Sjá hér
Það er auðvitað gífurlega mikilvægt að erlend stórfyrirtæki græði peninga. Svo mikilvægt að meirihlutinn leggur blessun sína yfir það þótt náttuúrperlum sé fórnað og lífríkinu stefnt í voða. Ég get að vissu leyti skilið það þótt ég sé því ósammála. Græðgin er ekki alltaf framsýn og Landsvirkjun hefur tekist að telja almenningi trú um að íslensk heimili græði líka á þessu rugli. En hversu mörg mannsllíf eru ásættanlegur fórnarkostnaður? Greinilega nokkuð mörg útlensk mannslíf. Vonandi deyr Íslendingur næst. Helst einhver vinsæll og voldugur. Ænei, annars, það þýðir ekkert að vera óraunsær. Það eru ekki óskabörn þjóðarinnar sem vinna við þessa stórkostlegu virkjun sem mun gera okkur frjáls, rík og hamingjusöm.
Hversu margar hórur og súludansarar ætli deyi annars árlega vegna starfa sinna á Íslandi? Ég man ekki eftir fréttum af árlegum dauðsföllum á súlustöðum. Man reyndar ekki eftir einni einustu frétt af slíku máli (án þess að það sanni neitt, fjölmiðlamenn vita ekki allt). Þó líður varla mánuður án þess að einhver sjái sig knúinn til að mótmæla kynlífsiðnaðinum í fjölmiðlum, þar sem oftast er gengið út frá mannúðarsjónarmiðum. En fátækar, erlendar konur eru auðvitað frá náttúrunnar hendi meiri fórnarlömb en fátækir, erlendir karlar.
—————————–
einn af þessum fimm var nú íslenskur strákur…
Posted by: hildigunnur | 25.06.2007 | 18:44:38
————————————————
Æ, ég er náttúrulega að sleppa mér í dramakast yfir smámunum. Það er ekki nema einn Íslendingur sem hefur dáið fyrir Kárahnjúkavirkjun og það er nú allt í lagi.
Posted by: Eva | 26.06.2007 | 12:01:29
————————————————
já, klárt.
(vona að það skiljist að ég er ekki að meina að það sé merkilegra, því það er það bara svo sannarlega ekki. En það virtist nú duga lítið til að neinn þarna uppfrá, né á landsvirkjun færi að hugsa sig um)
Posted by: hildigunnur | 26.06.2007 | 17:26:16
————————————————
Nei Hildigunnur, ég veit alveg að þú hugsar ekki þannig en ég held að margir hljóti að gera það. Ég get allavega ekki ímyndað mér að landinn tæki þessum dauðaslysum svona rólega ef þetta væru allt Íslendingar.
Ég held líka að margur mannúðarsinninn væri búinn að missa stjórn á skapi sínu ef Geiri gullputti tilkynnti árlega að súludansari hefði látist í vinnuslysi.
Posted by: Eva | 27.06.2007 | 0:30:51
————————————————
hmm, samkvæmt Fréttablaðinu í gær voru þetta 3 Íslendingar og 2 erlendir. Hvernig hefur þeim eiginlega tekist að láta alla gleyma því???
Posted by: hildigunnur | 27.06.2007 | 10:50:32
————————————————
3 Íslendingar?!? Takk fyrir leiðréttinguna Hildigunnur. Ég var alveg viss um að þetta væru 4 útlendingar og einn Íslendingur.
Líklega eru það mínir eigin fordómar sem hafa sannfært mig um það. Mér finnst eins og venjulega fjalli fjölmiðlar svo mikið um önnur dauðaslys en umferðarslys og reiknaði með því að það þætti bara ekki eins fréttnæmt ef erlendir farandverkamenn létust. Ég þarf greinilega að gæta þess betur að hrapa ekki að ályktunum.
Posted by: Eva | 27.06.2007 | 11:03:29
————————————————
Ég er dálítið sein, en mig langar að svara hinni pælingunni, líkingunni við dansmeyjarnar á súlunum. Mig langar til að spá í það hvort kona sem dansar við súlu í blindandi sviðsljósi með fulla karla sem koma henni ekkert við, allt í kringum sig, deyi ekki pínulítið smá í hverjum dansi. Ekki nota eina neyð til að eyða annarri neyð.
Posted by: Kristín | 28.06.2007 | 21:51:58
————————————————
Ég hef aldrei verið súludansari sjálf svo ég get ekki svarað því með fullri vissu. Hitt er ég viss um að það er fjöldi fólks á Íslandi sem vinnur alveg jafn ógeðfelld störf, af alveg jafn mikilli neyð og deyr alveg jafn mikið í hvert skipti, án þess að nokkur æpi „neyð“ eða „mannréttindabrot“. Ekkert sérstakt bendir til þess að súlustelpurnar komi hingað nauðugar. Ef fátækt er nauðung þá eru erlendu verkamennirnir líka fórnarlömb.
En þetta snýst ekkert um það. Þrælahald og fátækt virðist aldrei vera neitt sérstakt vandamál nema það feli í sér hættu á því að einhver karl komist í návígi við píku.
Posted by: Eva | 28.06.2007 | 22:56:13