Staðreynd

Ég hef saknað þín.
-Það þykir mér vænt um.
-Hvað var þetta? Kaldhæðni?
-Heldurðu?
-Æi, viltu ekki dylgja við mig. Ég skil ekki dylgjur.

-Reyndar skilurðu rósamál flestum betur og þar með dylgjur en ég skal tala hreint út ef þú vilt það frekar. Mér þykir vænt um að þú skulir sakna mín. Mér þykir vænt um að þú skulir alltaf koma þegar ég þarf á aðstoð að halda. Þú eyddir hálfum laugardeginum í að hanga yfir mér uppi á bráðamóttöku, mér þótti vænt um það. Þú skilur hugmyndir mínar um hið táknræna samhengi hlutanna, mér þykir vænt um það. Mér þykir vænt þig og allt sem þú stendur fyrir og allt sem þú gerir fyrir mig en ég þarf meira. Í augnablikinu þarf ég t.d. einhvern sem getur sofið hjá mér og vel að merkja, mig vantar ekki leyndarmál.

Hann þagði lengi. Sagði svo:
-Er ekki eitthvað að samfélagi sem ætlast til að maður elski báða foreldra sína og stjúpforeldra, öll systkini sín, öll börnin sín en aðeins eina konu?

Jú, líklega er eitthvað að því samfélagi. Áreiðanlega fullt. Mér þykir í alvörunni vænt um að þú skulir sakna mín en það ristir ekki nógu djúpt til að þú takir af skarið. Það er staðreynd. Hvort sem þú pakkar henni inn í dylgjur eða berð hana fram hráa og án meðlætis er það fremur kaldhæðnisleg staðreynd.