‘Maður velur bara illskársta kostinn’ sagði félagi minn einn forpokaður. Já það er einmitt það Jón Kjartan, það eru engir góðir kostir í boði, bara misvondir. Og hversvegna ætti maður að sætta sig við illskársta kostinn? Því ekki að búa til eitthvað nothæft? Elskan, mótmælaaðgerðir bitna alltaf á saklausum, mér þykir það leitt. Ekki samt nógu leitt til að horfa aðgerðalaust á endalausa valdníðslu í nafni lýðræðis og frelsis.
Nei það er rétt, ekkert framboð svarar öllum væntingum og þótt við afleggjum flokkakerfið merkir það ekki að það sem kemur í staðinn verði fullkomið. Í mínum huga snýst þetta hvorki um þá sem eru í framboði né ‘ástandið’, heldur um rétt hvers einasta kjósanda til að hafa áhrif. Markmiðið er ekki fullkomið samfélag því það er ekki til, heldur réttlæti. Lýðræði. Réttur allra til að taka þátt í mótun samfélagsins og vita hvað og hver stjórnar örlögum okkar. Með þessu kosningafyrirkomulagi er ekki hægt að komast hjá því að styðja flokkakerfið því það hefur engin áhrif að kjósa ekki eða skila auðu. Ég hef semsagt engan rétt til að hafna kerfi sem er ekkert annað en umgjörð utan um valdníðslu, spillingu og leynimakk. Ef ég vil engum gefa atkvæðið mitt þá fellur það dautt niður, er ekki talið með!
Hversvegna ætti ég að sætta mig við það að þú fáir að hafa áhrif en ekki ég? Af hverju ætti ég að taka því þegjandi að þitt atkvæði sé talið en ekki mitt?
Ég varð fyrir rosalegu áfalli þegar ég sá að fólk sem hafði staðið við hliðina á mér í aðgerðum var komið í kosningabaráttu. Ég upplifði ástarsorg, ég er ekki að grínast. Fannst þetta framboð vera svik við byltinguna. Ég lít þetta aðeins öðrum augum í dag, held að það sé frekar kjánaskapur en valdagræðgi sem rak þau út í þessa vitleysu. Smáborgaraflokkurinn (ég neita að kalla stjórnmálaflokk hreyfingu því þetta tvennt er eðlisóskylt) er nefnilega samsafn vel meinandi fólks sem heldur að það sé yfir mannlegt eðli hafið. Sem heldur að það sjálft sé laust við spillingarhneigðina, valdagræðgina og hræsnina sem býr í hverjum einasta manni. Sem heldur að vandamálið sé fólkið á þingi en ekki kerfið sjálft. Af öllu fóllki hefði kjarninn í smáborgaraflokknum átt að gera sér grein fyrir því að maður upprætir ekki flokkakerfið með því að taka þátt í því en þau brugðust. Dómgreind þeirra brást.
Smáborgaraflokkurinn mun ekki koma á lýðræði. Ekki fremur en vinstri grænir hafa upplýst okkur um raforkuverð til álfyrirtækja. Stjórnskipulagið sem við búum við byggist nefnilega á völdum en ekki verkum. Sjáðu Steingrím Jóhann. Hann er ekki slæmur maður. Engu að síður var hann farinn að gapa upp í AGS sama dag og hann sá fram á að taka við embætti fjármálaráðherra. Ég treysti skynsemi Steingríms en ég treysti því ekki að hann setji þjóðahag ofar sínum eigin. Ég held að hann sé tilbúinn til að svíkja hugsjónir sínar fyrir ráðherrastól og ég held að nákvæmlega það sama gerist hjá smáborgaraflokknum, já reyndar hjá öllu fólki eftir ákveðinn tíma á þingi. Það er ekkert persónulegt, ég treysti einfaldlega ekki mannlegu eðli fyrir völdum. Vandamálið er kerfi sem gefur kost á völdum og leynimakki og mannskepnan er einfaldlega of sjálflæg til að standast það.
Smáborgaraflokkurinn er ekki nýtt stjórnmálaafl. Hann er eldgamalt forpokað stjórnmálaafl sem byggir á sama misskilningnum og öll hin, semsagt viðhorfinu ‘við erum betri en aðrir og við vitum hvernig er best að stjórna landinu’. Eftir 7 daga þingsetu verður smáborgarinn farinn að líta svo á að óþarft sé að ræða alla hluti opinberlega. Hann verður farinn að máta vini og ættingja í embætti. Hann verður þá þegar farinn að gera málamiðlanir gegn eigin samvisku til að öðlast völd og halda þeim.
