Þegar Vestmannaeyjapakkið lagðist á velferðarkerfið

Ég var á 6. ári þegar ég fann í fyrsta sinn til samúðar með ókunnugum. Fram að því höfðu ókunnugir verið einhverskonar grár massi sem kom manni ekki við en nú allt í einu var raunverulegur áhyggjusvipur á foreldrum mínum og ég settist í fyrsta sinn niður við fréttatíma sjónvarpsins. Ég man að ég hugsaði að ég hlyti að vera orðin mjög stór fyrst ég væri að horfa á fréttirnar en líklega hafa liðið nokkur ár þar til annað fréttaefni vakti áhuga minn. Það var ekki ég sem var stór, heldur voru þetta stórfréttir.

Móðir mín reyndi að útskýra hvað hafði gerst. Ég læt lesendum eftir að geta sér til um hvort samtalanna hér að neðan er skáldskapur.

Samtal 1
Barn: En hvar ætla þau þá að eiga heima fyrst húsin þeirra eru að brenna?
Móðir: Þau komu sér upp á fleka og eru að reyna að komast í land í Þorlákshöfn. Löggan er búin að senda fullt af fólki með prik til að reyna að berja þau frá landi.
Barn: Af hverju mega þau ekki koma í land?
Móðir: Elskan mín, þetta eru 5000 manns, hvað heldurðu að myndi gerast ef við hleyptum þeim öllum í land? Þau myndu leggjast upp á velferðarkerfið og heimta bætur. Við höfum ekkert efni á að taka einhverja vesalinga að okkur.
Barn: Já en mamma, þau eiga bágt, húsin þeirra eru að brenna.
Móðir: Það er ekki okkur að kenna, við getum ekkert tekið ábyrgð á því þótt annað fólk búi á hættulegum stöðum.
Barn: Deyja þau þá bara?
Móðir: Einhverjir hafa víst komist í land. Þeim verður bara stungið í fangelsi til að byrja með og svo verða þau send til baka.

Samtal 2
Barn: En hvar ætla þau þá að eiga heima fyrst húsin þeirra eru að brenna?
Móðir: Þau komu með bátum til lands í nótt og þar tóku björgunarsveitir á móti þeim. Mörg þeirra gista hjá vinum og ættingjum til að byrja með og svo verður þeim hjálpað að komast aftur heim eða eignast annað heimili ef húsin eru ónýt.
Barn: En ef þau eiga enga vini nema í Eyjum?
Móðir: Þá eignast þau vini elskan. Þá koma þau bara hingað til okkar og sofa í stofunni þangað til við getum hjálpað þeim að eignast nýtt heimili.
Barn: En þau eru svo mörg.
Móðir: Já og þessvegna þarf að taka eitthvað af peningunum sem allir borga skattinum til að sé hægt að hjálpa þeim öllum.

Allir vita hvernig fór. Eyjamenn voru ekki lamdir burt með prikum og sagt að fara í rass og rófu, heldur var þeim hjálpað. Þeir lögðust allir sem einn á velferðarkerfið, heimtuðu m.a.s. að reistur yrði fjöldi húsa bara þeirra vegna. Sumir stórgræddu á þessu eldgosi, svei mér þá. Það var náttúrulega engin leið að útvega öllu þessi fólki vinnu þannig að það fór bara á bætur, enda vildi það helst láta samfélagið halda sér uppi. Svo drakk það út bæturnar en eins og allir vita eru Eyjamenn mikið fyrir sopann, og heimtaði meira. Og vegna þessarar góðmennsku hrundi efnahagskerfið og þess vegna eru Íslendingar öreigar í dag og allt logandi í drykkjuskap og slagsmálum sem fylgdi þessu fólki og smitaði út frá sér.

Eða ekki.

Þegar okkars verða fyrir áföllum er það tragedía. Við hjálpum þeim að koma undir sig fótunum aftur, ekki af því að við séum göfug, heldur vegna þess að það er sjálfsagt. Vegna þess að mannhelgi merkir að mannslíf og rétturinn til að lifa við öryggi og reisn, verður ekki metin til fjár og þegar upp er staðið getur samhjálp af sér betra og sterkara samfélag.

En þegar „hinir“ verða fyrir áföllum er það óþægilegt bögg. Við losum okkur við þá og ef við réttum litla fingur til hjálpar erum við annað hvort göfugir „málsvarar réttlætisins“, „mannúðarsinnar“ og „baráttufólk“, eða þá „óraunsæir róttæklingar“ og „aumingjasleikjur sem vilja sóa almannafé í fólk sem kemur okkur ekki við“.

