Nýtingarfasistinn 4. hluti

Ekki henda afgangnum

nytingafasisti-4-688x451

Í síðustu pistlum hef ég boðað þá venju að elda ekki meira en þörf er á en þegar maður einu sinni hefur náð góðum tökum á afgangastjórnun er tilvalið fyrir þá tímabundnu að elda meira en á að nota í það skiptið og nota afgangana í annan rétt næsta dag. Ég mæli þó ekki með því fyrir þá sem ennþá líta á afganga sem rusl.

Fyrsta skrefið er að hætta að leifa mat. Afgangar eru nýtanlegir en það eru matarleifar ekki. Settu þessvegna lítinn skammt á diskinn og kenndu börnunum að gera það líka. Það er alltaf hægt að fá sér meira. Samkvæmt norskri rannsókn sem unnin var á árunum 2009-2013, leifa Norðmenn að jafnaði sem svarar 1,6 máltíð á mánuði bara af því að þeir setja of mikið á diskinn í einu. Það gera 19 máltíðir á ári á hvert mannsbarn. Myndir þú þiggja 19 ókeypis máltíðir árlega fyrir þína fjölskyldu?

Breyttu afgöngum í máltíðir

Gakktu þannig frá afgöngum að þægilegt sé að kippa þeim með sem nesti í vinnu eða skóla eða skella í örbylgjuofn í hádeginu næsta dag. Umfram allt; notaðu rétt ílát.

Hafðu afganga í kvöldmatinn. Ef þú átt pínulítinn afgang af mörgum réttum er hægt að gera þá girnilega með því að bera þá fallega fram í litlum ílátum, skreyta hvern rétt með kálblaði, slettu af sýrðum rjóma eða öðru viðeigandi og kalla þá „tapas“.

tapas

 

Ef þú situr oft uppi með afganga og það er erfitt að komast hjá því (til dæmis lítill eða enginn fyrirvari á því hvort  einhver á heimilinu kemur heim í mat) skaltu reikna með einum afgangadegi í viku og kaupa engan mat fyrir þann dag. Það er hægt að eiga eitthvað fljótlegt í frystinum til öryggis og ef afgangarnir duga ekki í heila máltíð, þá er hægt að bæta við brauði eða hrísgrjónum, nú eða bjóða upp á skyr, grjónagraut eða annan „eftirmat“ eins og í gamla daga.

 

Eldaðu nýja rétti úr afgöngum

Þegar Darri sonur minn var lítill hélt hann því stundum fram að hann fengi aldrei neitt að borða nema afganga. Þótt ég minnist þess nú reyndar ekki að hafa nokkurntíma komið inn í afgangabúð, var samt örlítið sannleikskorn í þessu hjá honum. Ég nýtti allt en auk þess flýtti ég stundum fyrir mér með því að elda mikið í einu svo ég þyrfti minna að hafa fyrir matseldinni næsta dag. Ég sauð kannski helling af hrísgrjónum, hafði hrísgjónarétt fyrsta daginn og notaði afganginn sem meðlæti þann næsta, notaði afganginn af afgangnum í grjónagraut þriðja daginn og steikti svo grautarlummur úr afgangnum af grjónagrautnum þann fjórða.

afgangar

 

Afganga má til dæmis nýta í pottrétti, gratín, karrýrétti, hrísgrjóna og baunasalöt, omelettur og góðar súpur.

Ekki henda soðinu. Síaðu soð af grænmeti, kjöti og fiski, frystu það og notaðu síðar í súpur og sósur.

Ekki henda feitinni sem rennur af beikoni eða öðru feitu kjöti. Frystu hana og notaðu hana til að steikja grænmeti og bragðbæta bauna- og hrísgrjónarétti.

 

Hvenær á að henda afgangnum?

Mér þykir leitt að þurfa að viðurkenna það en örsjaldan er illmögulegt að gera neitt gott úr afgangnum og eina leiðin til að forðast að þurfa að henda þessháttar mat er sú að útbúa þann mat í hæfilegum skömmtum.  Hentu afgangnum þegar þú veist að hann verður ekki borðaður. Það er ekkert unnið við að láta slá í hann fyrst.  Gættu þess svo vel að bjóða ekki upp á of mikið af eftirtöldu:

Franskar kartöflur, laukhringi og annan djúpsteikan mat. Mér hefur ekki tekist að hita djúpsteiktan mat upp þannig að úr verði mannamatur. Ef einhver sem les þetta kann aðferð til þess þá látið mig vita.

Grænt niðurskorið salat. Það verður lint og ógeðslegt á nokkrum klukkutímum. Salat úr tómötum, papriku og gúrku er hinsvegar hægt að marinera í olíu og kryddi og geyma í 2-3 daga.

Ef þú býrð til hrásalat með dressingu úr sýrðum rjóma og/eða mæjónesi, skaltu ekki setja gúrku, tómata, eða epli í það (ekki einu sinni til að bjarga afgöngum) nema þú teljir nokkuð víst að það klárist. Hvítkál og gulrætur geymast lengi og ef hrásalatið er sett í gott lokað ílát er hægt að geyma það í marga daga. Það verður hinsvegar strax ógeðslegt ef viðkvæmt grænmeti eða ávextir sem oxast eru settir með.

Niðurskornir ávextir sem eru farnir að oxast. Þú ættir að geta komist hjá þessu með því að hella sítrónusafa yfir banana og epli um leið og þú skerð ávextina niður og setja afganginn strax í gott ílát og í frysti. En ef bitarnir eru orðnir ljótir hentu þeim þá. Það langar engan í þá daginn eftir,

Flest annað er hægt að nýta með smá útsjónarsemi og góðu skipulagi. Meira um það í næstu viku.

Share to Facebook