Þann 22. maí síðastliðinn stóð framboðslisti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík fyrir nýbúakvöldi að Suðurlandsbraut 24.
Samkvæmt heimildamanni Kvennablaðins, sem hefur tekið þátt í starfi framboðslista Framsóknar og flugvallarvina, stóð til að upplýsa nýbúana um framkvæmd utankjörstaðaratkvæðagreiðslu, aka þeim í Laugardalshöll til að kjósa, og gefa þeim svo veitingar þegar þeir kæmu til baka með atkvæði sín í umslagi.
Oddviti listans virðist hafa ákveðið að upplýsa um afstöðu sína í moskulóðarmálinu strax eftir nýbúafundinn og mun sumum þeirra sem höfðu setið fundinn brugðið illilega í brún þegar þeim varð ljóst að framboðslistinn sem hafði boðið þeim fræðslu, akstur og veitingar, hafði einnig á óopinberri stefnuskrá sinni að koma í veg fyrir að moska yrði reist í Reykjavík. Þær fyrirætlanir voru ekki kynntar á fundinum.
Samkvæmt 65. grein laga um sveitarstjórnarskosningar er gert ráð fyrir þeim möguleika að kjósandi sem kosið hefur utan kjörfundar mæti einnig á kjörstað. Ef það gerist ógildist utankjörfundaratkvæðið. Ef kjósandi sem hefur kosið utan kjörfundar skiptir um skoðun, getur hann þannig ógilt utankjörfundaratkvæði sitt og gefið það einhverjum öðrum lista, eða skilað auðu bara með því að mæta á kjörstað.