Við viljum bara engar öfgar

Undanfarið hef ég velt fyrir mér skilningi múgans á orðinu „öfgamaður“. Ég hef hvergi rekist á neina almennilega skilgreiningu á fyrirbærinu, það virðist bara háð mati þess sem talar hverju sinni. E.t.v. mætti skilgreina öfgar á sama hátt og klám; „eitthvað sem á ekki rétt á sér af því að það ofbýður MÉR, núna, við þessar aðstæður“.

Það er gaman að fylgjast með netumræðu landans um öfgamenn þessa dagana en auk þess hef ég síðustu vikur spjallað við nokkuð marga um pólitík og það er ekki síður athyglisvert. Mér sýnist algengt að hugmyndir manna um hófsemi og öfgar séu á þessa leið:

Hófsamur stóriðjusinni: Sá sem telur allt í lagi að eyðileggja 57 ferkílómetra af grónu landi og raska þar með vistkerfinu, svipta fugla varpsvæði sínu, rugla hreindýr í rýminu og ganga þvert gegn fjölþjóðlegum ályktunum um verndun votlendis.

Öfgasinnaður umhverfissinni: Sá sem telur allt í lagi að hindra þetta ætlunarverk með því að þvælast fyrir vinnuvélum eða jafnvel skemma þær.

Hófsamur stóriðjusinni: Sá sem álítur arðvænlegt, gott og eðlilegt að álver rísi í hverju krummaskuði á landinu.

Öfgasinnaður umhverfissinni: Sá sem gerir sig sekan um að klæðast eins og trúður og hafa í frammi fíflagang til að vekja athygli almennings á langtímaafleiðingum stóriðju fyrir efnahag og náttúru.

Hófsamur stjórnmálaflokkur: Sá sem telur eðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur haldi raforkuverði til stórfyrirtækja leyndu fyrir eigendum sínum.

Öfgasinnaður stjórnmálaflokkur: Sá sem hefur á að skipa fólki sem maldar ekki bara í móinn heldur setur upp snúð og gengur út af fundi „til að reyna að gera borgarbúa vitlausa“, eins og vinkona mín komst að orði.

Hófsamur neytandi: Sá sem ver umtalsverðum hluta tekna sinna til kaupa á vörum sem eru sjaldan eða aldrei notaðar, verslar til að bæta andlega líðan sína, setur sig í skuldir til að halda í lífstíl sem hann hefur ekki efni á og beinir viðskiptum sínum til stórfyrirtækja sem halda heilu þjóðunum í heljargreipum fátæktar.

Öfgasinnaður hnattvæðingarandstæðingur: Sá sem setur á svið gjörning í verslunarmiðstöð til að vekja athygli almennings á því sjónarmiði að við séum orðin þrælar neyslumenningarinnar og að með henni styðjum við fyrirtæki sem koma ósiðlega fram.

Mér finnst þetta voða skrýtin viðhorf. Mér finnst margt skrýtið sem öðrum finnst rökrétt. Samt veit ég að ég hugsa ekki alltaf mjög rökrétt. Um daginn sagði kona sem hringdi í útvarpið t.d. að þessir umhverfissinnar hegðuðu sér eins og hommar. Það er á slíkum augnablikum sem rökhugsun mín verður fyrir einhverskonar skammhlaupi. Mér fannst þetta fyndið.

Share to Facebook

One thought on “Við viljum bara engar öfgar

  1. ———————

    Öfgatrúleysingjar og hófsamir trúmenn!

    Posted by: Matti | 24.07.2007 | 12:35:07

    —   —   —

    Takk Matti, einmitt dæmi um viðhorf sem á vel heima í þessari upptalningu.

    Posted by: Eva | 24.07.2007 | 13:54:47

    —   —   —

    Mér virðist öfgarnar frekar ganga út á mismunandi lífssýn og þjóðfélagsgerð. Engar stóriðjuframkvæmdir og engin orkuver sem nota vatnsafl eða jafnvel gufuafl vegna sjónmengunar eða hvað eina. Ef ekkert slíkt væri til þá væri þjóðfélagið augljóslega ekki það þjóðfélag sem við búum við í dag. Þessi lífsýn finnst mér eins og þú nefnir fyrst og fremst snúast gegn hinu svokallaða neyslu-þjóðfélagi en slíkt þjóðfélag hefur mjög ríka orkuþörf. Væri þá ekki ráð frekar að fræða okkur hin um hvernig það þjóðfélag mundi virka og líta út sem hefði ekki slíka orkuþörf ?

    Posted by: Guðjón Viðar | 24.07.2007 | 16:53:48

    —   —   —

    Ég hef hitt marga aktivista en engan sem er á móti raforkuframleiðslu sem slíkri. Þau eru hinsvegar á móti því að náttúruperlum sé drekkt og vistkerfinu stefnt í voða í þágu stórfyrirtækja sem bæði menga umhverfið (ekki bara sjónrænt) og hegða sér ósiðlega að mörgu öðru leyti líka. Við höfum enga þörf fyrir fleiri álver á Íslandi.

    Þú spyrð hvernig samfélagið liti út ef það hafði ekki slíka orkuþörf. Íslenskt samfélag væri þá án álvera. Ég sé nú reyndar ekki að það út af fyrir sig myndi breyta samfélaginu mikið en náttúrúran væri þá ekki eins mikilli hættu. Ef hinsvegar almenningur vaknaði auk þess til meðvitundar um skaðann sem mörg stórfyrirtæki valda fátækum samfélögum og drægi dálítið úr þessari gengdarlausu neyslu, hefði það líklega þau áhrif að fólk gæti safnað peningum í stað skulda.

    Ég geri mér grein fyrir því að sumir, einkum þeir sem hagnast á rekstri stórfyrirtækja, telja að það yrði mikil afturför ef stór hluti almennings yrði fjárhagslega sjálfstæður.

    Eitt enn sem tengist hugmyndafræði Saving Iceland; ál er mikilvægt hráefni í hergagnaframleiðslu og það er enn ein ástæðan fyrir því að fleiri álver eru til óþurftar. Þau sem þegar eru rekin duga alveg til að framleiða allt það ál sem er nauðsynlegt og miklu meira.

    Posted by: Eva | 24.07.2007 | 17:20:50

    —   —   —

    Nei, mig grunar að þessir ágætu „aktívístar“ séu ekki á móti raforku sem slíkri en bara öllum þekktum aðferðum til að framleiða hana. Eða hvað ?Hver er leyfileg aðferð ?

    Ég vill gjarna að álver geri sitt til að jafna þá mengun sem þau valda út frá þeirri skattlagningarreglu að sá greiði fyrir mengun sem veldur henni.

    Það að ál sé notað í hergagnaframleiðslu eru nú fremur aum rök. Ál og c.a milljón önnur efni eru notuð í hergagna-framleiðslu svo væri þá ekki einfaldara að mótmæla hergagnaframleiðslu hjá hergagnaframleiðendum ?

    Posted by: Guðjón Viðar | 24.07.2007 | 17:59:20

    —   —   —

    Ég hef ekki heyrt nokkurn mann lýsa yfir andstöðu við allar virkjanir. Það er bara nóg komið.

    Reyndar er líka fjöldi manns um allan heim sem mótmælir hergagnaframleiðslu, hjá hergagnaframleiðendum eins og t.d. Alcoa sem á 2 fyrirtæki sem framleiða vopn.

    Posted by: Eva | 24.07.2007 | 18:21:36

Lokað er á athugasemdir.