Spunkhildur vill að kirkjan komi að verkfallsmálum

Spunkhildur nokkur, bráðskemmtilegur bloggari, stakk upp á því núna um daginn að kirkjan legði sitt af mörkum til að auðvelda þjóðinni þetta langa og stranga kennaraverkfall. Rökin eru auðvitað þau að það sé og hafi verið yfirlýst stefna kirkjunnar að styðja þá sem eiga við vanda að etja og að kirkjan hljóti að tileinka sér orð Krists „leyfið börnunum að koma til mín“.

Með því að opna kirkjur landsins fyrir verkfallsbörnum, yrði daggæsluvandi foreldra leystur án þess að hægt væri að ásaka nokkurn um verkfallsbrot því það er vissulega hlutverk presta að gæta, styðja, hjálpa og leiðbeina. Einnig má færa rök fyrir því að til þess að börn eigi möguleika á að alast upp sem sannkristið fólk, verði þau að geta lesið Biblíuna og því sé það siðferðileg skylda presta að kenna þeim að lesa, hvað sem öllu verkfalli líður. Við þetta má svo bæta að kirkjan ætti einnig að geta notað þetta tækifæri til að krækja sér í nokkrar sálir (eða bjarga þeim frá trúleysi) þannig að það er til þó nokkurs að vinna og fólki væri auðvitað í sjálfsvald sett hvort það sendi börnin í kirkju eða ekki.

Mér þætti gaman að heyra hvernig prestum og guðfræðingum líst á tillögu Spunkhildar.

Svo verð ég endilega að koma því að sem víðast að bókin mín er komin út. Meira um það á persónulega vefnum mínum

 

 

One thought on “Spunkhildur vill að kirkjan komi að verkfallsmálum

  1. —————–

    skúli @ 22/10 15.46

    Þetta hefur vissulega verið rætt en prestar veigra sér við að fara þarna inn á starfsvettvang kennara. Uppfræðslumálin – þetta afsprengi kristninnar – eru svið sem kirkjan veigrar sér við að stíga inn á, nú á þessum síðustu og verstu.

    Eggið leggur hænunni lífsreglurnar. 🙁

    —————–

    Birgir Baldursson @ 22/10 17.48

    Finnst þér þá líka, Skúli, að Stjörnuspekingar eigi að vera átorítet yfir stjörnufræðingum og alkemistar yfir efnafræðingum?

    —————–

    Hjalti @ 22/10 19.20

    Eru uppfræðslumál virkilega afsprengi kristinnar trúar? Ég sem hélt að það að kenna börnum væri miklu eldra en kristni. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt 🙂

    —————–

    Birgir Baldursson @ 22/10 20.30

    Já, fyrir nú utan það 🙂

    —————–

    eva @ 22/10 22.15

    Barnafræðsla var reyndar í höndum presta hér áður fyrr en é held að það sé ofmælt að menntun sé „afsprengi“ kristinnar. Reyndar gæti verið að gamla húsráðið að hýða börnin til lærdóms eigi sér rætur í kristinni (ég er þó ekki viss um það) en ég held nú að það sé hvorki gert í íslenskum skólum né í kirkjunni í dag 🙂

    —————–

    Torfi @ 23/10 12.39

    Það sem Skúli hefur eflaust átt við var að upphaf barnafræðslu hér á landi, og í Danmörku, á rætur sínar í heittrúarstefnu píetismans (sbr. tilskipun um fermingarfræðslu frá 1746). Með þessu átaki, sem byggðist á eftirliti prestanna sem máttu ekki ferma ólæs börn, tókst að útrýma ólæsi á 50 árum. Taka skal fram að lúterska kirkjan stóð sig miklu betur en aðrar kirkjudeildir á þessu sviði. Hins vegar var hún ekki eins „nútímaleg“ hvað refsingar varðar. Árið 1753 var prestur hér á landi dæmdur af prófastafundi til að missa hönd sína ef hann borgaði ekki sekt sem var tilkomin vegna smá yfirsjónar.

Lokað er á athugasemdir.