Saga smáborgaraflokksins er jafn ömurleg og saga annarra stjórnmálaflokka. Þetta byrjaði ósköp fallega með hugsjónum og heiðarleika. Flokkurinn spratt upp úr nokkrum grasrótarhreyfingum sem höfðu áhuga á því að breyta stjórnskipulaginu og uppræta spillingu. Þrátt fyrir margra vikna vinnu höfðu þau samt ekki getað komið sér saman um tillögur um það hvernig ætti að standa að því. Þegar þau sáu fram á að komast ekki áfram með málefnavinnuna, ákváðu þau að fara bara í framboð í staðinn!
Stefnuskráin var að uppistöðu fengin að láni hjá Lýðveldisbyltingunni en sú hreyfing hefði getað orðið nýtt stjórnmálaafl. Hún var stofnuð sem tilraun til lýðræðis og gegnsæis. ALLT sem var rætt og ákveðið var sett á netið og hugmyndin var sú að hver sem er gæti sett fram tillögur og athugasemdir. Hinn almenni borgari átti að fá að hafa áhrif og hann átti að fá almennilegar upplýsingar. Lýðveldisbyltingin ætlaði í framboð, með aðeins eitt stefnumál, að koma á stjórnlagaþingi og bylta flokkakerfinu. Hugmyndin var sú að þeir sem kæmust á þing tækju sér 6 mánuði til að knýja fram þetta eina mál. Ef það tækist ekki á 6 mánuðum væri annað hvort eitthvað að markmiðinu eða aðferðinni. Ef svo færi að árangur næðist ekki á 6 mánuðum átti að leggja þingflokkinn niður, á þeirri forsendu að tilraunin hefði misheppnast. Ef árangur næðist ætti að leggja hann niður á þeirri forsendu að þar sem tilraunin hefði heppnast og þar sem stjórnlagaþing væri í höfn, væri ekki lengur þörf fyrir hann. Markmiðið var ekki að sölsa undir sig völd, heldur að færa völdin út til samfélagsins, dreifa þeim þannig að enginn fengi almennilegt tækifæri til að spillast.
Fljótlega fór að bera á því að fólk vildi að hlutverk Lýðveldisbyltingarinnar yrði það sama og hlutverk hefðbundins stjjórnmálaflokks. Það ætti að móta stefnu í öllum málum og reikna með 4 ára þingsetu. Þeir sem voru að þessu fyrir þingsæti, þeir sem vildu völd en ekki lýðræði, tíndust burt og gengu til liðs við stjórnmálaflokka eða tóku þátt í stofnun smáborgaraflokkins. Að lokum lognaðist hreyfingin út af. Slík er valdafíkn mannskepnunnar. Nokkrir héldu þó áfram að vinna í nafni hennar en án þess að gera það sem málið snerist um; að hafa allt uppi á borðinu.
Ég missti endanlega álitið á Lýðveldisbyltingunni þegar ókunnugur maður kom til mín og bauð mér á árshátíð Lýðveldisbyltingarinnar. Ég varð mjög hissa því það var ekkert um þessa árshátíð á netinu. Ég hafði samband við vinkonu mína sem sá um vefinn fyrir þau, og hún hafði ekkert frétt af þessari árshátíð. Semsagt, fólk sem réði ekki einu sinni við að hafa jafn ómerkilega hluti og árshátíð uppi á borðinu, fólk sem skipulagði árshátíð á bak við þá sem höfðu borið hitann og þungann af vinnunni, ætlaði að koma á LÝÐRÆÐI í landinu. Ég þáði ekki boðið og veit ekki hvort varð neitt af þessari árshátíð en hún hefur þá verið fámenn og farið leynt.
Af hverju er ég að segja þér þetta? Vegna þess að ég vil að þú skiljir hversvegna ég gef fullkominn skít í þessar kosningar. Vegna þess að ég vil að þú skiljir að enginn stjórnmálaflokkur mun koma heiðarlega fram við okkur, hafa allt uppi á borðinu og vinna að því að auka þátttöku almennings í því að móta samfélagið. Það er ekki af því að það sé ómögulegt fólk í framboði, heldur af því að það er ómögulegt kerfi í framboði og það er eina kerfið.
Við þurfum ekki kosningar, fleiri framboð eða nýtt stjórnmálaafl. Við þurfum ekki fólk sem veit hvað okkur er fyrir bestu. Við þurfum samfélag sem byggir á frelsi, ábyrgð, þátttöku og gegnsæi. Og til þess þurfum við ekki kjörseðil heldur byltingu. Almenna, gagngera og tafarlausa byltingu. Það er eina svarið.