Fyrsta atrenna

Í dag komst ég að því hvar einhleypir karlar halda sig ekki uppúr hádegi á sunnudögum. Allt fullt af konum og fáeinir karlar í fylgd kvenna, hvergi tveir strákar saman.

Einn sat reyndar úti í horni. Huggulegur með lappa, enganveginn mín týpa en ég er nú einmitt að leita að manni sem höfðar ekki til mín svo ég prófaði. Hann var gjörsamlega límdur við skjáinn og ég náði ekki augnsambandi. Reyndar verð ég að viðurkenna að það kann að hafa spilað inn í að annar maður og áhugaverðari fangaði athygli mína. Lítil, úfin lopapeysa, snaggaraleg með brún augu settist við næsta borð. Ég setti upp hæ-sæti-svipinn og uppskar geislandi bros. Ef kærastan hans hefði ekki birst með kaffibakkann, væri ég sennilega búin að gefa skít í áform mín um að kynnast einhverjum sem ég vil ekki.

Hálfri krossgátu síðar kom fylgdarlaus náttúrutöffari inn. Ég var ekki einu sinni búin að taka almennilega eftir honum þegar hann gekk til mín með lostafullu látbragði og ávarpaði mig með djúpri, kynþokkafullri rödd. Er þetta ekki Eva?

Ég var andartak að átta mig en hef það mannglöggvunarleysi mínu til varnar að hann var með sólgleraugu. Hann sat á Litla-Hrauni sumarið sem ég var fangavörður og á að baki langa afrekaskrá skreyttri misalvarlegum líkamsárásum, ölvunarakstri, dópdreifingu og fleiru arðvænlegu. Ég mundi skyndilega að ég hafði eiginlega ætlað á bókasafnið.

Á leið niður Laugaveginn ók ég fram á viðfang giftingaróra minna. Hann lét sem hann sæi mig ekki. Ef ég hefði ekki verið á bíl hefði ég hugsanlega náð typiskri dindilhosudillu áður en hann leit undan. Og þó. Mannkærleikur minn er umsáturstilhneigingunni yfirsterkari, þrátt fyrir allt.