Við erum andskotinn hafi það fær um að finna til samúðar með ókunnugum frá 5 ára aldri. Það er ekki vandamál heldur metnaðarfullt verkefni að aðstoða hundruð fjölskyldna í smátíma og reisa viðlagasjóðshús í kjölfar náttúruhamfara. Þegar bláókunnugt fólk í Noregi verður fyrir áfalli, lýsir 5. hver Íslendingur yfir samúð sinni með því að nota norska fánann sem prófílmynd á smettinu.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að fólk sem finnur auðveldlega til samúðar með ókunnugum Vestmannaeyingum og ókunnugum Norðmönnum, álítur að vandamálið komi því ekki við þegar þeir hrelldu og þjáðu eru frá Afghanistan, Indlandi eða Máritaníu? Af hverju myndi það frekar setja velferðarkerfið á hausinn að koma löppunum undir 5000 flóttamenn frá útlöndum en 5000 Eyjamenn? Af hverju erum við sorgmædd, slegin og andvaka yfir 100 norskum ungmennum en kippum okkur ekki upp við fjöldaslátranir í Sómalíu, Lýbíu og Darfur?

Það væri sjálfsagt hægt að skrifa um það fleiri bækur en meðalmaðurinn kemst yfir að lesa á ævi sinni en stutta svarið er; kynþáttahyggja.

One thought on “Þegar Vestmannaeyjapakkið lagðist á velferðarkerfið

  1.  
    ———————————————

    Frábær pistill.

    Posted by: Margrét Sigurðardóttir | 25.07.2011 | 9:08:28

    ———————————————

    Ég vil segja, sem einhver sem setti norska fánann sem prófílmynd, en ekki hinn Afganska, né neinn af hinum hundruðum landanna sem hafa lent í hörmungum núverið, er að stundum þarf maður að „pick your battles“.

    Norðmenn eru eftir allt saman náskyld nágrannaþjóð, margir Íslendingar búa í Noregi og ég ætla að leyfa mér að segja að nokkurn veginn allir Íslendingar þekkja einhvern sem býr þar. Hins vegar þekkja Íslendingar harla fáa sem búa í, segjum, Afganistan. Það er ekki þar með sagt að okkur sé illa við Afgani, en þeir eru okkur ekki eins nærri.

    Að öðru leyti er ég sammála þér. Ísland á að leggja metnað sinn í að hjálpa bágstöddum. En mér finnst ekkert rangt eða óeðlilegt við það að atburðirnir í Noregi séu meira sláandi fyrir Íslendinga en það sem því miður (varla nógu sterkt) er daglegt brauð í mörgum öðrum löndum.

    Posted by: Kári Emil Helgason | 25.07.2011 | 15:00:48

    ———————————————

    Ég spurði mig að svipuðu fyrir tveimur dögum. Hversvegna fékk þessi atburður meira á mann en svipaður hryllingur í Bandaríkjunum eða Afganistan? Svarið kom ekki strax en kannski má kenna um frændsemi og létti yfir því að þetta gerðist í Noregi en ekki á Íslandi, og að enginn (já maður þekkir orðið nóg af fólki sem vinnur reglulega út í Noregi) nákominn lést eða slasaðist. Það er einmitt tilfinning sem vitni voðalegra atburða fær að líkum og skammast sín um leið fyrir, ,,sem betur fer þau en ekki ég og mínir“.
    En svo reynir maður að horfa á heiminn með sömu augum, reynir að segja tilfinningahluta heilans að átta ára drengur sem er hengdur af talibönum í Afganistan er alveg jafn mikilvæg sál og norskur ungliði í Útey.

    Posted by: Gísli Friðrik Ágústsson | 25.07.2011 | 15:24:53

    ———————————————

    Þessi svör ykkar eru nánast samhljóða því sem ég sagði sjálf í umræðum á fb síðu Guðjóns Heiðar Valgarðssonar í gær https://www.facebook.com/#!/gudjonhv/posts/10150345392402209?notif_t=like
    Það er ósköp eðlilegt að taka meira nærri sér það fólk og þá atburði sem standa manni nærri og ég dæmi engan fyrir það. Það er hinsvegar algert skeytingarleysi, jafnvel fjandsemi stjórnvalda og lítill skilningur almennings á hörmungum fólks frá öðrum menningarsvæðum sem ber vott um kynþáttahyggju. Við verðum að fara að endurskoða þessi viðhorf þótt ekki sé nema vegna þess að samgöngur eru orðnar of auðveldar til að við getum barið alla ókunnuga frá okkur án þess að efna til stríðs.

    Posted by: Eva | 25.07.2011 | 16:02:22

Lokað er á athugasemdir.