Má ekki svipta Úteyjarmorðingjann mannréttindum?

Svo sem sjá má af umræðum á netmiðlunum, velta margir því nú fyrir sér hverskonar refsing hæfi fjöldamorðingja og hvort Úteyjarmorðinginn eigi yfirhöfuð að njóta mannréttinda. Þessi umræða lýsir fullkomnu skilningsleysi á því hvað mannréttindi eru.

Oft tengjum við mannréttindahugtakið einhverskonar göfgi. Við berjumst gegn mannréttindabrotum og drögum upp hryllilegar myndir af því sem gerist þar sem þau eru vanvirt. Áherslan er á þjáningar þess sem verður fyrir mannréttindabrotum en ekki á afbrotið (hvort sem það nú er snærisþjófnaður, tónlistarsmekkur eða barnamorð) sem varð til þess að hann sætti óviðunandi meðferð.

Mannréttindi voru fundin upp til þess að tryggja öllu fólki einhver lágmarks réttindi til tjáningar, upplýsingar, öryggis, heilsugæslu, virðingar og frelsis, óháð því hvort það verðskuldar þau eða ekki. Ógnarstjórn mun aldrei leggja sanngjarnt mat á það hvort tjáning þegnanna á rétt á sér eða hvort sé eitthvert vit í að leyfa þeim að lesa, ferðast, stjórna barneignum sínum eða ráða búsetu sinni, þessvegna eru mannréttindi algild og óumsemjanleg. Sú regla hefur þann ókost í för með sér að stundum sleppa illmenni betur en þau eiga skilið.

Það er ekkert réttlæti í því að maður sem hefur að yfirveguðu ráði stráfellt saklausa unglinga fái að halda lífi. Í raun er engin réttlát refsing til fyrir Breivik, því ef við höfum að leiðarljósi regluna auga fyrir auga, þá þyfti að drepa hann 83 sinnum (eða voru það 86 sem hann stútaði eða 92? það er írónískt en þegar um mannslíf er að ræða renna allar tölur saman í einhvern óskiljanlegan óhugnað) Málið er að réttlætshugmyndin nær ekki utan um illvirki af þessari tegund og þegar réttlæti er ekki í boði, þá er ekkert annað hægt að gera en að velja um að gefast skefjalausri illsku á vald eða játa ákveðna uppgjöf og sýna það sem kallað er miskunnsemi og er hreint ekki það sama og fyrirgefning.

Mannréttindi fela í sér miskunnsemi. Mannréttindi kveða á um að fólki skuli sýnd mannúðleg meðferð, jafnvel þótt það eigi ekkert gott skilið. Jafnvel þótt það hafi slátrað tugum ungmenna og sjái ekki einu sinni neitt athugavert við það. Það er skítt, helvíti skítt og engin sanngirni í því. En þetta er gjaldið sem við greiðum fyrir rétt okkar hinna til mannhelgi, fyrir tjáningarfrelsi okkar og rétt til sanngjarnrar málsmeðferðar ef við komumst í kast við lögin eða erum ásökuð um glæp.

Mannréttindi eru þess eðlis að ef ætti að svipta manneskju þeim, væri hugtakið þar með fallið um sjálft sig. Og þótt mannréttindi geti í einstaka tilfelli staðið réttlætinu fyrir þrifum, yrði heimurinn töluvert óréttlátari án þeirra.

Mouhamed Lo er einn þeirra fjölmögu sem þurfa að há harða baráttu fyrir því að sjálfsögð mannréttindi hans séu virt. Hann skaut ekki tugi unglinga vegna andúðar sinnar á marxistum, hans glæpur var sá að flýja úr þrældómi. Sömu yfirvöld og þau sem rúnta um með Breivik á brynvörðum bíl, til að gæta öryggis hans, sjá ekkert rangt við að senda Mouhamed aftur heim til eiganda síns. Breivik er nefnilega hvítur, Norðmaður, sprotitnn úr kristnu samfélagi og fær um að tjá sig, það er ólíklegt að hans mannréttindi verði borin fyrir borð. Mouhamed hinsvegar, hann er bara þræll.

Share to Facebook

One thought on “Má ekki svipta Úteyjarmorðingjann mannréttindum?

  1. __________________________________________

    Beittur pistill.

    Posted by: Hulda H. | 26.07.2011 | 11:36:57

    ———————————————————————

    Já Eva. Ég held þó að í allri minni miskunnsemi, sem er þó nokkur, hafi Breivik farið yfir mín þolmörk. Ég viðurkenni að ég óska þess heitast að hann verði myrtur sem allra fyrst í fangelsi og veit þó að ég má ekkert hugsa svona. Ég vil bara ekki hafa þennan mann. En svo satt hjá þér um skinhelgina þegar meiningin er að senda á sama tíma og við miskunnum okkur yfir ollmennið þá er Mouhadme Lo í Limbói einhverra kerfisreglna..
    þetta er auðvitað bara algerlega fráleitt.

    Posted by: Anna María Sverrisdóttir | 27.07.2011 | 23:02:18

    ———————————————————————

    En Anna María, málið er einmitt það að við getum óskað þessu manni alls hins versta, húðsjúkdóms sem gerir hann viðþolslausan af kláða næstu 50 árin, ólæknandi nýrnasteina o.s.frv., þá eiga þessar óskir okkar ekki að stýra réttarkerfinu. Miskunnin snýst einmitt um að þótt okkur þyki einhver vera kríp allra krípa og við óskum honum alls hins versta þá leggjumst við sjálf ekki svo lágt að úthluta honum þeim örlögum sem hann á kannski í raun skilið.

    Posted by: Eyja M. Brynjarsdóttir | 28.07.2011 | 12:51:36

Lokað er á athugasemdir.