Er fyrirgefning endilega af hinu góða?

forgive_by_onlycurious

Það er nokkuð vinsæl villukenning sem margir andans menn, sálarlífs- og samskiptafrömuðir halda fram, að fyrirgefning sé allra meina bót. Því er þannig oft haldið fram að maður eigi að fyrirgefa þeim sem gera manni illt af því að það sé svo mannskemmandi að burðast með hatur og hefndarfýsn. Gallinn við þessa kenningu er sá að hún virðist alls ekki gera ráð fyrir því að hægt sé að halda hugarró sinni án þess að fyrirgefa. Auk þess virðast þeir sem halda þessu viðhorfi á lofti, reikna með því að hægt sé að fyrirgefa án þess að taka viðkomandi í sátt. Ég sé ekki betur en að það sé stór rökvilla.

Vinkona mín varð fyrir mjög slæmri framkomu sem hún bar virkilegan skaða af en hélt því statt og stöðugt fram að hún væri alveg búin að fyrirgefa misindismanninum þótt hann hefði ekki einu sinni beðist afsökunar. Hún skýrði það þannig að þessi maður hefði þegar eyðilagt svo marga daga af lífi hennar að hún ætlaði ekki að láta hann eyðileggja fleiri daga með því að velta sér upp úr því liðna. Mér fannst þetta út í hött og spurði hana hvort hún myndi þá bjóða honum inn í kaffi ef hann bankaði upp á. Auðvitað ekki sagði hún, hún kærði sig ekki um að sjá hann, heyra í honum né vita af tilvist hans en hún væri samt alveg búin að fyrirgefa honum.

Þetta er auðvitað bull. Það sem konan átti við var einfaldlega að hún væri búin að jafna sig á áföllunum sem hún hafði orðið fyrir af hans völdum og hefði náð hugarró. Hún var auðvitað ekkert búin að fyrirgefa honum. Fyrirgefning felur nefnilega í sér þá hugsun að láta hið liðna að baki, taka hinn brotlega í sátt og finna honum eitthvað til af-sökunar, gefa honum upp sakir. Og það á bara ekkert alltaf við.

Ég álít að fyrirgefning geti verið stórhættulegt fyrirbæri ef hún er notuð af óhóflegu örlæti. Mér þætti það t.d. siðferðislega rangt að segja við stríðsglæpamann: ég erfi það ekkert við þig þótt þú hafir drepið fjölskyldu mína og misþyrmt mér til óbóta, eigum við ekki bara að vera vinir? Ef maður tekur þannig misindismann í sátt án þess að hann hafi sýnt nein merki iðrunar, fær hann þau skilaboð að illar gjörðir hans skipti ekki máli. Hann þurfi ekki að gjalda þeirra og jafnvel að sá sem varð fyrir þeim hafi varla borið skaða af þar sem hann virðist sáttur. Mér finnst þannig fyrirgefning vera óviðeigandi og í raun órökrétt, nema viðkomandi hafi sýnt merki iðrunar og helst gert yfirbót í einhverju formi.

Öðru máli gegnir um hæfileikann til að halda sinni hugarró eða enduheimta hana. Það er engum hollt að liggja andvaka og velta sér upp úr hefndarhug. Það skiptir einnig máli að hafi einhver gert manni illt á hann það sannarlega ekki skilið að maður auki sjálfur á kvalræði sitt með því að velta sér of mikið upp úr því. Það hins vegar kemur fyrirgefningu ekki nokkurn skapaðan hlut við.

 

Share to Facebook

One thought on “Er fyrirgefning endilega af hinu góða?

  1. ———————–

    Þorkell @ 11/06 10.47

    Ég er sammála þessu með hugarró og fyrirgefninguna.

    Hins vegar trúi ég á fyrirgefningu án iðrunar hins aðilans. Hef reynslu af því sjálfur. Hins vegar er það alls ekki auðvelt.

    ———————–

    Eva @ 11/06 11.42

    Vitanlega er hægt að fyrirgefa þótt sá seki hafi ekki sýnt merki iðrunar. Spurningin er hinsvegar hvort það sé eitthvað sniðugt.

    ———————–

    Torfi @ 11/06 12.27

    Ef ég man rétt stendur í helgri bók að maður skili fyrirgefa ekki aðeins 7 sinnum heldur 70×7.
    Í því tilefni var skrifuð bók í Svíþjóð sem hét einfaldlega 491, þ.e. til eru takmörk á því hve oft maður getur fyrirgefið. Bókin fjallaði um afbrotaunglinga sem höfðu lent á mjög umburðarlyndu upptökuheimili. Unglingarnir höfðu fullt ferðafrelsi. Þau máttu koma og fara eins og þeim lysti, þrátt fyrir að þau sýndu margoft að þeim væri ekki treystandi, allt þar til einn þeirra framdi morð.
    Loksins þá setti forstöðumaðurinn þeim skilyrði.

    Boðskapur Jesú (Nýja testamentisins) byggist á heimsslitahugsun hans (þess). Vegna yfirvofandi komu guðríkis eru öll siðræn gildi endurskoðuð: Elskaðu óvini þína, gerðu þeim vel sem hata þig, réttu hina kinnina þeim sem slá þig…

    Þó aðstæður sé aðrar nú er ástæða til að taka mark á þessum orðum. Þau fela í sér áherslu á umburðarlyndi, sáttfýsi og fyrirgefningu, sem alltaf er þörf á í öllum aðstæður.
    Vandamálið er tengsl réttlætis og sáttfýsi.

