Einu sinni fyrir löngu fékk ég stein í framrúðuna á bílnum. Fyrst kom hvellur og ég áttaði mig ekki á því hvað var að gerast. Svo sá ég lítið gat, og sprungu út frá því breiðast hægt yfir rúðuna. Ég vissi að ég gæti ekkert gert til að stöðva sprunguna, en ég stöðvaði bílinn.
Ég horfði á sprunguna kvíslast í ótal minni sprungur út frá gatinu í miðri rúðunni og þær líktust helst kóngulóarvef. Vefurinn þéttist stöðugt og ég beið eftir því að brotin hryndu yfir mig. Mér fannst rökrétt að fara út úr bílnum en ég sat kyrr og horfði á hana springa þar til ég sá ekki lengur út, ég hef aldrei getað útskýrt hvers vegna.
Þegar ég loksins kom mér út úr bílnum, potaði ég aðeins í rúðuna utan frá. Þá hrundu brotin inn í bílinn, örsmá. Sum þeirra fóru niður í miðstöðina og skröltu þar næstu vikur. En enginn skar sig.