Margir af mínum bestu vinum eru …

multikulti

„Sko ég er ekki með fordóma  – en…“ Þannig hefjast margar ræður sem lykta langar leiðir af fordómum.

Þeir sem vilja viðhalda misrétti og kúgun réttlæta oft skoðanir sínar með þekkingu og reynslu. Kynþáttahyggja er þannig réttlætt með því að þeir sem halda henni á lofti hafi búið í samfélögum þar sem fólk af óæðri kynstofnum hafi valdið margháttuðum vandræðnum.

Á sama hátt þekktu þrælahaldarar í Ameríku mikinn fjölda svertingja og gerðu sér grein fyrir því að þeir voru í heiminn bornir til þess að verða þrælar. Nazistar höfðu mikla reynslu af Gyðingum og áttuðu sig á nauðsyn þess að útrýma þeim. Karlar sem hata konur og konur sem hata karla hafa oftar en ekki átt töluverð samskipti við fólk af hinu kyninu. Svínabændur þekkja gríslinga og vita að þeim finnst ekkert svo slæmt að undirgangast geldingu án deyfingar. Kúgarinn þekkir hinn kúgaða og hlýtur því að hafa rétt fyrir sér.

Og svo eru það vinarökin:

„Margir af mínum bestu vinum eru hommar – en…“
„Ég hata ekki konur, móðir mín er kona, – en…“
„Ég er ekki með fordóma, múslimirnir í næsta húsi eru gott fólk – en…“

Hér er reynslan notuð sem rök fyrir því að viðkomandi sé ekki haldinn fordómum, gjarnan eftir að sá sami hefur reynt að réttlæta skoðanir sínar með vondri reynslu af hópnum, sem meintir vinir hans tilheyra, en ekki þótt trúverðugur. Velvildin í garð einstaklings er þannig notuð sem alibí fyrir illvilja í garð hópsins sem meintur ástvinur eða góðkunningi tilheyrir.

Breivik notaði bæði reynslurökin og vinarrökin því besti bernskuvinur Breiviks var múslimi og hann sá síðar hverskonar mistök það höfðu verið að umgangast hann.

Fólk sem reynir að breiða yfir fordóma sína á þennan hátt gerir sér líklega ekki almennilega grein fyrir því hvað fordómar eru. Þetta fólk heldur að kynþáttahatur sé það að hata einhvern af því að hann er svartur. Það telur sig vera fordómalaust þar sem það er tilbúið til að líta á svartan, samkynhneigðan múslima sem manneskju, að því tilskildu að hann hegði sér á allan hátt eins og gagnkynhneigður, léttkristinn, hvítur maður með vestrænan menningarbakgrunn, vestræn viðhorf og vestrænt vegabréf.

En rasismi er ekki bara það að neita að taka í höndina á einhverjum af því að hann er hörundsdökkur eða vilja takmarka rétt kvenna til að hylja hár sitt á almannafæri. Rasismi er það að álíta suma hópa samfélagsins réttborna til meiri þæginda, frelsis og fyrirgreiðslu en aðra. Og kynþáttahyggja, ættbálkahyggja af hvaða tagi sem er – allar hugmyndir um að einn hópur hafi einhverskonar náttúrurétt til að kúga annan hóp, eru af sama meiði.

Share to Facebook