Mig langar ekkert að búa á Íslandi. Sé bara því miður ekki neina aðra lausn. Hugmyndin er náttúrulega sú að verða mér úti um smá pening svo ég komist eitthvert annað og það væri kannski raunhæft ef ég sæi fram á að fá vinnu sem gefur meira en 200.000 á mánuði en ég er ansi hrædd um að ég sé bara að skrá mig í þrældóm með því að fara þangað. Og verð svo á vergangi í þokkabót. Fólk engist þegar ég segi orðið en við skulum bara horfast í augu við hlutina eins og þeir eru, það bætir stöðuna ekki rassgat að orða það þannig að ég búi tímabundið hjá vinafólki.
Það versta er að ég neyðist til að koma kisunum mínum fyrir og þar sem allir sem ég þekki hér eru með hunda, þá er ekki um annað að ræða en að koma þeim til vandalausra. Sem merkir líka að það eru sáralitlar líkur á því að ég sjái þær nokkru sinni framar. Ef ég finn þá heimili sem vill þær báðar. Norna er ekki allra og ég sé ekki fyrir mér að hún þrífist án Önju.
Það hryggir mig mjög mikið. Það er auðveldara að skilja við manneskjur því maður getur alltaf haldið einhverskonar sambandi við þær.
Mér finnst þetta svo andstyggileg staða. Ég á ferðapassa fyrir þær og get farið með þær hvert sem er innan Evrópu nema til Íslands. Ekki nema með því að setja þær i þriggja mánaða einangrun. Hvílík dýraverndarlög. Og ekki hef ég sjálf áhuga á að vera þar en ég fer ekkert annað peningalaus, allavega ekki með tvo ketti með mér.
Og svo er Evrópa að hrynja þannig að maður veit svosem ekkert hvort verður yfirhöfuð hægt að komast eitthvert annað.
Ég var 3 vikur á Íslandi og árangurinn af ferðinni er enginn. Komin hingað aftur til að pakka niður og fara aftur á klakann. Til að rústa lífi mínu án þess að sjá fram á neitt, ekki einu sinni neitt verra, bara algera óvissu.
Og nei Stefán, mig langar ekki að arga. Mig langar bara til að gefast upp.