    ———————–
    Gunný @ 13/06 02.49

    Er ekki viss um að fyrirgefning þurfi að hafa í för með sér samskipti við þann sem hefur gert á hlut manns og frýja hann eða hana þar með nauðsynlegri ábyrgð.

    Susan Forward mjög góð um þetta annars merkilega fyrirbæri, fyrirgefninguna, og ekki síst hversu mikilvægt er að flýta henni ekki. Man ekki hvort þetta þema kemur fyrir í bókinni Emotional Blackmail eða Toxic Parents en hægt er að mæla með báðum titlum.

    ———————–

    Pétur Björgvin @ 14/06 13.13

    Nei Eva, mikilvægt er að muna að fyrirgefning er ekki það sama og traust. Fyrirgefningin snýr að fortíðinni ,,letting go of the past“ en traust snýr að framtíðinni. Þessu heldur t.d. Rick nokkur Warren fram og ég er ekki frá því nema hann hafi þó nokkuð til síns máls.(Ég skrifaði reyndar smá um hann hér í haust á annálnum mínum)

    ———————–

    Eva @ 14/06 14.20

    Skil ekki alveg hvað þú ert að fara Pétur, áttu við að hægt sé að fyrirgefa án þess að taka viðkomandi í sátt? Ef fyrirgefning felur það í sér að „sleppa tökum á fortíðinni“ án þess þó að taka hinn „seka“ í sátt, hver er þá munurinn á hugarró og fyrirgefningu? Er „fyrirgefning“ kannski bara innihaldslaust orð sem fólk notar til þess að sýnast göfuglyndara en það er?

    ———————–

    Pétur Björgvin @ 14/06 21.14

    Held að öll sár skilji eftir sig ör. Hin særða / hinn særði er á einhvern hátt önnur kona / annar maður eftir atvikið. Fyrirgefning þess særða í garð hins aðilans er liður í ferlinu í átt að hugarró, ef með ,,hugarró“ er átt við að ,,vera sátt/sáttur við núverandi líðan“. Ef markmið fyrirgefningar er það að tilkynna það út á við að maður sé svo rosalega góður í að fyrirgefa þá er orðið orðið innihaldslaust, já!

    ———————–

    Eva @ 15/06 11.32

    En ef fyrirgefning merkir ekki það að taka gerandann í sátt, til hvers ætti fólk þá að biðjast fyrirgefningar? Barn lærir að biðjast fyrirgefningar vegna þess að það græðir eitthvað á því, t.d. að mamma hættir að vera reið, vinurinn vill leika við það aftur o.s.frv. Þegar þú biðst afsökunar þá ertu ekki bara að segja, „mér þykir þetta leitt og vona að þú jafnir þig“, þú ert líka að fara fram á að þér verði gefnar upp sakir, þú verðir tekinn í sátt.

    ———————–

    Pétur Björgvin @ 15/06 12.46

    Ég biðst fyrirgefningar af því að mér þykir það leitt/sárt sem ég hef gert á hlut einhvers. Þegar ég hef þann möguleika að hafa frumkvæðið og biðjast fyrirgefningar er það væntanlega af því að samband mitt við viðkomandi er ennþá til í einhvers konar formi. Von mín er þá sú að hinn aðilinn fyrirgefi mér og tjái mér það í orðum. Þá höfum við forsendu til þess að stíga næsta skref, byggja upp sambandið sem hafði beðið skipsbrot við ákveðinn gjörning sem leiddi til þess að ég bað um fyrirgefningu.

    En hvað ef ég er sár vegna þess að mér þykir einhver hafa gert á minn hlut og sá hinn sami kemur ekki og biðst fyrirgefningar? Get ég samt fyrirgefið honum? Já! Þarf ég að fara til hans og tjá það með orðum? Nei! Hef ég þar með tekið hann / hana í sátt? Nei, því ekkert samband er til staðar, sá hinn sami hafði ekki frumkvæði að því að biðjast fyrirgefningar.

    Fyrirgefning er skuldaaflausn, ekki framlenging á láni eða nýtt lán!

    ———————–

    Skúli @ 15/06 13.17

    Þurfa menn ekki að gera hér greinarmun á fyrirgefningu og sáttargjörð? Hið fyrra getur átt sér stað í kolli þolandans en hið síðara gerist í kjölfar iðrunar og afturhvarfs gerandans.

    ———————–

    Pétur Björgvin @ 15/06 15.59

    Einmitt það sem ég var að reyna að segja, takk fyrir Skúli!

    ———————–

    Spúnkhildur @ 23/06 10.48

    Já það er eitt að fyrirgefa og annað að fyrirgefa. Ég lít svo á að betra sé að sleppa yfirlýsingum í þessa veru nema að meina þær af fullri alvöru. Ég er ein af þeim sem trúir á yfirbótina og tel að hún verði að vera til staðar þegar menn „fyrirgefast“. Tilbúin að láta niður falla meinsemdir í minn garð ef viðkomandi hefur sannfært mig um sannarlega eftirsjá og yfirlýstur vilji til léðréttingar eða miskabóta sé til staðar. Það fólk sem hefur gert mér illt og ekki sýnt í neinu yðrun eða yfirbót má brenna í helvíti mín vegna og ég sef bærilega engu að síður.

    Svo er það alkunna að fólk deyr.

Lokað er á athugasemdir.