökræða þessa skoðun mína.

    Mér þykir nefnilega þessi/r sem þarna skrifa tuða ógurlega mikið. Og mér þykir vera ógurlega mikið um tuð í þessari umræðu almennt, á báða bóga. Tuðið finnst mér birtast í því *hvernig* fólk kemur hlutunum frá sér, ekki *hvaða* hluti það stendur fyrir. Ég kalla þetta tuð því ég þoli ekki þessar hnýtingar, stæla og neikvæðni og tóninn sem hljómar í hausnum á manni eins og sá sem skrifar vilji bara eiga seinasta orðið.

    Það er því lítið hægt að tuða yfir þessari skoðun minni en þú mátt gjarnan kalla hana tuð, ég lofa að ég verð ekki sár.

    Posted by: Ingaló | 20.08.2011 | 12:50:36

    ———————————————

    Eva

    Jú ég er einmitt vel meðvitaður um að orðin tuð og væl eru mikið notuð um kvenréttindamál og einmitt þess vegna dettur mér í hug að konur ættu að bera skynbragð á að það sé óheppilegt orðaval.

    Ég fæ ekki séð að þessi vefsíða fjalli um að femínismi sé óþarfur, heldur aðeins um það að stundum sé hann á villugötum og það þurfi hugsanlega að fara að ræða þá hluti, svo þarna er hugsnalega bara um ágætt innslag í umræðuna að ræða.

    Posted by: Kristinn | 20.08.2011 | 13:15:05

    ———————————————

    Ingaló

    Ég sagði þig ekki vera að tala um karlmenn almennt, né fullyrti ég að þú værir að tala fyrir hönd femínista. Hvort okkar er að skokka upp á nef sér? 🙂

    Ég sagði einfaldlega að það sé dálítið merkilegt af konu að kalla þetta tuð, þegar hún hlýtur sjálf að vera meðvituð um að mörgum konum gremst það að áhyggjur þeirra af misrétti eru gjarnan kallaðar tuð.

    Fórnarlambs og forrétindafemínisminn má etv. vel við gagnrýni sem þeirri sem fram kemur á umræddri vefsíðu, en þér er þó að sjaĺfsögðu velkomið að kalla slíkt tuð og taka með því þátt í að ala á hefð fyrir því að forðast gagnrýna umræðu um feminíska hugmyndafræði.

    mbk,

    Posted by: Kristinn | 20.08.2011 | 13:25:05

    ———————————————

    Kristinn, ég hef ekki mikinn áhuga á svona samræðum, svona plokki í orðnotkun eða orðaforða eða einstaka hluta málsins úr samhengi. Ég held að það sé einfaldlega ekki mikið upp úr því að hafa og hægt að ræða hlutina á einlægari grundvelli.

    Ég er þó búin að útskýra notkun mína á orðinu tuð, tók sumsé hluta gagnrýni þinnar til mín. Stundum kemur nefnilega upp svona misskilningur um orðaval og þá er um að gera að laga það. Samviska mín er nú ágæt hvað þessa orðnotkun varðar.

    Varðandi skokkið var málið nú bara þannig að ástæða mín fyrir notkun orðsins „tuð“ var ekki sú sem þú hélst í fyrstu og þótti mér þú gera mér upp skoðanir með svari þínu, falla í „konur gegn körlum“ gryfjuna sem ég vil forðast. Ef þér finnst ég vera að plokka í þín orð án þess að skilja útgangspunktinn þá ertu að misskilja mig því ég skil þitt sjónarhorn ágætlega, það átti einfaldlega ekki við í þessu tilfelli.

    Bestu kveðjur
    Ingaló

    Posted by: Ingaló | 20.08.2011 | 14:20:39

    ———————————————

    Ingaló

    Það er bara gaman að heyra að þú forðist gjarnan „konur gegn körlum“ gryfjuna og ef þú ert viðlíka gjörn á að kalla vangaveltur femínista og karla um jafnrettismál tuð, er að sjálfsögðu ekki um rörsýni að ræða hjá þér og það því dálítið hranaleg yfirlýsing hjá mér. Ég biðst velvirðingar á því innskoti.

    Posted by: Kristinn | 20.08.2011 | 14:48:37

    ———————————————

    Þetta þykir mér áhugaverð umræða (læt kommentin vera). En það er rétt hjá Ingaló að ég var að hnýta í nefnda síðu um „forréttindafemínisma“.

    Posted by: Arngrímur Vídalín | 21.08.2011 | 21:17:38

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.