Já en ÉG hef aldrei verið siðlaus

Fyrir hrun fengu umræður um spillingu á Íslandi lítinn hljómgrunn nema meðal róttækra vinstri manna. Spillingin var í Afríku. Eða allavega ekki hjá okkars.

Jú kannski svona ponkulítill heimóttarháttur, eins að hafa ekki hugsun á því að smáræði til einkaneyslu mætti ekki fljóta með á bensínnótu sem tilheyrði starfinu; engar alvöru upphæðir bara smá klink, sem bíttaði ekki baun. Varla spilling, bara fyndið að nokkur gerði sig sekan um svona aulagang. Eða hlunnindataka sem skaðaði engan, eins og að misnota aðstöðu sína til að birgja sig upp af ódýru áfengi. Jú og kannski smá klíkuskapur eins og að fá dómarastöðu af því að maður á ekki að gjalda þess að eiga merkilegan pabba. Kannski fullbíræfið að láta ráðuneyti borga afmælisveislu…

Jújú, allskonar svona hallærisklúður viðgekkst en almennilegar mútur þekktust ekki og þar með var spilling ekki vandamál. Ég held að stór hluti Íslendinga sé meðvitaðri um það í dag en fyrir hrun, hvað spilling merkir og hvaða afleiðingar hún getur haft. Ennþá sér maður þó ótrúleg dæmi um skilningsleysi á hugtakinu, jafnvel meðal ráðamanna.

Spilling er það að nota aðstöðu sína til að hygla sér og sínum. Spilling á sér stað þegar einhver fær eitthvað, hvort sem það eru völd, verðmæti eða fyrirgreiðsla, á grundvelli tengsla sinna, áhrifastöðu, eigna eða hvers sem er, annars en lögbundins réttar og/eða verðleika. Það er líka spilling þótt verðleikarnir séu til staðar ef þessir þættir geta skekkt samkeppnisstöðuna.  

Spilling merkir ekki bara að stela og svindla, valta yfir aðra af fullkomnu samviskuleysi og hlæja svo eins og Láki jarðálfur að óförum fórnarlambanna. Spilling merkir líka það að misnota aðstöðu sína af einskærum velvilja. Vald spillir. Eða getur allavega spillt; einnig hinum góðu og óeigingjörnu. Jafnvel ómerkilegasta svindl og sjálftaka er með öllu óviðunandi vegna þess að það eru engin skýr mörk á milli smáspillingar og gjörspillingar.

Eitt af því sem gerir spillingu erfiða viðfangs er það hvað hún er í rauninni eðlileg. Það er ósköp mannlegt að vilja hjálpa þeim sem eru manni kærir, treysta þeim best sem maður þekkir og meta þá að verðleikum sem maður er tengdur. Þetta er í raun fallegur eiginleiki og mannlegt samfélag gæti ekki þrifist án hans. Flest okkar hafa einhverntíma notið góðs af tengslum eða „lagt inn gott orð“ fyrir einhvern, hjálpað til við að koma á fundi eða prentað eitthvað til einkanota á kostnað fyrirtækisins. Munurinn á spillingu og klíkuskap eða smávægilegri misneytingu, liggur fyrst og fremst í því hvort almannahagsmunir eru í húfi. Hvatinn er sá sami, hvort sem það er Binni í blómabúðinni eða stjórn OR sem ræður börn starfsmanna til vinnu. Bara eðlileg samhjálp. Já nema það er bara ekki „eðlilegt“ að slík tengsl séu stefna fyrirækis í almannaeigu; í því tilviki heita almennilegheit af þessu tagi kerfisbundin spilling.

Það er einmitt vegna þessa mannlega þáttar, þessarar eðlislægu tilhneigingar til að gera sjálfum sér og sínu fólki lífið auðveldara, sem er bráðnauðsynlegt að forðast það að koma stjórnmálamönnum og öðru valdafólki í aðstæður sem bjóða upp á spillingu. Ekki vegna þess að stjórnmálamenn séu spilltir, heldur vegna þess að þeir geta spillst.

Þegar ríkisstjórn Geirs Haarde féll, átti ég samræður við mann sem þótti verulega gott mál að VG kæmust til valda. Sjálf var ég ekkert uppveðruð því ég hafði vonast eftir kerfisbyltingu.
– Hversvegna heldur þú að spillingin hverfi með nýrri ríkisstjórn? Heldur þú að vinstri grænir séu eitthvað öðruvísi innréttaðir en sjálfstæðismenn? spurði ég.
– Nei, sagði hann, það held ég ekki. En það er tímabært að við sem ekki erum sjálfstæðismenn, fáum að nóta góðs af spillingunni.
Er það í boði? Gæti vinstri maður gert sig sekan um spillingu? Stjórnmálamaðurinn Sóley Tómasdóttir virðist álíta að það sé ótrúlegt. Hún leggur til að ábendingar rannsóknarnefndar OR um þá spillingu sem seta stjórnmálamanna í stjórnum fyrirtækja býður upp á, verði hundsaðar. Ekki af því að hún vilji misnota aðstöðu sína, heldur af því að hún telur sig hafna yfir mannlega tilhneigingu til að spillast.
Og þetta er vandamál íslenskrar spillingar í hnotskurn. Vandinn er ekki sá að fólk smygli sér inn í áhrifastöður með útsmogna áætlun um að sölsa undir sig völd og eignir, það bara gerist einhvernveginn af almennu andvaraleysi.  Stærsta spillingarvandamál Íslendinga er ekki einbeittur brotavilji, heldur fullkomið skilningsleysi of margra ráðamanna á eðli spillingar; og jafnvel á sjálfri merkingu hugtaksins.
Share to Facebook