Lýðræðið sem við búum við er undarlegt stjórnfyrirkomulag. Lýsa má ferli þess í 7 skrefum
1 Aðdragandi kosninga.
Á þessu stigi taka sig saman hópar fólks sem telja sig öðrum hæfari til að hugsa fyrir fjöldann og ráðskast með örlög hans, gefa kjósendum ýmis loforð sem útilokað er að þeir gætu staðið við þótt þeir vildu, og reyna jafnframt að sannfæra lýðinn um að allir hinir hóparnir séu vanhæfir og vinni af óheilindum.
2 Kosningar
Um er að ræða einn dag þar sem hluti þeirra sem eru á kjörskrá, þ.e. þeir sem treysta þingræðisfyrirkomulaginu og/eða vilja viðhalda því, fá tækifæri til þess að gefa einum þessara hópa umboð til þess að hugsa, tala og taka mikilvægar ákvarðanir fyrir sína hönd. Þeir sem ekki fella hug til stjórnskipulagsins hafa ekki rétt til að hafa áhrif á stjórn landsins.
3 Úrslit kosninga
Hér fær umboðsmaður þess hóps sem fékk flest atkvæði umboð til að mynda stjórn, ekki endilega þó með þeim sem fékk næstflest atkvæði, heldur bara þeim sem hann telur auðveldast að ráðskast með (á Íslandi er það venjulega Framsóknarflokkurinn).
4 Stjórnarmyndun
Á þessu stigi byrja flokkarnir að svíkja loforðin sem þeir voru kjörnir út á. Það heitir málamiðlun og er gert til að tryggja þeim völd sem telja sig merkilegri en aðra.
5 Þing tekur til starfa
Sumir þeirra sem sitja þingið eru þingmenn og teljast háttvirtir, eða meira virði en almúginn. Smærri hópur kallast ráðherrar og þeir teljast hæst virtir, eða meira virði en nokkur annar. Þeir mynda ríkisstjórn, væntanlega af því að þeir eru svo mikils virði.
6 Starfstími þingsins
Hér er um að ræða langt tímabil, venjulega 4 ár, þar sem Alþingi ræðir og tekur ákvarðanir um stjórn landsins og lagasetningu. Umræður fara þannig fram að þingmenn halda ræður þar sem þeir rökstyðja mál sitt, jafnframt því að hreyta orðunum ‘háttvirtur þingmaður’ og ‘hæstvirtur ráðherra’ í samstarfsfólk sitt í misdónalegum tón en nánast alltaf af umtalsverðum hofmóði. Atkvæði eru svo greidd og nánast undantekningalaust stendur ríkisstjórn og undirtyllur hennar saman um að valta yfir svokallaðan minnihluta en minnihlutinn gætir þess fyrir alla muni að setja sig á móti flestu því sem meirihlutinn stingur upp á og tefja eins lengi og mögulegt er að mál verði afgreidd.
7 Lok kjörtímabils
Á þessu skeiði kemur í ljós að innan við 10% kosningaloforða hafa verið efnd. Ný framboð fólks sem telur sig geta hugsað fyrir aðra spretta upp og hringavitleysan hefst á nýjan leik.
Nú er í framboði til Alþingis margt ágætis fólk. Ég tel reyndar að gott og heiðarlegt fólk finnist í öllum flokkum. Ég treysti mörgum þeirra sem eru í framboði til að taka skynsamlegar ákvarðanir. En er einhver í alvörunni hissa á því að ég treysti því ekki að skynsemi, heilindi og umhyggja þrífist innan þessa kerfis?
Lýræði er í hugum okkar flestra eitthvað heilagt. Nýtur mun meiri virðingar en Gvuð. En eins og það er praktíserað er það jafn mikið kjaftæði og Gvuð.
Ég vildi sjá lýðræði í raun en það lýðræði sem við búum við í dag er réttnefnt kjaftæði.